Þúsund og ein nótt/Sagan af hinum fyrsta förumunki og kóngssyni

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Sagan af hinum fyrsta förumunki og kóngssyni
    Sagan af daglaunamanninum, hinum fimm konum í Bagdad, og hinum þremur konungbornu munkum Sagan af hinum öðrum förumunki og kóngssyni    

„Lafði mín! Þessi voru tildrög til þess, að ég missti auga mitt, lét raka skegg mitt og augabrúnir og gerðist förumunkur. Faðir minn var konungur og átti bróður, sem líka var konungur yfir einu af nágrannalöndunum. Átti þessi bróðir hans tvö börn, son og dóttur, og vorum við bræðrungarnir jafngamlir.

Þegar ég var orðinn fulltíða og konungurinn, faðir minn, hafði gefið mér svo mikið frjálsræði, sem aldri mínum sæmdi, heimsótti ég á hverju ári konunginn, föðurbróður minn, og dvaldi einn eða tvo mánuði við hirð hans. Á þessum orlofsferðum urðum við bræðrungarnir mestu ástvinir.

Þegar ég sá hann aftur í seinasta sinn, fagnaði hann mér með meiri blíðu en nokkurntíma áður, og í veizlu einni, er hann hélt mér til sæmdar, hafði hann stórmikið við. Var lengi matazt og drukkið og er vínið tók að gera oss hlýtt um hjarta, tók hann þannig til orða:

„Bezti frændi minn, þér mundi veita örðugt að geta upp á, hvað ég hef haft til starfa síðan við skildum seinast. Það er nú ár síðan, og þegar þú varst farinn, tók ég fjölda verkamanna til að smíða hús; lét ég að öllu gera það með því skipulagi, sem ég hafði hugsað fyrir. Er það nú fullgert og hent til íbúðar; mun þér betur þykja séð en óséð, ef þú skoðar það; en þú verður fyrirfram að sverja mér þagmælsku og óbrigðanlegan trúnað. Það tvennt heimta ég af þér.“

Vinátta okkar og ástríki var meira en svo, að ég synjaði honum nokkurs, og vann ég honum hiklaust eiðinn.

Að svo mæltu sagði hann: „Bíddu mín hér, ég kem undir eins.“

Enda kom hann óðara aftur með skrautbúna konu og yfirtaks fríða. Hann sagði mér ekki hver hún væri, og þótti mér ekki sæma að spyrja um það. Settumst við aftur til borðs með henni, vorum þar stundarkorn, töluðum um heima og geima og drukkum hvert öðru til.

Loksins tók kóngsson til máls og segir: „Frændi minn, við höfum nauman tíma, taktu konu þessa og fylgdu henni til greftrunarstaðarins, þangað sem þú finnur nýtt greftrunarhús með stöpulkúpu. Það er auðþekkt og standa dyrnar opnar. Farið þið bæði þar inn og bíðið mín; ég skal ekki láta lengi standa á mér.“

Ég vildi ekki rjúfa svardagann og spurði einskis, heldur rétti ég konunni hönd mína og gekk burt; fór ég þá leið, er frændi minn hafði vísað mér og kom á réttan stað. Var þá glaða tunglskin.

Óðar en við vorum komin í greftrunarhúsið, kom kóngsson og bar litinn poka fullan af gipsi, krukku fulla af vatni og reku. Hafði hann rekuna til þess, að brjóta upp gröf eina í miðjum legstaðnum, sem var tóm; reif hann ofan af henni stein eftir stein, og hlóð þeim upp út í horni einu. Þegar hann var búinn að því, gróf hann upp moldina og sást þá undir gröfinni hurð; lauk hann henni upp og lá þar djúpt niður í jörðina undinn tröppugangur.

Þá veik frændi minn sér að konunni og mælti: „Þetta er vegurinn, sem leiðir þangað, er ég hef sagt þér.“

Kom þá konan nær og gekk ofan tröppurnar. Kóngsson var kominn af stað niður á eftir henni, en rankaði við sér, leit aftur til mín og mælti: „Bezti frændi minn, svo að vináttumerki það, sem þú hefur sýnt mér, verði fullkomið, þá bið ég þig einnar bænar enn.

Þegar ég er kominn niður, þá þektu aftur hurðina með mold, eins og áður var. Taktu síðan gips þetta og vættu það í vatninu, leggðu svo legsteinana yfir eins og þeir lágu áður, svo að enginn geti sagt, að gröf þessari hafi nýlega verið upp lokið. Ég hef komið öllu þessu í lag fyrir ári síðan og veit enginn af því, nema guð einn. En þetta er sú bæn, er ég vildi biðja þig. Guð varðveiti þig og láti þig jafnan vera hjá ástvinum þínum.“

Að svo mæltu gekk hann ofan riðið....

Ég kallaði eftir honum: „Bezti frændi minn! Hvað á þetta að þýða?“

„Láttu þér nægja þakklæti mitt og lifðu heill,“ svaraði hann og fór tafarlaust leiðar sinnar.“


56. nótt

Förumunkurinn sagði Sobeide enn fremur, að hann hefði ekkert framar heyrt til frænda síns. „Þegar ég hafði misst sjónar á honum“ - sagði hann - „læsti ég hurðinni, mokaði yfir hana mold og leitaðist við að koma gröfinni í samt lag, eins og frændi minn hafði beðið mig. Síðan hvarf ég aftur til hallar föðurbróður míns, fór inn í herbergi mitt og háttaði; var ég þá ekki laus við höfuðþyngsli, því vínið hafði svifið á mig.

Þegar ég vaknaði morguninn eftir og rifjaði upp fyrir mér allt, sem gerzt hafði um nóttina og öll atvik þessa fáheyrilega ævintýris, þótti mér sem allt hefði verið draumur. Lét ég því spyrja, hvort kóngsson væri viðlátinn, því ég vildi tala við hann. En er mér var svarað því, að hann hefði ekki verið heima um nóttina, og vissi enginn, hvað af honum væri orðið, og fengi það öllum mikils kvíða, þá skildi ég vel, að hinn kynlegi atburður í greftrunarhúsinu var allt of sannur.

Varð ég því sárhryggur og læddist á laun til greftrunarstaðarins; var þar fjöldi legstaða og allir líkir þeim, er ég hafði séð. Allan daginn var ég að virða fyrir mér hvern eftir annan og gat ekki fundið þann, er ég leitaði að, og svo liðu fjórir dagar, að ég hafði mig allan við að leita og kom fyrir ekki.

Þess ber að geta, að föðurbróðir minn, konungurinn, var fjarstaddur um þessar mundir á veiðiferð. Leiddist mér loksins að bíða heimkomu hans, beiddi ég því ráðherra hans að færa honum afsökun mína; því næst fór ég heim aftur til föður míns og hafði ég nú verið lengur burtu en nokkurntíma áður.

Þegar ég fór, voru ráðgjafar föðurbróður míns í mesta vafa og vandræðum, því þeir vissu ekkert um afdrif kóngssonarins, frænda míns. Vildi ég ekki rjúfa eið þann, er ég hafði unnið, að þegja yfir öllu, og þorði því ekki að gera þeim uppskátt það, er ég vissi.

Þegar ég var kominn til höfuðborgarinnar, sem var aðsetur föður míns, sá ég að fjöldi varðmanna stóð við hallarhliðin, en því var ekki vant; slógu þeir hring um mig, er ég gekk inn.

Þegar ég spurði, hvernig þessu viki við, svaraði höfuðsmaðurinn: „Kóngsson! Herliðið hefur sett stórvezírinn í hásæti föður yðar, sem nú er dáinn, og í nafni hins nýja konungs tek ég yður fastan.“

Því næst köstuðu dátarnir mér í hlekki og drógu mig fyrir harðstjórann. Þótti mér þá mjótt milli lífs og hels.

Vezírinn, sem hafði gert upphlaupið, hafði um langan tíma borið til mín óslökkvandi hatur, en á því stóð þannig: Þegar ég var unglingur, tamdi ég mig mjög við bogmanns íþrótt. Það var þá einn dag, að ég stóð uppi á hallarþakinu og gerði hæfing eftir fugli einum, er ég sá fljúga fram hjá. En ég missti hans og vildi svo óheppilega til, að örin kom í auga vezírsins, þar sem hann stóð á húsþaki sínu, og lá augað þegar úti á kinninni. Fær enginn maður við því gert, sem fyrirætlað er af forlögunum, eins og skáldið kemst að orði:

„Lögð er áður leiðin vor,
ljúfur bæði og tregur
í fyrirhuguð fetar spor,
fer, því nauðsyn dregur.“

Þegar ég vissi, hvert slys hafði af mér hlotizt, lét ég biðja gott fyrir mig hjá vezírnum, og gerði það síðan sjálfur. En þrátt fyrir það lagði hann upp frá þessu brennandi hatur á mig, og lét hann mig nú kenna á því, er tækifæri bauðst.

Þegar hann hafði náð tangarhaldi á mér, svalaði hann heipt sinni með guðlausri grimmd. Óðar en hann sá mig, flaug hann á mig eins og óarga dýr, og sleit úr höfði mér hægra auga mitt. Á þann hátt varð ég eineygður.

En ekki lét hann sér nægja þetta grimmdarverk. Eftir skipun hans var ég bundinn og látinn í kistu og afhentur böðlinum; átti hann að flytja mig langan veg frá höllinni, höggva af mér höfuðið og kasta líki mínu fyrir óarga dýr. Reið hann af stað með hundara sínum og flutti kistuna langt frá borginni.

Tók hann mig þar upp úr henni og ætlaði að gera, sem fyrir hann hafði verið lagt. En er ég grátbændi hann og minnti hann á allar velgjörðir, sem ég hafði auðsýnt honum, hrærðist hann til meðaumkvunar, svo að hann mælti: „Farðu þá, og skaltu hafa líf, en flýðu sem skjótast úr landi og varastu að koma hingað aftur, því það yrði bani, bæði þinn og minn. Svo segir skáldið:

„Flýðu hatur harðstjórans,
svo hann þér mein ei geri,
húsið tóma húsbóndans
háttum vitni beri.
Hvar sem ber þig auman að,
ei mun hæli þrjóta,
en önd í þinnar andar stað
aldrei muntu hljóta.“

Ég kyssti hendur hans af þakklátssemi og þóttist ekki mega um frjálst höfuð strjúka fyrr en ég væri kominn langa leið frá honum. Þótti mér missir augans lítill, en hafði nú allan hugann á að sleppa úr greipum dauðans. Gat ég þó ekki farið langa áfanga eins og ég var á mig kominn; faldi ég mig því oftast um daga á afviknum stöðum, en ferðaðist um nætur eins og kraftar mínir entust til.

Náði ég loksins í ríki föðurbróður míns og fór til aðsetursborgarinnar að finna hann. Skýrði ég honum út í hörgul frá ógæfu föður míns, sagði honum, hvernig ég hefði misst augað og forðað lífi mínu, svo að ég náði á hans fund.

Tók hann þá að gráta beisklega og mælti: „Þú hefur bætt böli á böl mitt ofan. Var ekki nóg, að ég missti son minn, á ég nú þar á ofan að frétta lát ástkærs bróður og sjá þig svo hörmulega útleikinn?“

Svo mælti hann og kom á ný upp fyrir honum mikill grátur og ekki, þangað til hann kom til sjálfs sín og mælti: „Son minn, verra hefði þó verið að láta lífið en augað og fór þetta vel eftir því sem á horfðist.“

Síðan sagði hann mér, hversu sonur sinn hefði horfið og ekkert til hans spurzt og komst ég svo við af harmi hins ólánsama föður, að ég gat engu leynt framar. Mér var lífs ómögulegt að halda eið þann, er ég hafði svarið kóngssyninum, frænda mínum.

Sagði ég þá föðurbróður mínum allt það, er ég vissi um þetta mál; hann hlýddi á sögu mína með hrærðum hug og er hann hafði heyrt hana, mælti hann: „Bróðursonur minn, saga þín glæðir hjá mér nokkra von. Ég vissi það að vísu, að sonur minn lét gera handa sér legstað, og fer ég nokkuð nærri um, hvar hann er; hygg ég að við munum finna hinn rétta stað, þegar þú rifjar allt upp fyrir þér. En af því hann lét byggja hann leynilega og þú lofaðir honum að þegja yfir því, þá er bezt að við séum tveir einir um leitina, svo aðrir verði þess ei áskynja.“

En það kom seinna fram, að hann hafði aðra gilda ástæðu, sem hann ekki gat um, til að leyna þessu máli. Fórum við nú báðir í dularbúning, gengum út úr höllinni og svo út um dyr á aldingarðinum; gengum við síðan til greftrunarstaðarins og vorum svo heppnir að finna það, sem við leituðum að. Bar ég aftur kennsl á legstaðinn og þótti því vænna um það, sem fyrri leit mín hafði orðið árangurslaus.

Fórum við inn, tókum burt grjótið og moldina og fundum hurðina; lukum við henni upp og sáum riðið. Föðurbróðir minn gekk á undan og stigum við eitthvað fimmtíu tröppur ofan og komum í forsal einn; lagði þar á móti oss illan daun og þykka svælu og dapraðist því skinið af ljósahjálmi einum fögrum, er hékk þar uppi.

Mælti föðurbróðir minn orð þau, er eyða ótta hvers, sem þau segir: „Hvergi er vald né máttur nema hjá guði einum, hinum mikla og háleita.“

Síðan fórum við lengra og komum inn í stórt hús; brunnu þar mörg ljós og hvíldi loftið á mörgum sterkum súlum. Vatnsker stóð þar á miðju gólfi og var hlaðið upp alls konar vistaforða umhverfis; en það þótti okkur kynlegast, að þar var enginn maður.

Langt innar stóð fyrir gafli hár legubekkur, og voru þrep upp að honum; var þar og breitt hvílurúm og tjöld fyrir. Gekk konungur þangað upp, tók frá tjöldin og sá þar son sinn og konuna, sem ég áður um gat; lágu þau þar hvort hjá öðru, en voru því nær brunnin til kaldra kola, eins og þeim hefði verið fleygt á mikið bál og verið bjargað áður en þau voru gjörsamlega brunnin.

Ekkert af öllu þessu datt eins ofan yfir mig við þessa hryllilegu sjón, eins og það, að föðurbróðir minn var svo fjarlægur því, að sýna á sér nokkur hryggðar merki, þar sem sonur hans var svo hræðilega útleikinn, að hann hrækti í andlit honum og mælti í bræði: „Óhræsið, þú áttir ekki annað skilið; hér hefur þú úttekið refsingu þessa heims; annars heims muntu kveljast að eilífu.“

Lét hann sér ekki nægja, að sýna reiði sína með þessu einungis, heldur þreif hann skóinn af fæti sér og rak syni sínum rokna kinnhest.“


57. nótt

Hinn fyrsti förumunkur sagði enn fremur: „Ég fæ ekki lýst því með orðum, hvað mér brá við, þegar ég sá, að konungurinn, föðurbróðir minn, misþyrmdi svona syni sínum dauðum.

„Guð á himnum!“ kallaði ég upp, „svo mikils harms sem þessi hryllilega sjón fær mér, hlýt ég að spyrja yðar hátign, hvern glæp kóngssonurinn, frændi minn, hefur drýgt, að lík hans skuli eiga slíka meðferð skilið.“

„Bróðursonur minn,“ anzaði konungurinn, „þessi sonur minn unni systur sinni frá því hann var barn og unni hún honum aftur. Reyndi ég alls ekki að slökkva hinn kviknandi kærleiksþokka milli þeirra, því ég sá ekki ólánið fyrir, sem af því mátti hljótast. Hver mundi líka hafa getað sagt það fyrir? Ást þeirra fór vaxandi með aldrinum og varð svo heit, að ég tók að kvíða afdrifunum.

Leitaðist ég nú við að fá svo mikið að gert, sem mér var unnt, og veitti ég syni mínum einslega þungar átölur, og varaði hann við slíkum fádæmis glæp, er svívirti oss og alla ætt vora og gerði mér nauðugan einn kost, að láta taka hann af lífi! Sömu skil gerði ég dóttur minni og lét ég stía henni frá öllum samgöngum við bróður sinn.

En djöfullinn var orðinn svo magnaður í þeim, að ástríða þeirra æstist æ því fremur, sem meira var gert til að varna þeim að njótast. Þóttist sonur minn vita fyrir víst, að systir sín hefði á sér sama ástarhug og áður.

Brá hann því á, að hann ætlaði að láta gera sér legstað og lét reisa þessa hvelfingu undir jörðinni, til þess hann gæti farið hingað með unnustu sína þegar færi gæfist. Enda notaði hann fjarveru mína til þess að taka systur sína úr varðhaldinu með ofbeldi! Hef ég ekki látið á því bera, svo ætt vor hlyti ekki svívirðingu af því.

Eftir þetta hegningarverða ódæði hefur hann falið sig hér og dregið hingað alls konar forða, til þess að svala fýsn sinni sem lengst; en guð leið ekki slíka andstyggð og lét réttláta refsingu dynja yfir þau, því hann hefur brennt þau upp í eldi reiði sinnar.“

Að þessu mæltu kom upp mikill grátur fyrir hinum gamla konungi og fékk ég ekki heldur tára bundizt.

Nokkru síðar leit hann til mín og mælti um leið og hann faðmaði mig að sér: „Bróðursonur minn, hafi ég misst hér óverðugan son, þá er mér það að fullu bætt, þar sem þú ert. Þú skalt vera sonur minn í hans stað.“

Þarna vorum við um hríð að tala saman; konungurinn harmaði missi barna sinna og harðúð forlaganna, en ég rifjaði upp raunir mínar, dauða föður míns, svik vezírsins og missi auga míns, og tárfelldum við hvað eftir annað. Loksins gengum við upp tröppurnar, lukum eftir okkur hurðinni, huldum hana moldu og komum gröfinni í samt lag, til þess að hylja eilífu myrkri þenna skelfilega vott guðs refsingar. Komum við að stundu liðinni til hallarinnar og höfðu menn eigi saknað okkar þar.

En þá heyrðum við lúðragang og bumbnahljóm og ýms önnur hernaðar hljóðfæri. Þeystu fram hermenn og sást ekki í loftið fyrir jóreyk, er þyrlaðist upp af mannareiðinni. Varð konungur forviða og spurði, hvað á gengi, og komumst við nú að því, að vezírinn, drottinssvikarinn, sem hafði svælt undir sig föðurleifð mína, fór að með óvígan her, og ætlaði að brjóta undir sig ríki föðurbróður míns.

Hann hafði nú ekki annað lið hjá sér en innverði sína, eins og hann var vanur, og gat því ekki reist rönd við slíku ofurefli. Hafði portum borgarinnar verið upp lokið viðnámslaust, og var þá hægt að greiða atgöngu til hallar föðurbróður míns; varði hann sig drengilega, og seldi þeim líf sitt dýrt, þangað til hann féll við góðan orðstír. Barðist ég um stund, en er ég sá, að ég mátti eigi við margnum, hugði ég bezt að forða fjöri mínu og slapp ég heill á húfi til eins af embættismönnum föðurbróður míns.

Var ég nú yfirkominn af hugraun, margþjáður af forlögunum, og átti vísan bana undir eins, ef lið hins svikafulla vezírs sæi mig; sá ég þá ekki annað fangaráð en að bregðast í dularham og forða lífinu. Lét ég raka skegg mitt og augabrúnir, fór í förumunksbúning og komst út úr borginni, svo enginn þekkti mig. Sneiddi ég síðan hjá öllum borgum og þjóðvegum og var mér úr því hægðarleikur að sleppa burt úr ríki föðurbróður míns og ná inn í lönd kalífans, hins volduga konungs rétttrúaðra manna; fór þá af mér allur kvíði.

Þvínæst hélt ég til Bagdad, þessa friðarheimkynnis, í þeirri von, að einhver mundi verða til, að fylgja mér á fund hins víðfræga og volduga Harún Alrasjids. Ætla ég að fleygja mér fyrir fætur þessa mikla konungs, sem hvarvetna er lofaður fyrir drengskap, og segja honum hina fáheyrilegu ævisögu mína. Veit ég, að hugur hans mun hneigjast til meðaumkvunar með mér, ólánssömum kóngssyni, og mun ég ekki leita hans fulltingis árangurslaust.

Þegar ég fór inn um borgarhliðið var tekið að dimma af nótt. Meðan ég staldraði við um stund og velti fyrir mér, hvert ég ætti að halda, kom hingað þessi annar förumunkur, og kvaðst vera útlendingur, og enn kom hinn þriðji förumunkur og kastaði kveðju á okkur og sagðist líka vera útlendingur og nýkominn í Bagdad. Slógumst við síðan í samfélag eins og bræður og urðum ásáttir um að halda hóp. Meðan þetta gerðist var orðið áliðið og vissum við ekki hvar við gætum fengið húsaskjól, því við vorum bráðókunnugir og höfðum aldrei verið í borginni.

Nú átti svo vel til að vilja, að okkur bar að húsi ykkar; leyfðum við okkur að drepa á dyr og tókuð þér oss með slíkri góðfýsi og brjóstgæðum, að það verður aldrei fullþakkað. Þetta, lafði mín, er það, sem þér hafið skipað mér að segja frá: því ég hafi misst auga mitt, látið raka skegg mitt og augabrúnir og hvernig ég væri hingað kominn.“

Þá mælti Sobeide: „Þetta er nóg; við erum ánægðar og máttu fara hvert sem þér lízt.“

Förumunkurinn beiddi samt leyfis, hvort hann ekki mætti vera kyrr til þess að heyra sögu beggja förunauta sinna, enda vildi hann ekki vera þekktur að því að yfirgefa þá; langaði hann og til að heyra sögu hinna þriggja annarra komumanna.


58. nótt

Öllum, sem viðstaddir voru, þótti sagan af hinum fyrsta förumunki næsta undarleg, en þó kalífanum allra mest, svo þó svertingjarnir stæðu upp yfir honum með brugðnum sverðum, gat hann ekki að sér gert að hvísla að Gíafar: „Ég hef heyrt margar sögur, en enga, sem kemst í hálfkvisti við þessa af förumunkinum.“

Í því hann mælti þetta, byrjaði annar förumunkurinn að segja Sobeide sögu sína.

Þessi texti er fenginn frá Netútgáfunni