Þúsund og ein nótt/Sagan af hinum þriðja förumunki og kóngssyni

Úr Wikiheimild

„Lafði mín! Það, sem ég ætla að segja yður af mér, er harla ólíkt sögu beggja félaga minna. Forlögin og þeirra óraskanlega fyrirskipun hefur látið slíka hluti drífa á þeirra daga, sem þeir fengu ekki að gert. En það er af mér að segja, að ég missti auga mitt og lét raka skegg mitt og augabrúnir af því, að ég skoraði óhamingjuna á hólm. En það atvikaðist þannig:

Ég heiti Agib og er sonur konungs, er Kassib hét; tók ég við ríkisstjórn að honum látnum og sat í sömu borg og hann. Hún liggur á sjávarströnd, og er þar einhver hin fegursta og öruggasta höfn; er þar svo mikið hergagnabúr, að búa má hundrað og fimmtíu herskip, sem ætíð eru til taks, ef á þarf að halda, og fimmtíu kaupskip og jafnmörg lystiskip. Lágu undir ríki mitt mörg fögur héruð á meginlandinu og margar stórar eyjar og sást til þeirra flestallra úr höfuðborginni.

Fyrst fór ég um skattlönd mín og síðan lét ég búa allan flota minn og sigldi til eyjanna; ætlaði ég með þangaðkomu minni að ávinna mér hylli þegna minna og festa þá í tryggðum.

Nokkru eftir að ég var heim kominn úr þessari ferð, fór ég þangað aftur, og tók mér að þykja gaman að sjóferðum, enda varð mér og mikilla framfara auðið í siglingafræði. Ásetti ég mér að kanna djúpið fyrir utan eyjar mínar. Ég lét búa tíu skip og sigldi með þau. Urðum vér vel reiðfara í fjörutíu daga, en um aðfaranótt hins fertugasta og fyrsta dags tókum vér andviðri og gerði að oss hvassviðri svo mikið, að vér örvæntum oss lífs.

Lægði veðrið undir morgun, tók að heiða himin og kom sólskin og blíðviðri; lentum vér þá við ey nokkra, og vorum þar tvo daga til að hressa oss eftir sjóvolkið. Því næst létum vér aftur í haf.

En mér hafði snúizt hugur vegna ofviðrisins og skipaði ég að stýra heimleiðis til ríkja minna, en er til kom, vissi stýrimaður ekki framar, hvar vér vorum staddir. Vonuðumst vér eftir að ná landsýn að tíu daga fresti, enda rættist það, því á hinum tíunda degi klifruðust nokkrir sjómenn upp í stórsigluna og sáust um; kváðu þeir á báðar hendur oss vera himin og haf, en beint fyrir stafni sögðu þeir, að upp kæmi eins og svartur veggur.

Þegar stýrimaður heyrði þetta, setti hann náfölan; hann reif með annarri hendi vefjarhöttinn af höfði sér, en lamdi hinni í andlitið. „Herra!“ kallaði hann upp, „dauðinn er okkur vís, enginn okkar getur sloppið úr hættu þeirri, sem vér höfum ratað í. Svo reyndur sem ég er, fæ ég ekki með nokkru móti afstýrt henni.“

Því næst tók hann að gráta eins og fokið væri í öll skjól. Sló nú miklum ótta á alla skipverja, er þeir sáu, hversu hann örvænti; beiddi ég hann að segja mér, því hann væri svo óttasleginn.

Svaraði hann þá: „Konungur minn og herra, ofviðri það, er vér höfum afstaðið, hefur hrakið oss svo langt afleiðis, að vér munum berast í námunda við hinn svarta vegg á morgun um hádegisbil, en veggur þessi heitir öðru nafni Svarthamar eða Segulbjarg. Dregur það að sér allan flota yðar, vegna nagla þeirra og annars járns, sem í skipunum er, og ef vér færumst nær á morgun um vissa lengd, þá hrífur segulmagnið svo sterklega, að allir naglar og járngaddar leysast úr skipunum og festast við bjargið. Ganga þá skip yðar í sundur og týnast, því segulsteinn hefur þá náttúru, að hann dregur að sér járn og eykur með því aðdráttarafl sitt; er bjarg þetta þeim megin, sem veit út að hafi, alþakið nöglum og göddum úr ógrynni skipa, er þar hafa farizt, og með þeim hætti helzt við náttúra bjargsins og eflist.

Er Segulbjarg sæbratt og stendur uppi á tindi þess eirhöll og hvílir á samkyns súlum. En á höllinni uppi er eirhestur og situr á riddari; hefur hann blýskjöld fyrir brjósti og eru ristar á hann margskonar rúnar. Það er trú manna, að myndastytta þessi valdi því, hvað mörg skip og menn farast á þessum slóðum, og muni hún ætíð verða þeim til tjóns, sem svo eru slysnir að komast í nánd við hana, allt þangað til henni verður varpað um koll.“

Að því mæltu tók stýrimaður aftur að gráta og það gerðu allir skipverjar að hans dæmi. Ég taldi mér og dauðann vísan; hugsaði nú hver maður um að bjarga sér, og hafði allan þann viðbúnað, sem orðið gat. Arfleiddu þar hverjir aðra, því ekki þótti alls örvænt, að einhverjum yrði lífs auðið og ráðstöfuðu menn fjármunum sínum þeim í hag, sem af kæmust.

Morguninn eftir sáum vér glöggt fram undan oss svarta bjargið, og vegna þess, sem vér nú höfðum heyrt af því sagt, þótti oss það enn voðalegra að sjá en það var. Vorum vér um hádegi komnir svo nálægt, að spádómur stýrimanns rættist. Naglar og allt, sem járnkyns var í flota vorum, flaug upp í bjargið og festist þar af hinu geysimikla aðdráttarafli og varð ógurlegur glymjandi af járninu. Gliðnuðu skipin í sundur og sukku, því þar var aðdýpi svo mikið, að vér fengum eigi botnað með grunnsökku.

Drukknuðu þar allir félagar mínir, en með mér hafði guð miskunnsemi og lét mig af komast; náði ég taki á skipsflaki einu og bar vindurinn það rakleiðis að bjarginu. Varð ég fyrir engum meiðslum, því svo vildi heppilega til, að mig bar þar að landi, sem stallar lágu upp að tindi bjargsins.


73. nótt[breyta]

Þegar ég sá stallana, lofaði ég drottinn og ákallaði hans heilaga nafn, í því ég sté fæti á land, því hvorki á hægri né vinstri hönd var nokkur sá staður, að náð yrði fótfestu eða bjargtaki. Svo var riðið bratt, mjótt og örðugt, að hefði stríður vindur staðið í fang mér mundi ég hafa hrapað ofan í sjó. Náði ég þó slysalaust hæst upp á bjargs-tindinn, gekk inn í höllina og fleygði mér til jarðar og lofaði guð fyrir miskunnsemi þá, er hann hafði sýnt mér.

Um nóttina lét ég fyrir berast í höllinni, og birtist mér í svefni æruverður öldungur, sem mælti þannig: „Sonur Kassibs! Þegar þú vaknar, skaltu grafa upp gólfið undir fótum þínum og muntu finna eirboga og þrjár blýörvar, sem hafa verið smíðaðar undir vissri stöðu himintungla, til þess að frelsa mannkynið frá ýmsri óhamingju, er yfir því vofir. Skaltu skjóta hinum þremur örvum á styttuna og mun þá riddarinn steypast niður í sjó, en hesturinn mun detta niður í sömu sporum. Hestinn skaltu grafa niður á sama stað, sem þú finnur örvarnar og bogann. Mun þá hafið bólgna upp og hækka allt að grundvelli hallar þeirrar, er á tindinum stendur. Þar muntu sjá mann lenda bát sínum og rær hann tveim árum og er hvortveggja árin úr eiri; er þetta annar en sá, sem þú hefur steypt ofan. Skaltu stíga á bát hans, en ekki nefna guðs nafn; skaltu fela þig handleiðslu manns þessa. Mun hann að tíu dögum liðnum flytja þig á annað haf og mun þér þaðan farsællegrar heimkomu auðið verða, ef þú aðeins varast, sem ég fyrr sagði, að nefna guðs nafn á allri ferðinni.“

Þegar ég vaknaði, huggaðist og hughreystist ég af orðum gamalmennisins og hlýddi ég undir eins ráðum hans. Gróf ég upp bogann og örvarnar og skaut þeim á riddarann. Féll hann við þriðja skot ofan í sjó, en hesturinn féll niður rétt hjá mér. Dysjaði ég hann þar sem boginn og örvarnar höfðu legið; en meðan á því stóð, bólgnaði hafið upp smámsaman. En er flóðið náði upp að grundvelli hallarinnar á tindinum, sá ég bát koma til mín langt í burtu, og lofaði ég guð, þegar ég sá að allt gekk eftir því, sem fyrir mig hafði borið í draumnum. Lenti báturinn loksins og sá ég í honum eirmanninn eins og honum hafði verið lýst. Fór ég því út í bátinn, varaðist að nefna guðs nafn og mælti ekki orð. Reri nú eirmaðurinn áfram leiðar sinnar og það án afláts, unz ég á níunda degi kom auga á eyjar nokkrar; varð ég þá góðrar vonar um að sleppa úr háskanum.

En í ofurkæti minni gleymdi ég, hvað mér hafði verið bannað og mælti: „Lofaður sé drottinn, blessaður sé drottinn!“ En óðar en ég hafði sagt þessi orð, sökk báturinn í sjóinn með eirmanninum, en ég volkaðist einn eftir í bylgjunum.

Ég var góður sundmaður og synti ég því það sem eftir var dagsins og stefndi á ströndina, þar sem mér leizt vænlegast til landtöku. En þá kom nótt yfir með niðamyrkri og vissi ég ekki lengur, hvar ég var; synti ég því blint áfram. En loksins tók að draga af kröftum mínum; örvænti ég mér frelsis, mælti fram trúarjátningu mína og lét mér fallast hendur. Var þá tekið að hvessa og kominn sjógangur mikill; vildi mér það til láns, að allt í einu reis upp himinhá holgeifla, sem fleygði mér upp á strönd og tók mig ekki út aftur. Spratt ég þá samstundis upp og rann undan sem fætur toguðu, því ég var hræddur um, að annað ólagið mundi koma og skola mér burt með útsoginu.

Því næst varð mér það fyrst fyrir, að ég fór úr vosklæðunum, vatt þau og breiddi til þerris á sandinum, sem enn var volgur af hita dagsins. Voru þau alþurr daginn eftir, því að þá var sólskin. Fór ég þá í þau aftur og tók að grennslast eftir, hvar ég væri. Hafði ég skamma stund gengið, áður ég sá, að mig hafði borið að lítilli ey óbyggðri, en harðla fagurri; uxu þar allskonar aldinviðir og skógartré.

En hún lá langt frá meginlandinu og dró það mikið úr gleði minni yfir fjörlausninni. Gaf ég mig þó með auðsveipni undir guðs vilja og fól honum allt ráð mitt framvegis á hendur; í sama bili sá ég litla skútu sigla fullum seglum upp undir eyna. Efaði ég ekki, að hún mundi lenda þar, en af því ég vissi ekki, hvort á henni væru vinir eða óvinir, hugði ég mér fyrir beztu, að gefa mig ekki fram fyrst um sinn. Klifraðist ég því upp í tré nokkurt þéttlaufgað og gat ég þaðan óhultur séð til skipsins.

Það lagði inn í litla vík og stigu tíu þrælar á land með rekur og önnur áhöld. Gengu þeir upp á miðja eyna og grófu þangað til þeir komu að hlemm einum. Að því búnu fóru þeir aftur til skips, skipuðu upp alls konar matvæli og húsgögn og bar hver byrði sína af því, þangað er þeir höfðu grafið. Hurfu þeir þar niður og réði ég af því, að þar mundi vera jarðhús undir.

Eftir það sá ég þá fara aðra ferð ofan til skips og komu þeir að stundarkorni liðnu aftur með gamalmenni, sem leiddi við hönd sér fagurskapaðan ungling, á að geta fjórtán eða fimmtán vetra. Gengu þeir allir niður á sama stað og fyrr var getið; en er þeir komu upp aftur var unglingurinn ekki í för með þeim. Létu þeir hlemminn falla niður, jusu mold yfir og gengu aftur ofan til skips. Réði ég af þessu, að unglingurinn mundi hafa verið skilinn eftir í jarðhúsinu, og þótti mér þetta kynlegt.

Gamli maðurinn fór aftur út á skipið með þrælunum; sigldi það síðan til meginlands. En er það var svo langt komið frá eynni, að ég gat verið óhræddur um, að skipverjar sæju mig ekki, fór ég niður úr fylgsni mínu í trénu og gekk þangað, sem grafið hafði verið. Mokaði ég upp moldinni þangað til ég kom að hellu, sem var hér um bil hálft fet á þykkt; velti ég henni frá og lágu þar steintröppur niður.

Gekk ég niður riðið og er það var á enda, var ég kominn í stórt herbergi; var þar ábreiða á gólfi og legubekkur með áklæði og skrautlegu hægindi. Sat þar ungmenni með veifu í hendi og hafði fyrir framan sig ávexti og ker full af blómum; sá ég þetta allt, því að tvö ljós loguðu þar niðri. Þegar unglingurinn sá mig, bliknaði hann upp, en ég heilsaði honum og mælti til þess að hughreysta hann:

„Herra! Verið óskelfdur, hver sem þér eruð; ég, sem er konungur og konungsson, skal yður ekkert mein gera. Mun gifta yðar valda því, að ég er hingað kominn, til þess að bjarga yður úr gröf þessari; er það ætlun mín, að hér hafi átt að kviksetja yður, þó ég viti eigi hvað veldur. En hinu skil ég ekkert í - því ég hef séð allt, sem gerzt hefur síðan þér komuð í ey þessa - að þér létuð, svo sem mér virtist, grafa yður mótstöðulaust.“


74. nótt[breyta]

„Þegar unglingurinn heyrði, að mér fórust þannig orð og hann sannfærðist um, að ég væri maður eins og hann, varð hann allt spakari og bauð mér vingjarnlega að setjast við hlið sér.

En er ég var setztur, tók hann til máls: „Kóngsson! Ég ætla að segja yður nokkuð, sem yður mun þykja kynlegt. Faðir minn er gimsteina-meistari og verzlar með gimsteina og hefur aflað sér mikilla fjármuna með starfsemi sinni og hagleik. Hefur hann undir sér fjölda þræla og erindreka, er fara sjóferðir á skipum, sem hann á sjálfur, til þess að halda við skiptavináttu þeirri, sem hann er í við marga konunga, því hann útvegar þeim og hirðfólki þeirra allt, sem þeir þurfa með af gimsteinum og gimsteinaskarti.

Hafði hann lengi verið kvæntur og ekkert barn eignazt; þá dreymdi hann, að honum fæddist sonur, en hann mundi verða skammlífur; hryggðist hann af því, þegar hann vaknaði. Nokkrum dögum seinna sagði móðir mín honum, að fjölgunar von væri, og níu mánuðum síðar ól hún mig og var það öllu skyldfólkinu til mestu gleði.

Hafði faðir minn grandgæfilega athugað himintunglafar á fæðingarstundu minni, og spurði hann stjörnuspámenn um það, en þeir svöruðu: „Sonur þinn mun ná fimmtánda aldurs ári, en þá mun hann rata í lífsháska og er lítil von um að honum verði bjargað. En ef hamingja hans þá varðveitir hann fyrir óláninu, mun hann ná háum aldri. Um þenna tíma mun Agib, sonur Kassibs konungs, steypa eirriddaranum á Segulbjargi í sjó fram, en stjörnurnar spá því, að kóngsson þessi muni bera banaorð af syni þínum fimmtíu dögum síðar.“

Brá föður mínum við, þegar saman bar spádómi þessum og draumi sjálfs hans; fékk það honum mikillar sorgar. Hann uppfæddi mig vel og kostgæfilega, þangað til ég var fimmtán vetra.

En í gær frétti hann, að Agib riddari hefði steypt eirriddaranum í sjóinn fyrir tíu dögum; olli það honum svo mikils angurs og kvíða, að hann er nú orðinn sem annar maður; svo hefur það gengið nærri honum. Hafði hann þó hugsað sér ráð til að varðveita líf mitt, þrátt fyrir áhrif himintunglanna.

Er langt liðið síðan hann lét gera fylgsni þetta, svo að ég mætti leynast hér hina fimmtíu daga, þangað til hann frétti, að eirriddaranum væri steypt. En af því hann hafði frétt, að það gerðist fyrir tíu dögum, flutti hann mig hingað skyndilega og lofaði hann að sækja mig að fjörutíu dögum liðnum. Er ég fyrir mitt leyti óhræddur og hygg ég að Agib kóngsson muni ekki leita mig uppi mitt í óbyggðri ey og undir jörð niðri. Þetta var það, herra, er ég ætlaði að segja yður frá.“

Meðan sonur gimsteinamannsins sagði sögu sína, hló ég með sjálfum mér að stjörnuspámönnunum, sem höfðu spáð honum dauða af mínum völdum. Mér fannst ég vera svo fjarlægur því, að láta spádóm þeirra rætast, að óðar en hann hafði úttalað, sagði ég við hann frá mér numinn:

„Kæri, treystið gæzku drottins og kvíðið engu. Skoðið það eins og skuld, sem þér hafið átt að borga, en eruð nú laus við. Hrósa ég happi, að ég kom hingað eftir skipbrot mitt, til þess að verja yður móti hverjum þeim, sem situr um líf yðar. Skal ég ekki víkja eitt fet frá yður í þessa fjörutíu daga, sem fávíslegir útreikningar stjörnuspámanna hafa gert yður hræddan við. Meðan sá tími stendur yfir, er ég boðinn og búinn að vinna yður allt það gagn, sem mér er unnt.

Síðan vona ég að þér og faðir yðar leyfið mér að nota tækifærið og fara til meginlands á skipi yðru. En þegar ég er kominn heim í ríki mitt, mun ég ekki gleyma, hvað ég á yður að þakka, og skal ég sýna yður þakklátssemi mína svo sem skylt er.“

Með slíkum hætti hafði ég af fyrir syni gimsteinamannsins og varð ég trúnaðarmaður hans, en ekki vildi ég hræða hann með því að segja honum, að ég væri voðaseggurinn Agib, og varaðist ég grandgæfilega að vekja nokkurn grun á því.

Töluðum við margt og mikið saman þangað til náttaði og varð ég þannig þess vísari, að unglingur þessi var vel viti borinn. Síðan snæddum við saman af vistaforða hans, og var hann svo mikill, að leifar mundu hafa orðið, þó fleiri gestir hefðu komið en ég. Þegar við höfðum matazt sátum við nokkra stund á tali og lögðumst síðan til svefns.

Morguninn eftir færði ég honum þvottarvatn, þegar hann reis úr rekkju; bjó ég þar næst til morgunverðar og bar á borð í hæfilegan tíma. Síðan fann ég upp leik til þess að stytta okkur stundir, og eftir það bjó ég til kvöldverðar, og að því búnu gengum við til hvíldar.

Svona leið hver dagurinn af öðrum og urðum við beztu vinir á þessum tíma. Sá ég að honum þótti vænt um mig, en ég hafði svo mikla ást á honum, að ég atyrti oft í huga mínum stjörnuspámennina, sem höfðu spáð honum dauða af mínum völdum; þótti mér sem ómögulegt væri, að ég gæti drýgt svo andstyggilegt verk. Þannig vorum við þarna í þrjátíu og níu daga undir jörðinni og áttum beztu ævi; kom nú hinn fertugasti dagur að hendi.

Um morguninn sagði unglingurinn við mig og réði sér varla fyrir kæti: „Kóngsson! Nú er fertugasti dagurinn kominn og þakka ég guði og góðum félagsskap yðar, að ég er enn á lífi. Fer ekki hjá því, að faðir minn mun sem fljótast votta yður þakklátssemi sína og veita yður allan greiða og fararbeina, að þér komist heim í ríki yðar. Nú bið ég yður svo vel gera, að hita vatn, að ég geti vandlega laugazt og skipt um klæði, svo ég megi því sæmilegar fagna föður mínum.“

Setti ég þá vatn yfir eld, og er það var heitt orðið, hellti ég því í laugarkerið. Settist unglingurinn í kerið og þvoði ég hann sjálfur og neri, síðan fór hann úr baðinu og lagði sig upp í rúm; hafði ég búið um og sveipaði um hann ábreiðunni.

Þegar hann hafði hvílt sig og sofið góða stund, sagði hann við mig: „Kóngsson! Gerið svo vel og færið mér eina melónu og sykur, að ég neyti þess mér til hressingar.“

Valdi ég nú hinar beztu melónur af þeim, er fyrir hendi voru, og lét þær á disk; en er ég fann engan hníf til að skera þær í sundur, spurði ég unglinginn, hvort hann vissi ekki af neinum hníf.

Svaraði hann þá: „Hérna liggur einn á syllu yfir höfðalaginu.“

Sá ég hnífinn og flýtti mér að ná honum, en þegar ég hafði tekið hann og sté ofan, flæktust rúmfötin um fót mér, og datt ég svo slysalega ofan á unglinginn, að hnífurinn rakst i hjarta hans og dó hann að vörmu spori.

Við þessa sjón æpti ég upp yfir mig, barði höfuð mitt og brjóst, reif sundur klæði mín og fleygði mér til jarðar með óumræðilegum harmi og örvæntingu. „Æ,“ kallaði ég upp, „hann átti að eins fáar stundir eftir, og þá var hann úr allri hættu, sem hann hafði flúið undan á þenna stað. Og jafnt sem ég er sannfærður um það með sjálfum mér að ekkert sé að hræðast, hlýt ég að verða morðingi hans og láta spádóminn rætast. Ó, guð minn!“ mælti ég enn fremur, mænandi augum mínum og fórnandi höndum til himins, „ég grátbæni þig að fyrirgefa mér og ég sver þér, að ég er saklaus af dauða ungmennis þessa. Ó, að hann hefði heldur orðið minn banamaður! Hversu lengi á ég að bera þraut á þraut ofan“.....


75. nótt[breyta]

Eftir þetta slys mundi ég óskelfdur hafa gengið út í dauðann, hefði hann borið mér að hendi; en vér hljótum hvorki lánið né ólánið þegar vér óskum þess. Hugsaði ég nú með mér, að grátur minn og harmur gætu ekki vakið unglinginn upp frá dauðum, en faðir hans gæti vel komið að mér, þegar hinir fjörutíu dagar væru á enda.

Fór ég því úr jarðhúsinu, lagði helluna yfir og huldi hana moldu. Áður en ég var búinn að því, litaðist ég um og sá skip það koma frá meginlandinu, er sækja átti unglinginn.

En er ég réðst um við sjálfan mig, hvað úr skyldi ráða, hugsaði ég: „Ef ég læt sjá mig, mun öldungurinn víst láta taka mig fastan og, ef til vill, einhvern af þrælunum drepa mig, þegar hann sér, hvernig ég hef farið með son hans. Allt, sem ég ber í bætifláka fyrir mig, mun ekki sannfæra hann um sakleysi mitt. Það er því bezt, fyrst færi gefst, að forða sér heldur undan reiði hans en ofurselja sig henni.“

Þetta gerði ég og. Nálægt jarðhúsinu var mikið tré og þéttlaufgað og leizt mér þar tiltækilegt fylgsni. Klifraðist ég þar upp og hafði komið mér svo fyrir, að ég eigi sást, þegar skipið lenti á sama stað og í fyrra skiptið.

Öldungurinn og þrælar hans gengu á land og var auðséð á þeim, er þeir gengu til jarðhússins, að þeir voru ekki vonlausir. En er þeir sáu, að nýlega hafði verið hreyft við moldinni, brugðu þeir svip og þó einkum öldungurinn. Veltu þeir samt hellunni frá, fóru ofan og kölluðu hátt á unglinginn með nafni, en þar var steinhljóð. Urðu þeir enn kvíðafyllri við þetta; leituðu þeir síðan og fundu hann loksins í rúmi sínu með hnífinn í hjartanu, því ég hafði ekki haft hug til að kippa honum úr sárinu.

Við þessa sjón hljóðuðu þeir upp yfir sig af harmi og jók það á hryggð mína, en öldungurinn hné í ómegin. Báru þá þrælarnir hann upp aftur á örmum sér og lögðu hann niður undir tré því, er ég leyndist í. Lá hinn ólánsami faðir lengi í óvitinu, þrátt fyrir alla viðleitni þeirra, og hugðu þeir honum ekki lífvænt.

Loksins vitkaðist hann samt eftir langa bið. Báru nú þrælarnir þangað lík sonar hans, skrýtt hinum beztu klæðum, og er gröfin var grafin, var því sökkt niður í hana. En öldungurinn sem flóði í tárum, og varð að hafa tvo þræla sér til stuðnings, kastaði fyrst mold á líkið og fylltu þrælarnir síðan gröfina.

Að því búnu voru húsgögnin og matvælin borin úr jarðhúsinu ofan á skip. Hinn gamli maður, sem varla gat staðið uppréttur fyrir harmi, var fluttur á börum út á skipið. Því næst sigldi skipið burt aftur og hvarf það mér úr augsýn....


76. nótt[breyta]

Þegar skipið var horfið, sem gimsteinamaðurinn og þrælarnir voru á, sat ég aftur aleinn á eynni. Var ég nú um nóttina í jarðhúsinu, því þeir höfðu ekki lokað því; en á daginn ráfaði ég til og frá um eyna og hvíldi mig þegar ég var þreyttur.

Þegar ég hafði lifað þessu dauflega og tómlega lífi í heilan mánuð, fór ég að taka eftir því, að sjórinn færðist góðan mun undan landi, en eyjan stækkaði. Það var eins og meginlandið kæmi nær og varð sjórinn svo grunnur, að ekkert var á milli nema örmjóir vaðlar. Óð ég þar yfir og tók sjórinn mér í kné; gekk ég þar lengi eftir ströndinni á fjörum svo að ég varð dauðlúinn.

Loksins kom ég að þéttari jarðveg og hafði sjóinn langt að baki mér; kom ég þá auga á bál mikið langt í burtu. Varð ég stórglaður, því ég hugsaði með sjálfum mér: „Þar finnur þú einhvern mann, því ekki er þessi eldur kviknaður af sjálfum sér. En er ég kom nær, sá ég að mér hafði skjátlazt, því þetta var koparhöll, er mér hafði sýnzt vera eldur; og var hún álengdar til að líta í sólskininu, sem hún stæði í ljósum loga. Dvaldi ég um stund við höll þessa, bæði til að hvíla mig og virða fyrir mér svo undrunarverða og snilldarfagra byggingu.

Var ég ekki nálægt því orðinn fullsaddur á því, að horfa á skrauthýsi þetta, þegar ég sá koma tíu fríða unglinga; var sem þeir kæmu úr skemmtigöngu, og fylgdu þeir gömlum manni, sem var mikill vexti og öldurmannlegur. Það þótti mér furða, að þeir voru allir blindir á hægra auga. Undraðist ég mest að sjá svo marga eineygða menn saman komna í einu, er alla vantaði sama augað og skildi ég ekki, hvernig þeir hefðu fundizt hér.

Fögnuðu þeir mér með mestu vinsemd og er þeir höfðu heilsað mér, spurðu þeir, hvernig ég væri þangað kominn. Svaraði ég þeim, að saga mín væri nokkuð löng, en ef þeir vildu gera svo vel og setjast niður, skyldi ég segja þeim allt af létta. Settust þeir þá niður og sagði ég þeim allt, sem mér hafði viljað til síðan ég fór úr ríki mínu.

Undruðust þeir mikillega og er ég hafði lokið sögu minni, beiddu þeir mig að koma með sér inn í höllina. Þáði ég boð þeirra og gengum við um marga fagurskipaða sali, stofur og herbergi, þangað til vér komum í einn stóran sal. Stóðu tíu bláir legubekkir settir í hring allt umhverfis; voru þeir gerðir til hvíldar um daga og svefns um nætur. En í miðjum hringnum stóð hinn ellefti legubekkur, samlitur hinum, en nokkuð lægri, og á hann settist gamalmennið, en unglingarnir á hina tíu.

Var ekki rúm nema fyrir einn á hverjum og var því sagt við mig: „Vinur, seztu á ábreiðuna þarna í miðjunni og skaltu jafnlítið hnýsast eftir nokkru, sem okkur snertir, sem hinu, hvað því veldur, að vér allir höfum misst hægra augað. Láttu þér nægja það, sem þú sér, en varastu að forvitnast um fleira.“

Að nokkrum tíma liðnum stóð gamalmennið upp og gekk út, en kom bráðlega aftur með kvöldverð handa hinum tíu yngissveinum; fékk hver þeirra sinn skammt fyrir sig. Færði hann mér og minn skammt og snæddi ég einn að dæmi allra hinna, en að lokinni máltíð rétti sami öldungurinn hverjum eina skál af víni.

Varð ég því næst að segja þeim upp aftur sögu mína, svo frábær hafði þeim þótt hún vera, og vorum við að tala um hana langt fram á nótt, þangað til einhver tók eftir að áliðið var orðið og sagði við öldunginn:

„Þú sér, að kominn er tími til að hátta, og færir okkur þó ekki það, sem vér þurfum til að gera skyldu vora.“

Stóð öldungurinn upp að vörmu spori og gekk inn í næsta herbergi; bar hann þaðan smámsaman tíu ker og voru breiddir yfir bláir dúkar. Setti hann sitt fyrir hvern af hinum eineygðu og kerti með, en er þeir tóku dúkana af, sá ég að í kerunum var aska, kol og svart litarefni. Hrærðu þeir allt þetta saman og tóku að maka andlit sín í hræringi þessum, svo þeir urðu viðbjóðslegir að sjá.

Síðan grétu þeir hástöfum, veinuðu og æptu án afláts: „Vér lifðum sældarlífi, en vor ósvífna forvitni spillti því fyrir oss.“

Héldu þeir þessu kynlega atferli áfram nær því alla nóttina; en er komið var undir morgun, færði öldungurinn þeim vatn og þvoðu þeir þá andlit sín og hendur. Síðan fóru þeir úr hinum saurugu klæðum og í önnur hrein, svo engin merki sáust á þeim eftir hinar kátlegu aðfarir, sem ég hafði verið sjónarvottur að.

Nú megið þér nærri geta, hvað ég átti bágt með að stilla mig. Oft var rétt að mér komið, að bregða þögninni og spyrja hina eineygðu menn. Kom mér ekki dúr á auga, það sem eftir var nætur.

En er vér vorum komnir á fætur morguninn eftir, gengum vér út til að viðra oss í morgunkælunni og sagði ég við hina ungu menn: „Ég er ekki maður til að halda lög þau, er mér voru sett í gær. Þér eruð allir skýrleiks menn og vel viti bornir, að því er mér hefur virzt, en samt sá ég yður slíkt aðhafast í gærkvöldi, sem vitlausum mönnum einum væri ætlandi. Hvaða ólán sem af því kann að hljótast, þá get ég samt ekki stillt mig um að spyrja yður, hvers vegna þér hafið svert andlit yðar og hvers vegna þér eruð eineygðir. Hlýtur eitthvað sérlegt að valda þessu og því særi ég ykkur að seðja forvitni mína.“

Svöruðu þeir spurningum mínum engu öðru en því, að mig varðaði ekki um það, mér stæði á engu að vita það og væri mér fyrir beztu að bæla niður þessa hnýsnis ástríðu. Töluðum vér þenna dag um hitt og þetta og er vér höfðum snætt kvöldverð, og nótt var fyrir hendi; sótti öldungurinn aftur hin bládúkuðu ker; svertu þeir sig aftur og æptu:

„Vér lifðum sældar lífi, en vor ósvífna forvitni spillti því fyrir oss.“

En er á þessu gekk hverja nótt eftir aðra, þá gat ég loksins ekki setið á mér lengur. Lagði ég nú fast að þeim, að svala forvitni minni eður vísa mér leið, að ég mætti heim komast í ríki mitt. „Því hér get ég ekki lengur haldizt við,“ sagði ég, „ef ég hverja einustu nótt á að horfa á svo fábreytilega sjón og vita ekki, hvernig á slíku stendur.“

Þá svaraði einn af hinum eineygðu: „Undrastu eigi, að vér breytum þannig við þig, því ekki gengur oss annað til að synja bænar þinnar en góðvilji einn, að afstýra þeim harmi frá þér, að rata í sama ólánið og vér. En viljir þú verða fyrir sama slysi og vér, þarft þú ekki annað en að segja til og skaltu þá fá þá úrlausn, sem þú mælist til.“

Kvaðst ég vera við öllu búinn, hvað sem væri, en þó töldu þeir um fyrir mér.

„Hafðu ráð vort,“ sögðu þeir, „og stilltu forvitnina, því hægra auga þitt er í veði.“

„Það gerir ekkert til,“ anzaði ég, „ég lofa því, að sakast ekki við ykkur, þó ég verði fyrir óláni þessu, heldur skal ég sjálfum mér einum um kenna.“

Sögðu þeir mér og, að úr því ég hefði misst augað, mætti ég eigi vonast þess, að geta verið hjá þeim, ef mér hefði slíkt til hugar komið; væri tala þeirra full og mættu ekki fleiri bætast við. Sagði ég þá, að mér þætti reyndar vænt um að vera með svo góðum mönnum, en ef ekki væri kostur á því, mundi ég láta mér það lynda, því mér væri fyrir öllu, að þeir gerðu bæn mína.

Þegar hinir tíu eineygðu menn sáu að ég var staðráðinn í áformi mínu, slátruðu þeir sauð og flógu af honum gæruna og réttu mér hnífinn, sem þeir höfðu skorið með, og mælti einn þeirra:

„Taktu við hnífnum, þar mun koma að þú þarft hans við; skal ég nú segja þér, hvernig á því stendur. Vér ætlum að sauma þig innan í gæru þessa og skilja þig einan eftir úti. Mun þá í sama vetfangi sjást á lofti kynjastór fugl, er Rok heitir; heldur hann að þú sért sauður, hremmir þig og flýgur með þig hæst upp undir ský. Lát samt ekki hugfallast, því hann mun beina flug til jarðar aftur og setjast á fjallstind einn.

Undir eins og þú finnur að þú ert kominn á jörð niður, skaltu rista upp gæruna með hnífnum og fleygja henni af þér. Óðar en fuglinn sér þig, mun hann fljúga burt af hræðslu.

Skalt þú þá án tafar ganga þaðan, þangað til þú kemur að höll einni mikilli, sem er alþakin gulli, stórum smarögðum og öðrum gimsteinum; skaltu ganga inn um hliðið, er ávallt stendur opið. Höfum vér allir verið þar, en viljum ekkert segja þér af því, sem vér höfum séð þar eða reynt; þú munt reyna það sjálfur.

En það eitt skaltu vita, að hver okkar hefur látið hægra augað fyrir, og erum vér, vegna fjarveru vorrar þaðan, skyldaðir til að leggja á oss meinlæti þau, er þú sást. Höfum vér allir ratað í svo fáheyrð ævintýri, að rita mætti um það stóra bók, en vér megum ekki segja meira af því.“


77. nótt[breyta]

Þegar einn af hinum eineygðu hafði sagt mér allt þetta, sveipaði ég að mér gærunni og hafði ég nú með mér hnífinn; saumuðu þeir síðan fast að mér og gengu aftur í eirhöllina. Leið ekki á löngu áður en ég sá fuglinn Rok, er þeir höfðu talað um; steypti hann sér yfir mig úr háa lofti og hremmdi mig í klær sínar eins og sauð og flaug svo upp aftur himinhátt með mig, unz hann renndi sér niður aftur á háan fjallshnúk og lagði mig þar niður.

Undir eins og ég fann, að ég var kominn á jörð niður, risti ég gæruna af mér með hnífnum, fleygði henni og gerði fuglinn varan við mig; flaug hann jafnskjótt sem hann sá mig, fyrir hræðslu sakir. Fuglinn Rok er hvítur að lit, ógurlega mikill og sterkur; svo er hann rammefldur, að hann flýgur með fíla af jafnsléttu upp á hæstu fjöll og étur þá þar.

Var ég nú bráðlátur að sjá hina fyrirheitnu höll og stóð alls ekki við, heldur flýtti mér, sem ég gat, svo ég náði þangað á tæpum hálfum degi. Þótti mér hún enn fallegri en henni hafði verið lýst fyrir mér, og kom ég gegnum hið opna hlið inn í ferstrendan garð, svo víðan, að umhverfis hann voru níutíu og níu dyr úr sandels- og olíuviði, og einar dyr af gulli, auk margra skrautlegra stiga, er lágu upp til hinna efri herbergja.

Urðu fyrir mér opnar dyr og kom ég inn um þær í stóran sal; sá ég þar sitja fjörutíu meyjar, svo óumræðilega fagrar, að ég gat eigi hugsað mér fegurri. Voru þær allar skrautbúnar. Undir eins og þær sáu mig, stóðu þær upp og biðu þess ekki, að ég heilsaði þeim, heldur heilsuðu þær mér að fyrra bragði með miklum gleðilátum og sögðu:

„Kom heill, kom heill, drottinn vor og herra!“

Því næst tók ein þeirra til máls! „Lengi höfum vér þráð slíkan riddara, sem þú ert. Má ráða það af yfirbragði þínu, að þú hefur alla þá kosti til að bera, sem vér óskum oss, og vonum vér, að þér þyki félagsskapur vor hvorki ógeðfelldur né þér ósamboðinn.“

Neyddu þær mig til að setjast í sæti, sem var hærra en þeirra, og var mér það mjög á móti skapi.

En er ég lét í ljósi, að mér líkaði miður, mæltu þær: „Þetta er þitt sæti; upp frá þessu ert þú drottinn vor, herra og dómari, en vér erum ambáttir þínar, reiðubúnar til að gera hvað sem þú skipar.“

Fékk mér það nú mikillar undrunar, hvað þessar ástúðlegu meyjar lögðu sig í líma að gera mér allt að skapi. Ein kom til mín með heitt vatn og þvoði á mér fæturna, önnur hellti ilmandi vatni yfir hendur mínar, sumar færðu mér klæðnað og hjálpuðu mér til að hafa fataskipti, en sumar báru krásir á borð fyrir mig.

Þá voru enn aðrar, er komu með könnu og skál í hendi og voru búnar til að skenkja mér dýrindis vín, og allt þetta gerðu þær með einstakri reglu og beztu skipun, hljóðlátlega og ununarlega snoturt. Neytti ég matar og drykkjar og settust síðan allar meyjarnar kringum mig og beiddu mig að segja sér ferðasögu mína. Sagði ég þeim ævintýri mín og meðan á því stóð datt á myrkrið....


78. nótt[breyta]

Þegar ég hafði sagt hinum fjörutíu meyjum sögu mína til enda, urðu þær eftir, sem næst mér sátu, til að skemmta mér, en hinar fóru út að sækja kerti, því dimmt var orðið. Komu þær aftur með fjölda ljósa, svo ekki þurfti að sakna dagsbirtunnar, og röðuðu þær ljósunum svo fagurlega niður, sem hugsazt gat.

En nokkrar báru inn þurrkaða ávexti, súrsaðan mat, sætindi og þorstsæla rétti; báru þær og alls konar vín og aðra drykki á borð, en aðrar komu með hljóðfæri. En þegar öllu var skipulega fyrir komið, þá buðu þær mér að setjast til borðs. Settust þá meyjarnar líka og stóð samsæti þetta lengi yfir. Þær, sem kunnu að syngja og leika á hljóðfæri, skemmtu með fögrum söng, hinar dönsuðu tvær og tvær með óviðjafnanlegum yndisþokka, og stóð á þessum leik þangað til komið var miðnætti.

Þá tók ein af hinum fögru húsfreyjum til orða og mælti: „Þú munt vera þreyttur af göngunni og er nú tími til kominn að þú njótir hvíldar. Herbergi þitt er til reiðu; en áður en þú fer þangað, skalt þú kjósa af oss lagskonu til hvíluneytis, þá er þér lízt hvað bezt á.“

Svaraði ég því, að ég mundi trauður að kjósa, því mér þættu þær allar jafn fríðar, jafn skýrar og jafn maklegar þjónustu minnar; mundi ég því ekki vera sá glópur, að taka eina fram yfir aðra.

Þá svaraði mér sú, er fyrst talaði: „Vér kunnum að meta kurteisi þína og vitum, að feimni þín kemur af ótta fyrir því, að afbrýðisemi muni kvikna með oss. En lát eigi slíkt aftra þér; vér ábyrgjumst, að hvernig sem þú kýs, þá skulum vér eigi verða afbrýðifullar, því vér höfum komið oss saman um, að njóta sömu sæmdar í röð, hver á eftir annarri og skal umferðin byrja á ný, þegar fjörutíu dagar er liðnir. Kjóstu því hiklaust sem þér líkar, og hafðu ekki af þér tímann, sem þér er ætlaður til nauðsynlegrar hvíldar og endurnæringar.“

Hlaut ég að láta undan og kaus ég þessa hina yndislegu mey, sem við mig talaði, því hún töfraði augu mín og heillaði hjarta mitt og var eins og skáldið lýsir:

Hrafnsvart, hrynjandi
hár um sveipar
heiði hádegis
húmi nætur,
en skær ásján
í skugga fylgsnum,
dimmu dreifandi,
daglengis skín.
Era svo vænn viður,
að vexti megi
gullbjartrar líkja
við limar beinar,
né svo haukfránar
hvarmatinnur
antelópu,
þó atalt horfi;
hún nam af auðspöng
augum renna.
Heiðnar ástir
í hjarta brunnu,
er til hvítarmrar
hug ég felldi;
ástsjúkan hal
enginn firni,
þó táli teygist
og trú gleymi.

Hinn ástúðlegi meyjaskari skildi þar við okkur og gekk til hvílu.


79. nótt[breyta]

Um það leyti, sem ég var klæddur morguninn eftir, komu hinar þrjátíu og níu meyjar í herbergi mitt. Voru þær allar öðruvísi búnar en daginn áður; buðu þær mér góðan dag og spurðu, hvernig mér liði. Því næst fóru þær með mig í bað, þvoðu mér sjálfar og þjónuðu mér á allar lundir móti vilja mínum.

En er ég sté úr lauginni, færðu þær mig í annan klæðnað miklu skrautlegri en hinn fyrri. Sátum vér því nær allan daginn yfir borðum og er háttatími var kominn, beiddu þær mig aftur að kjósa mér lagskonu. Í stuttu máli, lafði mín, því ég vil ekki þreyta yður með því að stagast á hinu sama aftur og aftur, ég var í heilt ár hjá hinum fjörutíu meyjum og samrekkti þeim til skiptis. Ekkert bar það til allan þenna tíma, er á minnsta hátt glepti munaðarsælu vora; en er þessi tími var á enda, komu hinar fjörutíu meyjar einn morgun til mín, en þá voru þær ekki með gleðibragði, né spurðu um líðan mína, heldur flóðu þær í tárum.

Hver þeirra faðmaði mig eftir aðra með blíðlæti og mælti: „Vertu sæll, elskulegi kóngsson! Við verðum að skilja við þig.“

Komst ég við af tárum þeirra og grátbændi þær, að segja mér, hvað að þeim gengi og hvernig á skilnaði þeim stæði, er þær töluðu um. „Fyrir guðs sakir, elskurnar mínar!“ sagði ég, „látið mig vita, hvort í mínu valdi stendur að hugga ykkur, eða er aðstoð mín árangurslaus?“

Í stað þess að svara því, er ég spurði að, önzuðu þær: „Guð gæfi vér hefðum aldrei séð þig né þekkt. Margir riddarar hafa sýnt oss þá sæmd, að koma á vorn fund, en enginn þeirra var eins látprúður, mildur og glaðvær og svo að öllum kostum búinn, sem þú. Við vitum ekki, hvernig við eigum að lifa án þín.“

Að svo mæltu kom upp fyrir þeim mikill grátur að nýju. Beiddi ég þær enn að láta mig ekki lengur ærast af óþreyju, heldur segja mér óhikað orsök harma þeirra, og svöruðu þær þá:

„Æ, hvað mundi vera oss meira sorgarefni en það, að verða að skilja við þig? Má vera, að við sjáumst aldrei framar. En ef þú vildir og hefðir stillingu til, þá væri þó ekki ómögulegt, að við mættum finnast aftur.“

„Ég skil ekkert í því, sem þið talið um,“ mælti ég, „og bið ég ykkur að skýra orð ykkar.“

„Svo skal vera,“ tók ein þeirra til máls, „og skalt þú vita, að vér allar erum konunga dætur. Við búum hér saman og lifum sældarlífi, eins og þú veizt, en við hver árslok erum vér skyldar til að fara héðan og vera fjörutíu daga í burtu; valda þessu óbrigðanleg álög, sem við megum ekki segja frá. Munum vér seinna koma til hallarinnar aftur.

Í gær var árið á enda og í dag verðum við að skilja við þig; þess vegna liggur svo illa á okkur. En áður en við leggjum af stað, munum við afhenda þér alla lykla og einkum þá, er ganga að hinum hundrað dyrum; hefur þú þar nóg til að svala forvitni þinni, og skalt þú hafa það þér til afþreyingar meðan við erum burtu. En þess biðjum við þig. - það er sjálfum þér fyrir beztu og stendur okkur á mestu - ljúktu ekki upp gulldyrunum! Því ef þú lýkur þeim upp, munum við aldrei framar sjást; eykur þessi áhyggja mjög á harma vora.

Það er vonandi, að þú hlýðir ráði þessu, þar sem heill þín liggur við. Gættu þín vel, því ef þú lætur eftir forvitni þinni, þá bakar þú sjálfum þér mikið tjón. Við sárbænum þig, að varast slíkt glappaskot og veita okkur þá huggun, að fá að finna þig aftur, þegar hinir fjörutíu dagar eru liðnir. Að vísu væri oss hægt að hafa með oss lykilinn að gulldyrunum, en það væri ókurteisi, þar sem kóngsson á í hlut, að tortryggja vizku hans og stillingu....“


80. nótt[breyta]

Ég varð sárhryggur af því, er hinar fögru konungadætur sögðu mér. Gaf ég þeim í skyn, hvílíks saknaðar og leiða fjarvera þeirra fengi mér, og þakkaði ég þeim fyrir heilræðið. Ég lofaði að hlýðnast þeim, sór og sárt við lagði, að ég gæti gert það, sem örðugra væri, til þess að hljóta slíkt lán, sem það væri, að una aldri sínum hjá slíkum afbragðs konum. Því næst kvöddumst við með mestu blíðu; faðmaði ég þær allar hverja eftir aðra, og nú var ég allt í einu aleinn eftir í höllinni.

Á hinu liðna ári hafði ég gleymt mér svo í munaðarlífinu, hinum inndæla félagsskap, sönglistinni og skemmtununum, að ég hvorki hafði tíma né löngun til að kynna mér hina merkilegu hluti, sem voru í töfrahöll þessari. Þó að ég hefði þar ótal fagra hluti fyrir augum á degi hverjum, varð mér ekki einu sinni litið til þeirra, svo var ég frá mér numinn af fegurð meyjanna og ánægður af því, hvað þær voru mér ljúfar og ástúðlegar. Þess vegna fékk burtför þeirra mér ákafrar hryggðar, og þó við værum ekki skilin að samvistum meira en fjörutíu daga, þótti mér, sem það væri hundrað ár.

Ég einsetti mér að hafa jafnan í hug hið mikilsvarðandi heilræði, er þær gáfu mér, og ljúka aldrei upp gulldyrunum. En af því ég, að þessu einu undanteknu, mátti seðja forvitni mína sem ég vildi, þá tók ég þann lykilinn, sem fyrstur var í röðinni af þeim, er gengu að hinum öðrum dyrum. Lauk ég nú upp hinum fyrstu dyrum.

Inn um þær dyr kom ég í aldingarð, og hygg ég að enginn finnist slíkur um víða veröld og enda, að sá taki honum ekki fram, sem trúin hefur fyrirheitið oss eftir dauðann. Varð ég frá mér numinn að horfa á allt það, er garður þessi hafði til að bera, hið ágæta skipulag, þrifnaðinn, fyrirkomulag plantnanna, ógrynni, margbreytni og fegurð ávaxtanna.

Skal þess og geta, að þessi dýrðlegi garður var vökvaður fágætum vatnsveitingum. Þar voru haglega grafnir og beinþræddir skurðir, er leiddu gnóglegt vatn að rótum trjánna, sem vatnsþurfandi voru til að bera hið fyrsta brum og blóm, en aðrir færðu minna vatn til þeirra, sem aldinvísir var kominn á, og enn aðrir miklu minna til þeirra trjáa, sem báru því nær fullvaxin aldin; voru þau aldin miklu stærri en almennt gerist í öðrum görðum. En í þeim rennum, sem fluttu vökva til þeirra trjáa, er alþroskaða ávexti báru, var ekki meira vatn en svo, að þau gátu nærzt og viðhaldizt í sama gróðri.

Ég ætlaði aldrei að geta þreytzt á að skoða þenna inndæla stað og dást að honum, og mundi ég aldrei hafa þaðan farið, hefði ég ekki eftir þessu gert mér enn meiri hugmyndir um það, sem ég átti óséð. Fór ég því úr garði þessum gagntekinn af undrun, lokaði dyrunum og lauk upp þeim, er næstar voru.

Þar var eigi aldingarður, heldur jurtagarður, og var hann að sínu leyti eins frábær. Hann var mikill um sig, og minni vatnsveitingar en í hinum, til þess að engin plantan fengi meira vökva en þurfti. Blómguðust þar samtímis ýmsar jurtir, sem annars aldrei gróa á sömu árstíð, bæði rósir, jasmínur, hyasintar, anemónur, túlípanar, sóleyjar, negulblóm, liljur og fjöldi annarra blóma, og ekkert getur sætara hugsazt en hinn samblandaði blómilmur, sem ég andaði að mér í garði þessum.

Nú lauk ég einnig upp þriðju dyrunum og kom inn í stórt fuglahús; var gólfið þar lagt ýmiskonar marmara. Búrið var úr sandels- og olíuviði og var í því ótölulegur fjöldi næturgala, kanarífugla, lævirkja, og annarra ennþá sætrómaðri söngfugla, sem ég aldrei fyrr á ævi minni hafði heyrt né séð. Fæða þeirra og drykkur var í dýrustu jaspis- og agatskálum og var frá öllu gengið með slíkum þrifnaði, að ég hugsaði með sjálfum mér, að ekki veitti af hundrað mönnum til að halda þessu stóra fuglahúsi í slíkum þrifum. En hvorki sá ég hér nokkurn mann né heldur í görðunum, sást þar þó ekkert illgresi né minnsta vanhirðing.

Sól var runnin til viðar og var ég frá mér numinn af sönglist þessa fuglagrúa, sem nú tók að leita sér nátthvíldar. Fór ég því til herbergis míns og sofnaði með þeim ásetningi, að ljúka upp næsta dag öllum hinum dyrunum nema þeim síðustu, þeim hundruðustu - gulldyrunum.

Daginn eftir lauk ég upp fjórðu dyrunum og svo sem ég hafði furðað mig á því, er ég sá daginn áður, undraðist ég hálfu meira það, er ég nú sá. Kom ég inn í víðan garð og var kringum hann undurfögur bygging, en ég vil eigi lýsa því nákvæmar, svo saga mín lengist ekki um of. Voru fjörutíu dyr á byggingu þeirri og einn féhirzlusalur innar af hverjum dyrum, en hver þeirra var meira virði en hið mesta konungsríki.

Í hinum fyrsta lágu perluhrúgur; voru hinar stærstu perlur, þó ótrúlegt þyki, á stærð við dúfuegg, og var miklu meira af hinum stóru en hinum smáu. Í næsta sal voru demantar, karbunklar og roðasteinar, í hinum þriðja smaragðar, í hinum fjórða stangagull, gullpeningar í hinum fimmta, stangasilfur í tveimur hinum næstu; en í hinum voru ametystar, tópasar, ópalar, tyrkisar, hyasintur og allir gimsteinar, sem hugsazt geta, að ég ekki nefni jaspis, agat og karneól. Þar að auki var fullt hús af kóralgreinum og enda heilum kóraltrjám.

Þegar ég hafði virt fyrir mér öll þessi auðæfi, réði ég mér ekki fyrir undrun og hrópaði: „Þó að auðlegð allra konunga veraldarinnar væri komin á einn stað, kæmist hún ekki í hálfkvisti við þetta. Mikill lánsmaður er ég, að eiga öll þessi auðæfi og þar á ofan fjörutíu hinar fríðustu konur jarðríkis.

En ég vil ekki tefja mig á því, lafði mín, að lýsa öllum hinum sjaldgæfu dýrgripum og gersemum, sem ég sá hina næstu daga. Það eitt segi ég yður, að mér veitti ekki af þrjátíu og níu dögum, til þess að ljúka upp hinum níutíu og níu dyrum og sjá allt, sem geymt var innar af þeim. Nú voru einungis eftir hundruðustu dyrnar og þeim var mér bannað að ljúka upp....


81. nótt[breyta]

Nú kom dagur sá að hendi, sem var hinn fertugasti frá því ég skildi við hinar fögru konungadætur, og hefði ég á þessum degi getað stillt mig, eins og skylda mín var, mundi ég hafa orðið hinn mesti gæfumaður, þar sem ég nú varð hinn mesti ólánsmaður.

Daginn eftir átti ég von á konungadætrunum, og hefði ég átt að hafa taum á forvitni minni af tilhlökkuninni að sjá þær. En ég var breyskur, sem mig mun lengi iðra, og bugaðist ég af ginningum djöfulsins, sem lét mig engan frið hafa, heldur freistaði mín jafnt og stöðugt, þangað til ég ofurseldi mig hörmungum þeim, er síðan hafa gengið yfir mig.

Ég lauk því upp hinum ískyggilegu dyrum, þvert á móti heiti mínu, og óðar en ég hafði stigið fæti yfir þröskuldinn, lagði á móti mér sætan ilm, en þó brá mér svo annarlega við, að ég hné hálft um hálft í ómegin. Kom ég þó fljótt aftur til sjálfs mín og hefði ég þá átt að láta bendingu þessa verða mér að varnaði, loka dyrunum og bæla niður forvitnina fyrir fullt og allt, en í þess stað hélt ég áfram. Því þegar ég hafði farið út og hresst mig í útiloftinu, gat ég vel þolað ilminn.

Ég kom inn í glæsilegt, fagurhvelft herbergi, og var sóllauki stráð yfir gólfið. Þar brann fjöldi ljósa á stórum kertistikum úr gulli; loguðu þau af angandi olíu og ilmkvoðu; logaði þar og á gull- og silfurlömpum af ilmkynjaðri olíu og stóð af ljómandi birta. Var þar margt nýstárlegt að sjá, en það, sem mér varð starsýnast á, var svartur hestur, og getur enginn ímyndað sér félegri grip eða fagurskapaðri. Ég gekk að honum til þess að skoða hann nálægt, og sá ég að söðull og beizli var af skíru gulli og hvorttveggja völundarsmíði; jatan var af kristalli og öðrumegin full af höfrum og hirsi en hinumegin af rósavatni.

Nú vildi ég sjá hestinn við birtuna, teymdi hann út, fór honum á bak og reyndi að koma honum af stað; en er honum varð ekki komið úr sporunum, lamdi ég hann með svipu, sem ég hafði fundið inni í húsinu hjá stalli hans. Í sama vetfangi tók hann viðbragð og hneggjaði ógurlega, því næst þandi hann út frá sér vængi, er ég alls ekki hafði séð nein mót til, og flaug hátt í loft upp. Hugsaði ég nú ekki um annað en að sitja fastur í söðlinum, og tókst mér það, svo mikið ofboð, sem yfir mig kom.

Loksins renndi hann sér niður og staðnæmdist á flatþaki hallar nokkurrar, og áður en ég gæti stigið af baki, hristi hann sig svo óþyrmilega, að ég byltist niður af honum, og um leið sveiflaði hann taglinu svo hart í andlit mér, að ég missti hægra auga mitt og hef síðan verið eineygður.

Nú mundi ég allt það, sem hinir tíu eineygðu menn höfðu sagt; hesturinn flaug burt og ég stóð upp harmandi sáran ólán það, er ég sjálfur hafði bakað mér. Ég gekk ofan af þakinu í innhúsin, með hendina fyrir auganu, því mér logsveið; kom ég þá í sal einn og stóðu þar tíu legubekkir settir í hring og í miðjum hringnum ellefti legubekkurinn og lægri en hinir; sá ég þá að ég mundi aftur vera kominn til hallarinnar, þaðan er fuglinn Rok hafði flogið með mig. Hinir tíu eineygðu unglingar voru ekki komnir heim, en ekki leið langt um þangað til þeir komu og var öldungurinn með þeim.

Afturkoma mín og missir auga míns kom þeim alls ekki óvart, og sögðu þeir: „Við samhryggjumst þér af hjarta, að þér varð ekki gleðilegri heimkomu auðið, en við erum saklausir af óláni þínu.“

„Það væri rangt af mér,“ anzaði ég, „að kenna ykkur um þetta; ég hef steypt mér í óhamingjuna sjálfur; ég á ekki sök nema á sjálfum mér.“

Þá sögðu þeir: „Ef sætt er sameiginlegt skipbrot, þá getur okkar dæmi verið þér til huggunar. Fyrir þér fór eins og okkur; við lifðum heilt ár í sama munaði og áttum kost á sömu sælu, hefðum við ekki lokið upp gulldyrunum í fjarveru konungadætranna. Þú varst ekki hyggnari en við, og þú hefur sætt sömu refsingu. Vér skyldum fegnir lofa þér að vera hjá okkur, og bæta yfir syndir þínar með oss, en þú veizt, hvers vegna okkur er það fyrirmunað. Haf þig því á burt og far til hirðarinnar í Bagdad; þar muntu hitta þann sem ráða mun fyrir auðnu þinni.“

Nú sögðu þeir mér hvaða veg ég skyldi fara og skildi ég við þá. Á leiðinni lét ég raka skegg mitt og augabrúnir og tók á mig förumunks gervi. Hef ég lengi flakkað og kom ég til borgar þessarar þegar dagsett var. Hitti ég við borgarhliðið förumunka þessa, sem eru jafnókunnugir og ég, og undruðumst við þegar við sáum að okkur vantaði alla sama augað. Við höfðum ekki tíma til að ræða um þetta sameiginlega líkams lýti, því myrkrið datt á, og auðnaðist oss að bera hér niður og biðja yður, lafði mín, um líkn þá, er þér hafið svo drengilega veitt oss.“

Þegar hinn þriðji förumunkur hafði lokið sögu sinni, tók Sobeide til máls og segir við hann og förunauta hans: „Farið nú hvert á land sem þið viljið; þið eruð frjálsir allir þrír.“

Einn af þeim varð fyrir svörum og mælti: „Lafði mín, vér biðjum yður að fyrirgefa forvitni vora, og leyfa oss að heyra sögu þeirra manna, sem eftir eru.“

Sobeide veik nú máli sínu að kalífanum, vezírnum Gíafar og Mesrúr, sem hún þekkti ekki, og mælti: „Nú er að ykkur komið, að segja sögu ykkar.“

Þá mælti stórvezírinn, sem alltaf hafði verið fyrir svörum: „Lafði mín, til þess að hlýðnast boðum yðar þurfum vér ekki annað en að taka það upp aftur, sem vér sögðum áður en við oss var tekið í húsi þessu. Vér erum kaupmenn frá Mússúl og erum komnir til Bagdad til að selja vörur vorar, sem vér höfum komið til geymslu, þar sem vér erum til húsa.

Í dag hafði einn af kaupmönnum hér boðið oss í veizlu með öðrum verzlunarmönnum. Veitti hann oss dýrindis rétti og ágætasta vín og á eftir lét hann koma dansmeyjar og söngmenn. Gerðum við þá svo mikinn glaum og háreysti, að varðmenn komu og tóku nokkra af gestunum fasta. Vér vorum svo heppnir að sleppa, en af því langt var áliðið og dyrnar á húsi voru lokaðar, vissum vér ekki, hvert vér skyldum halda. Nú vildi svo til að vér gengum fram hjá húsi yðar og þegar vér heyrðum, hvað hér var glatt á hjalla, réðum vér af, að drepa á dyr. Þetta er allt og sumt, sem vér höfum að segja samkvæmt skipun yðvarri.“

Þegar Sobeide hafði heyrt þetta, var eins og hún vissi ekki, hverju svara skyldi. Eftir þessu tóku förumunkarnir og beiddu hana að vera eins góða við þessa þrjá kaupmenn eins og hún hefði verið við þá, förumunkana.

Þá mælti hún: „Svo skal vera; ég vil að þið séuð mér allir um jafnt þakklæti skyldugir og skal ég sýna ykkur miskunn, með því skilyrði, að þið að vörmu spori farið héðan, hvert sem ykkur lystir.“

Það var auðheyrt á máli Sobeide, að hún ætlaðist til, að sér væri hlýtt; fóru þeir þá allir umtalslaust á burt, kalífinn, Gíafar, Mesrúr, hinir þrír förumunkar og daglaunamaðurinn. Þeim stóð líka ótti af hinum vopnuðu svertingjum, sem stóðu þar kringum þá.

Þegar þeir voru komnir út á stræti, mælti kalífinn við förumunkana, en lét ekkert á bera, hver hann væri: „Hvert ætlið þið nú að fara, ókunnugir menn og nýkomnir í borgina, og enn er ekki kominn dagur?“

„Herra!“ sögðu þeir, „við erum raunar í vandræðum út af því.“

„Komið þá með oss,“ segir kalífinn, „vér skulum greiða úr vandræðum ykkar.“

Því næst hvíslaði hann að stórvezír sínum, að hann skyldi fara með hina þrjá förumunka heim til sín og leiða þá fyrir sig næsta dag. „Ég ætla að láta uppskrifa ævisögur þeirra,“ sagði hann, „þær eru þess verðar, að þær séu geymdar í árbókum stjórnar minnar.“

Nú tók vezírinn Gíafar förumunkana með sér; daglaunamaðurinn fór heim til sín, en kalífinn fór með Mesrúr til hallar sinnar. Hann lagðist til svefns, en honum kom ekki dúr á auga, svo miklum heilabrotum olli það, er hann hafði heyrt og séð. Lék honum næsta mikil forvitni á að heyra, hver þessi Sobeide væri, og hvað henni hefði gengið til að kvelja svörtu tíkurnar svo miskunnarlaust; eins langaði hann til að vita, hvers vegna svo mörg ör væru á brjóstum Amíne.

Meðan hann var að grufla út í þetta, ljómaði af degi. Stóð hann þá upp og gekk inn í sal þann, er hann hélt í ráðstefnur og veitti þegnum sínum áheyrn; settist hann þar í hásætið. Að stundarkorni liðnu kom stórvezírinn og sýndi honum lotningarmerki eins og hann var vanur.

Tók þá kalífinn óðar til máls: „Vezír, málefni þau, sem nú eru fyrir hendi, kalla eigi mjög hart að; öðru máli er að gegna um hinar þrjár konur og hinar tvær svörtu tíkur. Ég hef engan frið fyrr en ég veit sannleikann um þessa kynlegu hluti. Komdu því með konurnar og förumunkana til mín á sama tíma. Far nú og gæt þess, að mér þykir löng biðin.“

Vezírinn þekkti herra sinn, að hann var ákafamaður og hinn bráðlátasti og flýtti sér því, að hlýðnast boði hans. Fór hann og sagði konunum með mestu kurteisi að sér hefði verið skipað að leiða þær fyrir kalífann, en ekki drap hann neitt á það, sem gerzt hafði um nóttina.

Þær systur huldu sig þegar blæjum sínum og fóru með vezírnum, en förumunkana tók hann með sér í leiðinni; höfðu þeir á síðan komizt að því, að þeir höfðu séð kalífann og talað við hann eins og ókunnugan. Leiddi vezírinn þau öll inn í höllina og varð svo skjótbúinn með erindi sitt, að kalífinn varð stórglaður.

Fyrir kurteisi sakir, þar sem embættismenn voru við, lét kalífinn vísa hinum þremur konum til sætis bak við fortjaldið í dyrunum að herbergi hans, en hina þrjá förumunka lét hann vera næst sér; sýndu þeir með lotningarmerkjum, að þeir vissu vel frammi fyrir hverjum þeir stóðu.

Þegar systurnar þrjár voru setztar niður, veik kalífinn sér að þeim svo mælandi: „Yður mun bregða í brún, þegar ég nú segi, að ég í nótt var í húsum ykkar, dularbúinn eins og kaupmaður. Þið munuð ef til vill vera hræddar um, að þið hafið móðgað mig, og vera má þér ætlið, að ég hafi stefnt ykkur hingað til þess að láta ykkur kenna á reiði minni.

En verið ókvíðnar og vitið fyrir víst, að ég hef gleymt því, sem gert er, og að mér fellur háttalag ykkar vel í geð. Mundi ég kjósa, að allar konur í Bagdad væru svo vel viti bornar sem þið eruð. Skal ég aldrei gleyma stillingu þeirri, er þið sýnduð, þar sem vér vorum ókurteisir. Þá var ég ekki meira en kaupmaður frá Mússúl, en nú er ég Harún Alrasjid, kominn af hinni vegsamlegu Abbas-ætt, er gengur í stað vors mikla spámanns. Hingað kallaði ég ykkur til þess að ég mætti heyra af ykkar eigin sögusögn, hverjar þið eruð, hvers vegna ein ykkar misþyrmdi svörtu tíkunum og tárfelldi með þeim á eftir.

Eins leikur mér forvitni á að vita, hvers vegna svo mörg ör eru á brjóstum annarrar.“

Þetta mælti kalífinn skýrt og skilmerkilega og heyrðu hinar þrjár konur hvert orð, en samt tók vezírinn Gíafar hvert orð upp aftur eftir honum, því það var hirðsiður.


82. nótt[breyta]

Í það mund, sem nótt var á enda, kallaði Dínarsade: „Elsku systir! Fyrir alla muni segðu okkur söguna af henni

Sobeide, því ég geng að því vísu, að hún hafi sagt kalífanum hana.“ „Það gerði hún,“ sagði Sjerasade. Soldán uppörvaði drottningu til að segja söguna og gerði hún það á þessa leið: