Þúsund og ein nótt/Sagan af daglaunamanninum, hinum fimm konum í Bagdad, og hinum þremur konungbornu munkum

Úr Wikiheimild

46. nótt[breyta]

„Herra! Í þann tíma, sem Kalífinn Harún Alrasjid sat að völdum, bjó í Bagdad, aðseturstað hans, daglaunamaður einn, sem var séður og slóttugur karl, þó iðn hans væri auðvirðileg og lítils háttar.

Það var einhvern morgun, að hann gekk út með burðarkörfina sína og staðnæmdist á torginu, þar sem hann var vanur, og beið þess, að einhver beiddi sig handtaks, þá kom til hans yngiskona, prýðilega vaxin, með nettludúks blæju fyrir andliti, og kallaði til hans vinalega:

„Heyrðu, karl! Taktu körfina þína og gakktu með mér.“

Daglaunamaðurinn varð glaður við, er konan kastaði svo blíðlega kveðju á hann, og lét hann körfina jafnskjótt upp á höfuð sér og gekk á eftir henni, og mælti þetta fyrir munni sér: „Láns dagur, blessaður dagur, að okkar fundum bar saman!“

Konan leiddi hann að luktum dyrum á húsi einu og kvaddi dyra. Var þeim jafnskjótt lokið upp og kom út æruverðugur kristinn maður með sítt skegg; fékk hún honum peninga en sagði ekki orð. Hann hefur vitað, hvað hún vildi, því hann gekk burt og kom undir eins aftur með brúsa fullan af ágætasta víni. Skipaði konan daglaunamanninum að láta brúsann niður í körfina og fara með sér.

„Það veit hamingjan, að þetta er blessaður dagur,“ mælti daglaunamaðurinn, lét körfina með brúsanum í upp á höfuð sér og fylgdi konunni til aldina- og blómakaupmanns.

Valdi hún þar handa sér alls konar epli, apríkósur, lemónur, myrtus, basilíkum, liljur og jasmínur auk fleiri blóma og ilmjurta, skipaði daglaunamanninum að láta það í körfina og fylgja sér.

Síðan gekk hún til slátrara nokkurs og lét hann vega sér út tuttugu og fimm pund af hinu bezta kjöti, sem hann hafði til, og skipaði hún daglaunamanninum að láta það í körfina líka.

Í annarri sölubúð keypti hún keisarasalat, litla agúrka og kryddjurtir, súrsaðar í ediki. Í ennþá einni stórar og smáar hnetur, pinjur, möndla og þess konar ávexti; möndlabrauð keypti hún og hjá kryddbakara einum.

Þegar daglaunamaðurinn sá að körfin smámsaman fylltist af öllu þessu dóti, segir hann: „Frú mín! Hefðuð þér látið mig vita fyrir fram að þér ætluðuð að draga svona til búsins, þá hefði ég tekið með mér áburðarklár eða úlfalda og klyfjað þá. Ef þér kaupið meira, þá held ég verði ofhlaðið á bakið á mér.“

Konan brosti að glensi hans, en skipaði honum enn þá einu sinni, að fylgja sér til kryddara nokkurs; tók hún þar út í búðinni alls konar ilmandi vatn, pipar, múskat, negulnagla, engifer, stóran mola af grárri ambra og ýmsar indverskar kryddjurtir. Varð þetta allt að fara ofan í körfina daglaunamannsins og fór konan nú með hann að einu skrautlegu húsi; var það að framanverðu byggt á súlum og á því fílabeinshurð. Þar drap konan hægt á dyr....


47. nótt[breyta]

Meðan yngiskonan og daglaunamaðurinn biðu þess að upp væri lokið, stóð hann hugsandi og var að brjóta heilann út af þessu. Hann furðaði sig á, að önnur eins kona færi sjálf til slíkra kaupa, því ekki gat hann trúað því, að hún væri ambátt. Hún bar of mikla fyrirkvensku í yfirbragði sínu til þess, að hann gæti leitt sér í grun, að hún væri ófrjáls og ættsmá.

Ætlaði hann að spyrja hana um þetta, en í því bili lauk önnur kona upp dyrunum. Þótti daglaunamanninum hún svo yfirtaks fögur, að við sjálft lá, að hann missti körfina niður með öllu, sem í henni var. Hafði hann aldrei séð svo fríða konu á ævi sinni, að í nokkurn samjöfnuð kæmist við þessa, og kallaði hann því upp: „Þetta er sá mesti heilladagur, sem ég hef lifað á ævi minni.“

Konan, sem hafði farið með hann þangað, sá hvað hann hugsaði og skildi hann undir eins. Þótti henni gaman að og horfði framan í daglaunamanninn með grandgæfilegri eftirtekt og tók ekki eftir kveðjunni, þegar dyrunum var upp lokið.

Hin fagra kona, sem upp lauk, minnti hana á það og mælti: „Ætlarðu ekki að koma, elsku systir, hvað dvelur þig? Sérðu ekki að manntetrið kemst varla úr sporunum með byrðina?“

Þegar hún var komin inn með daglaunamanninum, var dyrunum lokað og gengu þau þrjú saman gegnum fagurt anddyri inn í víðan hallargarð, og voru þar opnar loftsvalir; var þaðan innangengt til margra skrautlegra herbergja. Lengst inni í garðinum var glæsilegur legubekkur og upp af honum miðjum hástóll úr rafi, sem stóð á fjórum fílabeinssúlum; var hann skreyttur undurstórum perlum og demöntum og breitt yfir hárautt indverskt þykksilki, fagurlega gullsaumað. Í miðjum garðinum var þró með hvítri marmara umgjörð, og yfir koparljón, logagyllt; gaus upp úr gini þess hið tærasta vatn og féll niður í þróna.

Svo erfitt sem daglaunamanninum gerðist undir byrðinni, var honum ómögulegt annað en að dást að skrautleika húss þessa og þrifnaði þeim, sem lýsti sér þar í öllu. Þó varð honum öllu fremur starsýnt á hina þriðju konu, er sat í hásætinu og þótti honum hún enn þá fríðari en önnur konan. Þegar hún sá báðar hinar konurnar, sté hún niður úr sæti sínu og gekk á móti þeim. Réði hann það af lotningu þeirri, er þær sýndu henni, að hún mundi tignust vera, enda fór hann ekki villt í því.

Hún hét Sobeide, sú, sem mest hafði keypt, hét Amíne og sú, sem upp lauk, hét Safíe.

„Elsku systur mínar!“ tók Sobeide til máls, „sjáið þið ekki, að mannskepnan ætlar að hníga niður undir byrðinni? Eftir hverju eruð þið að bíða, að þið skulið ekki létta á honum?“

Því næst tóku þær Amíne og Safíe körfina, önnur að aftan, en hin að framan, og Sobeide tók líka hendi til og hjálpaði þeim til að taka hana ofan af daglaunamanninum og setja hana niður.

Síðan tóku þær allt úr henni og að því búnu borgaði Amíne honum ríkmannlega og mælti um leið: „Nú máttu fara!“

Daglaunamaðurinn hefði nú átt að fara með körfina sína, en hann gat ekki fengið það af sér. Hann stóð í sömu sporum, hallaðist upp við körfina og undraðist fegurð hinna þriggja kvenna, sem honum þóttu allar jafn yndislegar að líta, því Amíne hafði líka tekið af sér blæjuna og stóð alls ekki á baki hinna.

Því skildi hann ekkert í, að hann sá þar engan karlmann; hæfðu þó mestöll matföngin, sem hann hafði borið, þeim, sem ætluðu að drekka og vera glaðir, að minnsta kosti þurrkuðu ávextirnir, kræsikökurnar og súrsuðu réttirnir.

Sobeide hélt í fyrstunni að daglaunamaðurinn ætlaði að kasta mæðinni ofurlitla stund, en er hún sá að hann aldrei ætlaði að fara, spurði hún hann: „Eftir hverju ertu að bíða?“


48. nótt[breyta]

„Herra!“ tók Sjerasade til máls, „þegar nú daglaunamaðurinn hýmdi þarna grafkyrr, spurði Sobeide hann, eftir hverju hann væri að bíða og mælti enn fremur: „Þótti þér illa borgað?“

Síðan veik hún sér að Amíne og segir: „Elsku systir! Gefðu manninum eitthvað svo hann fari glaður í burt.“

„Frú mín!“ anzaði daglaunamaðurinn, „annað er það, sem mig dvelur; verk mitt er marg- margborgað. Það er sjálfsagt ósiður af mér, að vera hér lengur, en þið væruð samt aldrei nema vísar til að virða mér til vorkunnar, þó ég yrði hlessa á því, að sjá þrjár konur karlmannslausar, sem eru svo ljómandi fallegar.

Kvenfólkið á eins bágt með að skemmta sér án karlmanna, eins og karlmennirnir án kvenfólksins. Þið vitið, að turn stendur ekki fastur nema á fjórum múrum, og það segja þeir hérna í Bagdad, að illa sé etið, ef ekki eru fjórir. Þið eruð ekki nema þrjár, og vantar fjórða mann, eftirlitsmann og launhygginn, sem gæti haldið því, sem að honum væri skotið.“

Síðan fór hann með þessar vísur:

„Fegurst veit ég fernan óm
að fegins glaumi kalla:
Pípna, gígna, hörpu hljóm
og hreiminn fiðlu snjalla.
Fernan ilm þar eftir kjós
unaðsætan fanga:
lifku (svo nefni ég ilmjurtina „Levkoj“ (mathiola).) myrtus, lilju, rós,
ljúft, sem vitum anga.
Fernt má njóta sælast sín,
ef saman hinu tengist:
auður, æska, ást og vín,
ó, að það jafnan fengist!“

Þær systur hlógu dátt að ræðu daglaunamannsins, en síðan tók Sobeide til máls og gerði sig alvörugefna á svipinn. „Ljúfurinn minn! Mér þykir þú gera þér heldur dælt við okkur. En þú skalt ekki gjalda þess og þó þú sért þess ómaklegur, að ég fari að gefa mig á tal við þig og gera þér grein á nokkru, skal ég allt fyrir það segja þér, að við erum systur, og förum svo huldu höfði, að enginn maður veit um okkar hagi. Því meiri varhyggð verðum við að gjalda við, að gera það uppskátt fyrir þeim, sem yfir engu geta þagað, og svo segir í góðri bók, sem við höfum lesið: „Yfir leyndarmáli þínu skaltu þegja, og engum segja, því sá glatar því, sem gerir það uppskátt. Getir þú ekki geymt það í þínu eigin hjarta, hversu máttu þá ætlast til þess af öðrum?“

„Það veit heilög hamingjan!“ segir daglaunamaðurinn, „mér kom þetta undir eins í hug, að þið munduð vera mikillátar, og ég hef getið rétt til. Þó forlögin hafi aldrei látið mér auðnast að komast hærra en að vera það, sem ég er, þá er ég samt skynugur og áreiðanlegur maður. Ég hef reynt að nema allan fróðleik, sem mér var unnt, af fræðibókum og sagnaritum og kann ég deili á, hvað segja skal og hverju skal þegja yfir. Nú ætla ég með ykkar leyfi að tilfæra grein úr einni bók, sem ég hef lesið; hefur sú grein ætíð verið mér föst í minni:

„Geymdu launungarmál þitt fyrir þeim, sem er frekur og framgjarn; hann mundi illa með fara; vitrum manni skaltu óhræddur trúa fyrir því; hann getur varðveitt það. Hjá mér eru leyndarmál læst niður, eins og í lokuðu húsi með innsigluðum dyrum, sem lykillinn er týndur að.“

Sobeide þóttist af öllu mega ráða, að daglaunamanninum væri ekki vits vant, og mundi hann feginn vilja vera gestur við máltíð þá, er þær ætluðu að halda; segir hún því við hann brosandi: „Þú veizt að við höfum töluverðu kostað til máltíðarinnar; það væri því ósanngjarnt að þú skyldir njóta hennar og ekkert til gjalda.“

Safíe var því samdóma og mælti: „Góðurinn minn, félaus vinátta er léttari en sandkorn. Hefurðu ekki heyrt þetta: „Komirðu með nokkuð, þá ertu nokkurs verður; komirðu tómhentur, þá farðu tómhentur.“

Þó að daglaunamaðurinn hefði lipurt tungutak, mundi hann þó að lokum hafa orðið að hypja sig burt með kinnroða, hefði Amíne ekki skorizt í leikinn fyrir hans hönd. „Elsku systur!“ tók hún til máls, „ég sárbæni ykkur, lofið þið honum að vera hjá okkur. Ég þarf ekki að segja ykkur, að við munum hafa skemmtun af honum, því þið hafið sjálfar tekið eftir því, að hann vantar ekki gáfur til þess. Það megið þið vita, að mér hefði verið ómögulegt að annast svo margt á jafnstuttum tíma, hefði hann ekki komið mér að haldi með góðvilja sínum, lipurleika og kröftum. Segði ég ykkur alla þá kurteisi og öll þau fagurmæli, sem hann lét mig heyra á leiðinni, þá munduð þið ekki undrast, að ég dreg hans taum. Ég skal því taka að mér að greiða hans tillag til máltíðarinnar.“

Hinar systurnar svöruðu þessu: „Gott og vel, tylltu þér þá niður og vertu velkominn!“

Daglaunamaðurinn varð frá sér numinn af þessum orðum Amíne, féll á kné, kyssti gólfið frammi fyrir fótum hennar og mælti í því hann stóð upp: „Yndislega kona, í dag létuð þér lán mitt uppbyrjast og nú fullkomnið þér það með göfuglyndi yðar. Ég get ekki nógsamlega þakkað yður fyrir það,“ mælti hann ennfremur og veik sér að hinum systrunum: „Þið skuluð ekki ætla, að ég muni illa fara með þann mikla sóma, sem mér er sýndur og þykist ég sjálfur enga verðleika eiga til hans. Ég skal ætíð virða mér til sæmdar að vera ykkar auðmjúkasti þræll.“

Síðan ætlaði hann að fá þeim aftur fé það, er hann hafði þegið, en hin alvörugefna Sobeide sagði honum, að hann skyldi eiga það og mælti: „Það, sem við einu sinni höfum látið af hendi fyrir gerðan greiða, á ekki afturkvæmt til okkar“....

Dínarsade sárnaði mjög að morgunbirtan skein, þegar þangað var komið sögunni. Varð Sjerasade þá að hætta.


49. nótt[breyta]

Undir eins og drottning var beðin framhalds á sögunni, er hún hafði hætt við nóttina áður, tók hún þannig til frásagnar á þessari nótt:

„Herra! Sobeide drap hendi við fénu, sem daglaunamaðurinn ætlaði að fá henni aftur og mælti á þessa leið: „En gættu þess, kunningi, að vér leyfum þér því að eins að vera hjá okkur, að þú bæði þegir yfir öllu, og gætir vandlega allrar siðsemdar og kurteisi.“

Í því hin yndislega Amíne mælti þannig, tók hún af sér möttulinn, er hún hafði farið í, þá er hún gekk út. Stytti hún klæði sín upp um sig með beltinu, svo að henni væri léttara um allar hreyfingar og bjó hún síðan til borðs. Bar hún fram ýmsa rétti og setti vínflöskur og gullbikara fram á drykkjarborð.

Síðan settust þær systur til borðs og buðu daglaunamanninum að setjast hjá sér og réði hann sér varla fyrir fögnuði, að sjá þrjár konur svo fallegar andspænis á móti sér. Tók þá Amíne flösku og bikar, hellti á og drakk út eftir serkneskum sið; síðan hellti hún á fyrir systur sínar eftir röð, og drukku þær sömuleiðis og skenktu á sama bikarinn og réttu daglaunamanninum.

Í því hann tók við bikarnum kyssti hann á hönd Amíne, og áður en hann drakk, hafði hann vísu þessa yfir:

„Sæl eins og sumargola,
sunnan of liljur runnin,
dreifist ilmhlaðin yfir,
angandi ljúft um vanga,
kýs ég mér svo hið svása,
sætar gómsker væti
vín, er sætt fram settu,
sundbáls lilju mundir.“

Hendu systurnar gaman að þessu; síðan sungu þær og af víndrykkjunni gerðist samsætið glaðara og glaðara og nokkuð glensmikið. Konurnar slepptu sér öldungis í kætinni, eins og enginn karlmaður væri viðstaddur og gekk það, sem eftir var dagsins, í gleði og gamni.

En er komið var undir nótt sagði Safíe loksins við daglaunamanninn: „Farðu nú, og láttu okkur sjá á bakið á þér, eins og það er breitt til.“

Það gat daglaunamaðurinn ekki fengið af sér og svaraði: „Nei, fallegu systur! Mér mundi sannarlega verða léttara um viðskilnað sálar við líkama en að fara frá ykkur. Hvert ætti ég þá að fara svo sem ég er til reika? Ég er öldungis af göflum genginn bæði af víndrykkjunni og af því að sjá ykkur, og mér mundi þykja óverandi á heimili mínu. Lofið mér að vera hérna í nótt, svo að ég geti komið til sjálfs mín; ég skal vera hvar sem þið viljið. En svo mikils tíma þarf ég að minnsta kosti til þess, að komast í samt lag aftur. Og þó er ég hræddur um, að það verði eftir af mér, sem bezt er.“

Amíne tók daglaunamanninn að sér í þetta sinn eins og fyrr og mælti: „Elsku systur! Maðurinn hefur rétt að mæla, og hlýt ég að leggja til með honum. Hann hefur skemmt okkur prýðilega, og ef ykkur er nokkuð hlýtt til mín, og þið unnið mér, sem ég ætla, þá skulum við hafa hann hjá okkur í kvöld.“

„Þér getum við ekkert á móti látið „, sagði Sobeide og sneri sér síðan að daglaunamanninum og mælti: „Vér auðsýnum þér líka þessa náð, en setjum þenna skilmála um leið: að hvað sem hér kann fyrir þig að bera, að okkur eða öðrum nærstöddum, þá máttu ekki einu sinni ljúka munni sundur til þess að spyrja okkur um orsakir. Því ef þú ber upp fyrir okkur spurningar um það sem þig varðar ekki um, þá kynnir þú að fá það að heyra, sem þér gætist ekki að. Vertu því forsjáll og láttu þér ekki í hug koma, að vera forvitinn og reyna að komast fyrir, hvernig á því stendur, sem við gerum.“

Daglaunamaðurinn svaraði: „Því lofa ég ykkur, að gæta þessa skilyrðis svo samvizkusamlega, að þið hafið enga ástæðu til að átelja mig, og enn síður til að áminna mig fyrir ókurteisi. Tunga mín skal vera stirð sem tré og augu mín skulu vera skuggsjá, sem ekkert verður eftir í af því, er hún speglar.“

„Svo þú gangir úr skugga um það,“ tók Sobeide til máls með mikilli alvörugefni, „að þetta er ekki nýtt uppátæki, að við krefjumst þessa af þér, þá stattu upp og lestu það, sem skrifað er þarna að innanverðu yfir dyrunum.“

Daglaunamaðurinn gerði það og las þar þessi orð skrifuð með gullletri: „Talaðu ekki um það, sem þig varðar ekki um, ella heyrirðu það, sem þér illa líkar.“

Þegar hann kom aftur til systranna mælti hann: „Ég vinn þess dýrstan eið, að þið skuluð ekkert það til mín heyra, sem mig skiptir engu og ykkur kann að snerta.“

Nú sem þau höfðu komið sér saman um þetta, bar Amíne kvöldverð á borð. Salurinn var lýstur mörgum ljósum; loguðu þau af olíu og reykelsi og sendu frá sér sætan ilm; síðan settust þær systur til borðs með daglaunamanninum. Var þá tekið á ný til matar og drykkjar, söngs og kvæðalesturs, og systurnar lögðust á eitt, að drekka daglaunamanninn undir borð, og gerðu það undir því yfirvarpi, að láta hann drekka minni þeirra. Ekki vantaði heldur skrítnar og gamansamar ræður, og léku þau öll við hvern sinn fingur; en í því var drepið á dyr að utan....

50. nótt[breyta]

Þegar drepið var á dyr, stóðu allar þrjár systurnar upp. En Safíe, sem hafði þá sýslu, að gæta dyranna, varð fyrst og biðu því hinar þangað til hún kæmi aftur og segði, hver erindi ætti á þeirra fund svo seint á degi.

Leið ekki á löngu áður Safíe kom aftur og sagði: „Elsku systur! Nú gefst bezta tækifæri til að hafa ágæta skemmtun nokkurn hlut næturinnar, og ef ég má ráða, þá skulum við ekki sitja það af okkur. Hér eru þrír munkar fyrir dyrum - að minnsta kosti ræð ég það af búningi þeirra - og það mun ykkur þykja kynlegt, að þeir eru allir blindir á hægra auga og hafa rakað af sér hár, skegg og augabrúnir. Segjast þeir vera rétt nýkomnir til Bagdad, og aldrei hafa komið hér áður.

En af því nú er komin nótt og þeir áttu sér engan náttstað vísan, þá börðu þeir að dyrum hjá okkur upp á von og óvon, og biðja þeir okkur fyrir guðs sakir, að gera það miskunnarverk, að taka við sér. Þeim stendur á sama, hvar við hýsum þá, ef þeir að eins hafa þak yfir höfði, og mundu þeir verða guðsfegnir að liggja í hesthúsi.

Annars eru þeir ungir og ekki ljótir; þeir munu ekki heldur vera skyni skroppnir; en ekki get ég að mér gert, að hlæja þegar ég hugsa til þess, hvað undarlega og afkáralega þeir líta út.“

Þá setti svo mikinn hlátur að Safíe, að hún kom ekki upp orði, en hinar systurnar og daglaunamaðurinn hlógu ósjálfrátt með henni.

„Systur sælar!“ tók Safíe aftur til orða, „viljið þið ekki lofa þeim að koma inn? Þegar við höfum hjá okkur slíka gesti, getum við endað daginn betur en við byrjuðum hann. Við munum hafa af þeim mestu skemmtun og ekki verða leiðar á þeim, því þeir beiðast ekki gistingar, nema þessa nótt, og munu fara af stað fyrir sólaruppkomu.“

Sobeide og Amíne töldu tormerki á beiðni Safíe og vissi hún vel, hvað þeim gekk til; en hún lagði svo fast að þeim, að þær gátu ekki synjað henni.

„Það er þá bezt þeir komi inn,“ mælti Sobeide loksins, „en gleymdu ekki fyrir alla muni, að leggja ríkt á við þá, að þeir ekki tali um hluti, sem þá varðar ekki um, og að þeir lesi letrið yfir dyrunum.“

Safíe fór nú ánægð til dyra og kom skjótt aftur með þrjá förumunkana; hneigðu þeir sig djúpt þegar þeir gengu inn. Þeir staðnæmdust frammi við dyr eins og er siður húsganga, en konurnar stóðu upp, báðu þá velkomna með blíðu, og sögðu sér væri sönn gleði að því, að sér gæfist færi á að greiða fyrir þeim og hressa þá eftir ferðahrakningana, og buðu þær þeim að setjast niður.

Förumunkunum fannst mikið um viðhöfn húsakynna og hina göfuglegu látprýði þeirra systra. En áður en þeir settust niður, ráku þeir augun í daglaunamanninn, og af því hann var líkt búinn og sumir aðrir förumunkar, sem þeir áttu í deilum við um ýmsar félagsreglur, af því þeir rökuðu hvorki skegg né augabrúnir, þá segir einn:

„Nei, sjáið, þarna er einn af hinum vantrúuðu arabisku munkum!“

Vínið var farið að svífa á daglaunamanninn og var hann hálfsofandi; reiddist hann þegar þannig var talað til hans, horfði til þeirra ógnandi augum og mælti: „Setjist þið niður og skiptið ykkur ekki um það, sem ykkur varðar ekki um. Hafið þið ekki lesið letrið yfir dyrunum? Verið þið ekki svo djarfir, að vilja þröngva öðrum til ykkar lífernishátta, heldur lagið ykkur eftir okkar siðum.“

„Ljúfurinn minn,“ anzaði förumunkurinn, sem hafði móðgað hann, „verið ekki of bráður; okkur þætti sárillt að hafa valdið því á nokkurn hátt. Þvert á móti erum vér boðnir og búnir til hvers, sem vera skal fyrir yður.“

Gengu konurnar í milli og komu í veg fyrir alla þrætu, sem hefði getað risið út af orðaþrasi þessu, og er förumunkarnir voru setztir niður, var matur borinn á borð fyrir þá. Æringinn hún Safíe lét sér einkum annt um, að skenkja þeim óspart vín....“


51. nótt[breyta]

„Þegar förumunkarnir höfðu snætt eins og þeir höfðu lyst á og drukkið stinnt, tók daglaunamaðurinn til orða: „Heyrið, góðir hálsar, kunnið þið ekki einhverja kynjafulla sögu, eða eitthvað þess konar til að skemmta okkur?“

Vínið var nú þegar farið að svífa á förumunkana. Kváðust þeir gjarna vilja leika saman á hljóðfæri, ef þar væru söngtól fyrir hendi. Systurnar tóku fegnar þessu boði og Safíe sótti óðara fiðlu, bjöllubumbu og persneska hörpu.

Tók sinn förumunkur hvert söngfæri og léku þeir saman vísnalag. Kunnu þær systur vísurnar; það voru gamanvísur og sungu þær undir með hljóðfærunum. En öðru hverju hlógu þær upp úr að orðunum, svo að söngurinn hætti í miðju kafi, og var hin mesta gleði og glaumur í samsæti þessu, en í því var drepið á dyr.

Safíe hætti undir eins að syngja og gekk út til að sjá, hvað um væri að vera.“

Á þessum stað í sögunni veik Sjerasade sér að Sjarjar svo mælandi: „Það væri ekki fjarri, að yðar hátign fengi að vita, hvers vegna svo seint var barið á dyr hjá þeim systrum. En því veik svo við, að kalífinn Harún Alrasjid fór oft út um nætur í dularbúningi, til þess að komast eftir, hvort allt væri kyrrt í borginni og engin óregla hefðist að.

Á þessari nótt hafði hann nú í sama skyni tekið á sig dularbúning; fylgdu honum þeir Gíafar, stórvezír, og Mesrúr, höfuðsmaður geldinganna. Voru þeir allir búnir sem kaupmenn. Þegar þeir gengu gegnum strætið, þar sem systurnar bjuggu, og heyrðu hljóðfærasláttinn, sönginn og hlátrana, mælti kalífinn við Gíafar:

„Berðu að dyrum á þessu húsi, sem hávaðinn og glaumurinn er í; ég ætla að bregða mér þar inn og spyrja, hvernig á því standi.“

Vezírinn leiddi honum fyrir sjónir, að þetta væru konur, sem gerðu að gamni sínu og væru líklega orðnar góðglaðar af víni; væri ekki vert að eiga undir þeim, þær kynnu að sýna af sér einhverja meingjörð, enda væri þetta ótilhlýðilegur tími, og ætti ekki að glepja fyrir þeim skemmtun þeirra, en kalífinn ítrekaði skipun sína allt fyrir það.

„Hugsaðu um það,“ mælti hann, „hvað við eigum að bera fyrir okkur, svo að okkur verði lofað inn.“

„Ég heyri og hlýði,“ segir Gíafar, og það var því hann, sem barði að dyrum hjá þeim systrum. Þegar Safíe lauk upp, sá vezírinn undir eins við ljósbirtuna að innan, að konan var forkunnar fögur; hneigði hann sig djúpt og mælti með lotningarfullri kurteisi:

„Lafði mín! Hér erum við komnir, þrír kaupmenn frá Mússúl; eru tíu dagar síðan við komum til Bagdad, og komum við varnings farangri okkar fyrir til geymslu í einu gestaherbergi. En í dag vorum við boðnir til kaupmanns nokkurs í veizlu; sátum við lengi saman yfir víndrykkju og villtumst á leiðinni heim til herbergis vors í myrkrinu. Líklega er nú þegar búið að loka þar, og verður þá fyrst lokið upp snemma á morgun. Réðum við það af hljóðfæraslættinum og söngnum, að hér væri ekki háttað, og dirfðumst við því bæði þess vegna og af því við erum ókunnugir, að berja á dyr hjá yður, og biðja yður, að skjóta skjólshúsi yfir okkur til morguns. Guð mun launa yður það. Þyki yður við vera þess verðir, að taka þátt í skemmtun yðar, þá skulum við gera allt, sem í voru valdi stendur og bæta þannig leikspjöllin. En að öðrum kosti, þá gerið okkur þann greiða, að lofa okkur að vera frammi í húsi yðar.“

Meðan Gíafar talaði þetta, hafði Safíe nógan tíma, til að virða hann fyrir sér og báða hina kaupmennina. Sýndist henni þeir ekki vera alþýðumenn eftir útliti og sagði hún þeim því, að hún ætti þar ekki húsráð, en kvaðst skyldu færa þeim svar, ef þeir vildu bíða stundarkorn.

Fór Safíe þá til systra sinna og ráðgaðist við þær, hvað til bragðs skyldi taka. Voru þær í fyrstunni á báðum áttum, en af því þær voru brjóstgóðar, og höfðu veitt förumunkunum hina sömu bæn, urðu þær á það sáttar að taka við kaupmönnunum....


52. nótt[breyta]

Hin fagra Safíe fór og lauk upp fyrir hinum þremur gestum, er létust vera kaupmenn; spurðu þeir þá: „Leyfist oss inn að ganga?“

„Komið þið inn,“ anzaði hún.

Þegar hún nú kom með kalífann, stórvezír hans og geldinga höfðingjann, heilsuðu þeir konunum og förumunkunum vingjarnlega. Tóku þær systur að sínu leyti eins vel á móti kaupmönnunum, sem þóttust vera;

Sobeide var fyrir svörum, því hún hafði fyrst talað við þá; mælti hún með siðprúðri alvörugefni: „Verið velkomnir, gestir vorir! En fyrirgefið, að vér setjum yður einn lítinn skilmála. Það er ósk vor, að þér hafið augu en ekki tungu, og hvað sem þér sjáið, að þér ekki talið um það, sem yður varðar ekki um, að öðrum kosti munuð þér fá það að heyra, sem yður líkar illa.“

„Vér heyrum og hlýðum,“ anzaði Gíafar, „vér erum engir siðameistarar; eigi erum vér framir né forvitnir, og höfum fullt í fangi, að gæta þess, sem oss varðar um, þó vér ekki slettum oss fram í það, sem oss skiptir engu.“

Meðan Gíafar fórust þannig orð, gat kalífinn ekki þreytzt á, að dást að frábærum fríðleik hinna þriggja systra, siðprýði þeirra og andríkri fyndni. Eins komu hinir þrír förumunkar honum kynlega fyrir sjónir, og langaði hann til að vita, hvers vegna þeir allir væru blindir á hægra auga; en hann mátti ekki spyrja um það vegna skilyrðis þess, sem sett var honum og förunautum hans. En er hann gætti að, með hvílíkri auðlegð og fegurð öllu var skipað innanhúss, hvílíkur þrifnaður og þokki lýsti sér í öllu, þá gat hann ekki öðru trúað en að þetta væri ekki einhama.

Nú voru allir setztir niður og var glatt á hjalla, báru konurnar komumönnum bæði mat og drykk. En er Amíne byrlaði kalífanum vín, afþakkaði hann það svo mælandi: „Ég er pílagrímur,“ og settist hann að því mæltu afsíðis. Síðan breiddi Safíe dúk á borð og bar fyrir hann postulíns könnu, hellti í hana lindiblóms vatni, og lét í það sykur og kældi með ís. Þakkaði kalífinn fyrir þenna greiða og hugsaði sér að endurgjalda hann um morguninn.

Nú var aftur mesta gleði og glaumur í samsætinu. Förumunkarnir voru uppstaðnir og stigu dans einn eftir sínum sið. Fengu konurnar enn betri þokka á þeim en áður fyrir þetta, og urðu þeir einnig kalífanum og fylgdarmönnum hans vel að skapi.

En er þeir höfðu lokið dansinum stóð Sobeide upp, tók um hönd Amíne og mælti: „Elsku systir! Stattu upp; gestir vorir munu ekki taka það illa upp, þó við leggjum enga þvingun á okkur, heldur gerum skyldu okkar eins og við erum vanar.“

Amíne skildi glöggt, hvað systir hennar átti við, stóð því upp og bar út diskana, flöskurnar, bikarana, borðið og hljóðfærin, sem förumunkarnir höfðu leikið á. Safíe var ekki heldur aðgjörðalaus; hún sópaði salinn, setti húsgögnin, hvert á sinn stað, gerði að ljósunum og kveikti á nýju reykelsi.

Síðan beiddi hún þrjá förumunkana að setjast öðrumegin á legubekkinn, en þremur kaupmönnunum hinumegin, en daglaunamanninum skipaði hún að standa upp; væri hann enginn gestur, heldur heimilismaður og ætti því að vera hjálplegur með það, sem þær væru að gera.

Það var nú runnið dálítið af daglaunamanninum, var hann því léttur á fæti, girti klæði sín upp undir beltið og mælti: „Hér er ég, hvað er að gera?“

„Ekki liggur á,“ anzaði Safíe, „bíddu þangað til þér verður skipað; þú skalt ekki þurfa að standa lengi iðjulaus.“

Að vörmu spori kom Amíne með stól og setti hann niður í miðjum salnum. Síðan gekk hún til hliðardyra á herberginu og benti daglaunamanninum að koma með sér; fór hann með henni út úr salnum og kom jafnskjótt aftur með tvær svartar tíkur.

Á hvorri þeirra um sig var helsi og keðja við; teymdi daglaunamaðurinn þær við keðjurnar fram á mitt gólfið í salnum; voru tíkurnar þesslegar, sem þær hefðu verið miskunnarlaust lamdar.

Nú stóð upp Sobeide, er setið hafði milli förumunkanna og kaupmannanna; gekk hún með alvörugefnum svip til daglaunamannsins og mælti með þungu andvarpi: „Gerum þá skyldu okkar!“

Því næst bretti hún upp ermunum, tók við svipu, er Safíe rétti henni, og segir við daglaunamanninn: „Farðu með aðra tíkina til hennar Amíne, systur minnar, en komdu til mín með hina.“

Daglaunamaðurinn gerði eins og honum var sagt; þegar hann kom til Sobeide, fór tíkin, sem hann teymdi, að ýla aumkvunarlega og skrækja, svo að undir tók í öllu húsinu, og mændi hún bænaraugum til Sobeide. En hún skeytti því alls ekki, heldur barði veslings kvikindið þangað til hún var uppgefin.

Því næst fleygði hún svipunni, tók keðjuna úr hendi daglaunamannsins, lét tíkina setjast á afturfæturna og horfðust þær síðan í augu sorgbitnar og raunalegar og kom upp fyrir þeim mikill grátur.

Loksins tók Sobeide vasaklút sinn, þerraði tárin af tíkinni, kyssti hana og sagði við daglaunamanninn: „Farðu aftur með hana þangað sem þú sóttir hana, og færðu mér nú hina!“

Fór hann þá með hana inn í herbergi, sem var þar til hliðar, og sótti síðan hina tíkina til Amíne, og gekk með hana til Sobeide. Fór Sobeide allt að einu með hana eins og hina fyrri, og er hún hafði grátið með henni, þerrað af henni tárin og kysst hana, fékk hún hana daglaunamanninum. En Amíne tók af honum ómakið, að fara með tíkina inn í herbergið og gerði hún það sjálf.

Förumunkarnir, kalífinn og fylgdarmenn hans urðu öldungis forviða af þessari refsingu. Gátu þeir ómögulega skilið í því, að Sobeide skyldi gráta með tíkunum og kyssa þær, þegar hún hafði lamið þær svo ákaft.

Þessu voru þeir nú að velta fyrir sér, hver í sínu lagi, en kalífinn var þeirra óþolinmóðastur og brann af löngun til að vita, hvernig stæði á svo fáheyrðu athæfi. Benti hann Gíafar hvað eftir annað, að hann skyldi spyrja, en hann lét eins og hann sæi það ekki, og svaraði með bendingum, að enn væri ekki tími til þess.

Sobeide stóð stundarkorn á miðju gólfinu í salnum, og var sem hún kastaði mæðinni, er hún hafði fengið af því, að berja tíkurnar.

Loksins sagði Safíe við hana: „Elsku systir! Viltu ekki setjast í sæti þitt, svo að ég geti líka gert mína skyldu.

„Jú,“ anzaði Sobeide og settist á legubekkinn til vinstri handar kalífanum og hægramegin við þrjá förumunkana og daglaunamanninn....“


53. nótt[breyta]

„Þegar Sobeide hafði aftur setzt í sæti sitt á legubekkinn, voru allir hljóðir um stund, þangað til Safíe, er sat á stól á miðju salargólfinu, sagði við Amíne: „Elsku systir! Fyrir alla guðs muni, stattu upp, þú veizt hvað ég vil.

Amíne stóð upp og gekk inn í annað herbergi en það, sem tíkurnar voru sóttar í; hún kom skjótt aftur og bar kistil, lagðan gulu þykksilki, sem var útsaumað gulli og grænum þræði.

Gekk hún til Safíe, lauk honum upp, og tók upp úr honum strengja-hljóðfæri og rétti henni; hún var nokkra stund að stilla það, en síðan hrærði hún strengina og söng svo ununarlega sætt og fagurt, að kalífinn og allir, sem viðstaddir voru, urðu hugfangnir þó kvæðið væri raunalegt, en það var svona:

Ó, látið mína augabrá
aftur værðina sætu fá!
Segið, hví blunds er synjað mér,
segið, hvert vit mitt flúið er.
Þegar ég lagði lag við ást,
líknsama hvíldin óðar brást;
nú verður augum aldrei rótt,
andvaka ligg ég hverja nótt.
Hrein vér áður þín hugðum stig,
hver ginnti af réttum vegi þig?
Þín fögru augun ollu því,
að yfir dimma sorgar ský.
Þó að mig lékir þungt og kalt,
þér fyrirgefa skal ég allt;
mín var ei heldur mótgjörð smá;
magnaði skapraun harmur sá.
Djúpt í míns hugar skuggsjá skein,
skærari en sól, þín ásýnd hrein;
sá kveikti himinbjarmi bál
brennandi heitt í minni sál.

„Nei“, mælti Safíe við Amíne, „ég get ekki sungið meira, því mér förlast raustin. Syng þú og leik á hljóðfærið í minn stað.“

„Það er velkomið,“ anzaði Amíne, tók við hljóðfærinu af Safíe og settist í sæti hennar; fyrst lék hún einungis á það, en síðan söng hún, líkt og Safíe, vísur þessar:

Í mínu hjarta áttu byggð,
en augað þig ei lítur;
hélztu eldheitrar ástar tryggð,
um eilífð, sem ei þrýtur?
Eða hugsarðu ei hót til mín,
hér sem grátandi minnist þín?
Sorgin mig sundur slítur.
Ó, hjartað nagar harmur sár,
er helzt ég vildi leyna,
og niðraf vöngum velta tár,
viljalaus hlýt ég kveina;
en hittumst dóms á degi við,
drottinn alvaldan þá ég bið,
prófa mitt hjartað hreina.

„Guð bænheyri þig,“ mælti Sobeide, „þú söngst blítt og fagurt, og það var auðheyrt, að sá harmur gekk þér til hjarta, sem þú lýstir með svo hjartnæmum orðum.“

Amíne gat engu svarað; hún hafði sungið svo ákaft og útausið svo hjarta sínu og tilfinningum, að hún fékk andköf og lá við óviti.

Hún losaði ósjálfrátt um klæði sín, til þess að sér yrði léttara, en við það atvik brá mjög þeim, er viðstaddir voru, því þeir sáu háls hennar og brjóst, og var allt afmyndað af örum. En hún hresstist alls ekki og hné allt fyrir það í ómegin....“


54. nótt[breyta]

„Meðan Sobeide og Safíe hlupu til að stumra yfir systur sinni, mælti kalífinn við Gíafar: „Sérðu örin á konunni þarna? Ég get ekki þegjandi horft á það, og ég hef engan frið fyrr en ég veit, hvernig hún er við riðin báðar tíkurnar.“

Í því heyrði hann einn af förumunkunum segja: „Við mundum heldur hafa kosið að liggja úti en fara hér inn, hefði okkur komið til hugar, að við mundum sjá slíka sjón.“

Þegar kalífinn heyrði þetta, gekk hann til förumunkanna og mælti: „Hvað á allt þetta að þýða?“

„Herra! Við erum ekki fróðari en þér,“ svaraði sá, er fyrr talaði.

„Þér eruð þá ekki heimamaður hér,“ segir kalífinn, „getið þér enga úrlausn veitt um báðar svörtu tíkurnar og konuna, sem féll í öngvit og var svo hörmulega útleikin?“

„Herra!“ svaraði förumunkurinn, „við höfum aldrei á ævi okkar stigið fæti í þetta hús; við komum stundarkorni á undan yður.“

Kalífinn undraðist nú enn meira og mælti: „Hver veit nema maðurinn þarna geti sagt okkur eitthvað um það.“

Benti þá einn af förumunkunum daglaunamanninum að koma og spurði hann, hvort hann ekki vissi hvers vegna báðar svörtu tíkurnar hefðu verið lamdar og hversvegna svo mörg ör væru á brjósti Amíne.

Svaraði þá daglaunamaðurinn þessum orðum: „Herra! Það veit guð almáttugur, sem uppi yfir mér er, að ef þér ekki vitið, hvernig á þessu stendur, þá förum við allir jafnnærri um það. Raunar á ég heima hérna í borginni, en aldrei hef ég áður verið undir þessu þaki fyrr, og þyki yður undarlegt að sjá mig staddan hér, þá þykir mér undarlegt að sjá yður. Ég fyrir mitt leyti undrast hálfu meir, að enginn karlmaður skuli vera hjá þessum konum.“

Kalífinn, fylgdarmenn hans og förumunkarnir höfðu haldið, að daglaunamaðurinn ætti þar heima, og mundi geta satt forvitni þeirra. Kalífinn hugsaði nú, að hann skyldi fyrir hvern mun komast fyrir, hvernig á öllu stæði, og segir hann þá við hina: „Ég skal segja ykkur nokkuð, vér erum sjö manns á móti þremur konum. Samt skulum vér fara að þeim bónarveg um það, er vér viljum vita, en segi þær oss það ekki með góðu, getum vér kúgað þær til þess með valdi.“

Móti þessu mælti stórvezírinn og leiddi kalífanum fyrir sjónir, hvað af slíku mætti leiða, en stillti samt orðum sínum svo, að förumunkarnir ekki vissu, hvern hann átti tal við.

„Herra!“ mælti Gíafar og hagaði máli sínu eins og hann væri að tala við kaupmann, „ég bið yður gæta þess, að við megum ekki skerða lánstraust vort. Vér erum gestir hér og þér munið, með hverju skilyrði var tekið á móti oss. Það væri því illt til afspurnar, ef vér brygðum út af því. Og enn ámælisverðari værum vér, ef nokkur óheill stæði af oss, því grunur minn er það, að þessa loforðs hefði ekki verið krafizt af oss, nema ráð væru til að gera oss þann óleik, að vér mættum iðrast afbrigðanna.“

Því næst tók Gíafar kalífann afsíðis og hvíslaði að honum: „Herra! Nóttin er senn á enda, og vildi ég, yðar hátign þóknaðist að hafa þolinmæði. Snemma á morgun skal ég leiða fyrir hásæti yðar konur þessar, og munuð þér þá fá allt að vita, sem þér viljið.“

Svo hyggilegt sem ráð þetta var, féllst kalífinn samt ekki á það; hann skipaði vezírnum að þegja og kvaðst ekki geta beðið svo lengi, og vildi hann undir eins komast fyrir, hvernig á öllu stæði.

Nú var vandinn sá, hver orð skyldi hafa fyrir þeim. Kalífinn leitaðist við að fá förumunkana til þess, en þeir skoruðust undan. Loksins kom mönnum saman um, að láta daglaunamanninn mæla fyrir þeirra hönd.

Var nú rétt komið að honum, að bera upp hina ískyggilegu spurningu, en í því gekk Sobeide til þeirra - því nú var liðið af Amíne öngvitið - og af því hún hafði heyrt til þeirra, spurði hún þá: „Heyrið, góðir hálsar! Hvað er um að vera? Hvað eruð þið að tala um?“

Var þá daglaunamaðurinn skjótur til svars og mælti: „Lafði mín! Hinir ókunnugu menn biðja yður að segja sér, hvers vegna þér hafið grátið með tíkunum, þegar þér höfðuð barið þær, og hvers vegna brjóstin á konunni, sem féll í óvit, eru alþakin örum. Þessa bæn á ég að bera upp fyrir yður í þeirra nafni.“

Þegar Sobeide heyrði þetta, kom á hana heiptar svipur; hún veik sér að förumunkunum og hinum, sem þóttust vera kaupmenn: „Er það satt, að þið hafið falið honum á hendur, að bera upp fyrir mig þessa bæn?“

Játuðu þeir því allir, nema Gíafar einn, er þagði við; síðan mælti hún með þykkjufullri rödd, svo auðheyrt var, hvað hún þóttist vera móðguð: „Þegar vér veittum ykkur þann greiða, að ljá ykkur húsaskjól, vildum vér sneiða hjá öllu, er valda kynni óánægju, og settum vér ykkur þess vegna þann skilmála, að tala ekki um það, sem ykkur ekki varðar um, svo þið ekki skylduð fá það að heyra, sem ykkur líkaði illa.

Nú höfum vér tekið við ykkur og beint ykkur, sem við bezt gátum, og samt gangið þið á bak orða ykkar. Hlýzt þetta af góðfýsi vorri og greiðasemi, en ekki mælir það ykkur bót, og hefur ykkur farizt ódrengilega.“

Svo mælti hún og stappaði fætinum í gólfið, skellti þrisvar saman lófunum og kallaði: „Komið fljótt!“

Í sama vetfangi hrukku upp hliðardyr og óðu inn sjö tröllslegir svertingjar með brugðnum sverðum. Hver þeirra greip einn af hinum sjö aðkomumönnum; þeir vörpuðu þeim til jarðar og drógu þá fram á mitt salargólf og mynduðu sig til að höggva af þeim höfuðið.

Var ekki annað fyrir að sjá en að þeir allir mundu hreppa bráðan bana fyrir forvitni sína, en þó spurði einn af þrælunum Sobeide og systur hennar: „Háleitu og tignu frúr, skipið þér, að vér veitum þeim banasár?“

„Bíðið um stund,“ anzaði Sobeide, „ég þarf að spyrja þá að nokkru.“

„Lafði mín!“ stundi daglaunamaðurinn dauðhræddur, „fyrir guðs sakir, látið ekki deyða mig fyrir afbrot annarra. Ég er saklaus, hinir eru sekir.“

Mælti hann enn fremur kjökrandi: „Æ, við vorum svo glaðir, öll bölvunin stendur af þessum blindu förumunkum. Það er engin borg til; sem ekki mundi eyðast og niður falla, ef slíkir ólánsseggir ættu þar dvöl.“

Því næst mælti hann fram vísu þessa:

Vorkynna verum sterkum
veit ég drengskap heitið;
betur þó virða vitrir,
veikan mjúkt að leika;
ást ég okkri treysti,
annars mér verðit svanni!
(Sýknum synjattu líknar)
Sök að bana rökum.

Svo reið sem Sobeide var, gat hún þó ekki að sér gert að hlæja upp úr að harmatölum daglaunamannsins; gaf hún sig ekki að honum, en veik sér að hinum: „Segið mér og játið,“ mælti hún, „hverjir þér eruð, ella skuluð þér að vörmu spori deyja. Ég trúi því ekki, að þið hafið þótt tignir og heiðursverðir menn í átthögum yðar, hvar sem þeir eru. Ef svo væri, mynduð þér hafa verið stilltari og sýnt oss meiri lotningu.“

Enginn tók nálægt því eins mikið út og kalífinn, sem var óþolinmóður af náttúrufari; sá hann nú að líf hans var á valdi konu, sem var ofsareið og hafði fullkomna ástæðu til að vera það. Þó tók vonin að lifna við hjá honum, er hann heyrði, að spurt var, hverjir þeir væru; taldi hann víst, að hann mundi ekki verða drepinn, ef menn vissu tign hans. Hann hvíslaði því að vezírnum, er stóð hjá honum, að hann skyldi undir eins segja, hver hann væri.

En vezírinn var hygginn og athugasamur og vildi frelsa sóma herra síns og skýla vanvirðu þeirri, er hann hafði bakað sér; svaraði hann því ekki öðru en þessu: „Okkur kemur makleg hefnd.“

En þó hann hefði viljað tala eins og kalífinn vildi, mundi Sobeide ekki hafa gefið honum neinn tíma til þess. Hún hafði þegar snúið sér að förumunkunum og spurði þá, hvort þeir væru bræður, fyrst þeir allir væru eineygðir.

Svaraði þá einn í nafni hinna: „Lafði mín! Ekki erum við sambornir bræður; bróðerni okkar er í því innifalið, að við erum allir förumunkar og gætum sömu lífernishátta.“

Síðan spurði hún einn sér í lagi, hvort hann væri fæddur eineygður; neitaði hann því og mælti:

„Það varð ég fyrir svo fáheyrt ævintýri, að það mundi verða hverjum manni gagnlegt, ef það væri fært í letur. Af slysi þessu lét ég raka skegg mitt og augabrúnir, tók þetta gervi á mig og gerðist förumunkur.“

Sobeide spurði því næst báða hina förumunkana að hinu sama og svöruðu þeir eins.

En sá, sem síðast hafði talað, mælti þannig: „En svo að þér megið vita, að við erum ekki ættsmáir og eigum nokkra virðingu skilið, segi ég yður það, að við þrír erum konunga synir. Höfðum við aldrei sézt fyrr en í gærkvöldi, en á þeim stutta tíma gerðum við þó hverjum öðrum uppskátt, hverjir við værum og því megið þér trúa, að konungarnir, feður okkar, hafa verið frægir um víða veröld.“

Þegar Sobeide hafði heyrt þetta, rann henni reiðin, og sagði hún við þrælana: „Látið þá lausa, en verið hér kyrrir; grandið þeim ekki, er segja oss sögu sína, og gera grein fyrir, hvernig þeir eru komnir til húsa vorra, heldur látið þá fara, hvert sem þeir vilja. En hlífið engum, sem ekki vill gera oss þetta að skapi“....


55. nótt[breyta]

Þrír förumunkarnir, kalífinn og stórvezírinn, höfuðsmaður geldinganna og daglaunamaðurinn sátu í miðjum salnum á ábreiðum, sem lagðar voru á gólfið. Stóðu svertingjarnir upp yfir þeim allt umhverfis, og biðu þess, er konurnar mundu skipa þeim, en þær höfðu setzt niður á legubekkinn.

Þegar daglaunamaðurinn heyrði, að hann þyrfti ekki annað en að segja sögu sína, til þess að sleppa úr svo fjarskalegum háska, tók hann fyrstur til máls og sagði: „Lafði mín! Þér vitið sjálfar, hvað leiddi mig á yðar fund; mun því saga mín verða stutt. Systir yðar leigði mig í morgun á torginu, því ég hýmdi þar eins og hver annar daglaunamaður og beið þess, að einhver byði mér vinnu, svo ég með því móti gæti fengið lífsbjörg. Fór ég með henni til vínsölumanna, jurtasölumanna, aldinmangara, kryddsölumanna og sætabrauðsbakara; þaðan gekk ég heim með henni með körfina á kollinum, svo þungt klyfjaður sem orðið gat, og hafið þér, blessaðar, lofað mér að vera hérna þangað til nú. Ég skal aldrei gleyma slíkri náð og miskunnsemi að eilífu, og nú er mín saga á enda.“

Sobeide lét sér þetta vel líka og sagði við daglaunamanninn: „Hafðu þig nú á burt og komdu ekki fyrir okkar augu framar.“

En hann svaraði: „Lafði mín! ég ætla að biðja yður að lofa mér að vera. Það er engin sanngirni, að ég skuli segja öðrum mína sögu, og ekki fá að heyra þeirra sögu.“

Að svo mæltu tyllti hann sér niður yzt á jaðar legubekkjarins og var guðsfeginn að vera sloppinn úr hættunni.

Tók nú einn af förumunkunum til máls og sneri sér að Sobeide svo sem hinnar tignustu af hinum þremur konum, og líka vegna þess, að hún hafði skipað honum að segja sögu sína.

Tók hann þannig til frásagna: