Þúsund og ein nótt/Sagan af kvongaða manninum og páfagauknum

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Sagan af kvongaða manninum og páfagauknum
Fairytale left blue.png     Sagan af barninu fundna Mamúð soldán og vezír hans Fairytale right blue.png    

20. nótt

„Einu sinni var kaupmaður, sem átti konu fyrirtaks fríða, elskaði hann hana með slíkum ákafa og afbrýði, að hann mátti aldrei hafa af henni augun.

En einhvern tíma neyddist hann til að fara ferð í verzlunarerindi. En áður hann legði af stað, fór hann í sölubúð eina, þar sem alls konar fuglar fengust til kaups. Keypti hann sér páfagauk, sem bæði gat bullað vel og var gæddur þeim kosti að auki, að hann sagði frá öllu aftur, sem fyrir hann bar.

Hafði kaupmaðurinn hann heim með sér í búri og beiddi konu sína að taka fuglinn í herbergi sitt og annast hann, meðan hann væri burtu. Að því búnu fór hann af stað.

Þegar hann kom heim aftur, spurði hann páfagaukinn, hvað gerzt hefði meðan hann var burtu; varð hann þá margs vísari af fuglsnefinu, svo að hann ávítaði konu sína harðlega.

Grunaði hana fyrst, að ein af ambáttunum hefði komið upp um sig, en þær sóru allar og sárt við lögðu, að þær væru saklausar, og bar þeim öllum saman um það, að páfagaukurinn mundi hafa sagt eftir henni.

Nú hugsaði konan sér ráð til að eyða tortryggni manns síns og hefna sín á páfagauknum. Henni varð ekki ráðafátt. Það var einu sinni í annað skipti að maðurinn var burtu eina nótt, lagði hún þá fyrir eina ambáttina að standa undir fuglsbúrinu og snúa handkvörn með ærnum hávaða. Annarri sagði hún, að skvetta vatni ofan yfir páfagaukinn eins og rigning væri, og hinni þriðju að snúa spegli móti ljósinu, svo að geislinn glampaði alltaf fyrir augum hans.

Á þessu létu nú ambáttirnar ganga mestalla nóttina, og þegar húsbóndinn kom heim morguninn eftir, spurði hann páfagaukinn, en hann svaraði: „Blessaður verið þér, húsbóndi góður! Það hafa gengið slík ósköp á í nótt af þrumum, eldingum og rigningu, að ég tala ekki um hvað ég hef tekið út.“

Kaupmaðurinn vissi það vel, að hvorki höfðu verið þrumur né rigning um nóttina. Sannfærðist hann því um það, að páfagaukurinn hefði sagt sér ósatt um konu sína áður, eins og hann gerði nú. Varð hann þá svo gramur og reiður, að hann þreif fuglinn út úr búrinu, og grýtti honum svo miskunnarlaust á jörðina, að hann dó af því.

En eftir á gátu nágrannarnir eitthvað frætt kaupmanninn um það, að páfagaukurinn hefði minnstu logið að honum um háttalag konu hans, og sáriðraðist hann þá eftir að hafa drepið fuglinn.

Ó, þú konungur veraldarinnar!“ mælti vezírinn, „af þessu máttu marka hvað konur eru slungnar. Já, láttu ekki deyða Núrgehan fyrr en lærifaðir hans hefur fundizt. Eitthvað sérlegt mun hér undir búa. Heldurðu ekki þig mundi taka það sárt, ef það yrði uppvíst á síðan, að þú hefðir úthellt saklausu blóði?“


21. nótt

Sagan af kvongaða manninum og páfagauknum fékk Persakonungi svo mikils, að hann lét ekki lífláta son sinn, heldur fara með hann aftur í díblissuna. Reið hann síðan út á veiðar sér til skemmtunar, og er hann kom heim, borðaði hann kvöldverð með drottningu sinni eins og hann var vanur.

Eftir máltíðina segir hún við hann: „Enn er ekki búið að taka Núrgehan af lífi, og alltaf læturðu ástina ráða, sem þú hefur á honum. Það væri betur þú létir þér segjast af því, sem ég nýlega sagði þér af Bajasi soldáni og barninu fundna, og værir eins ráðþægur og Mamúð soldán. Skal ég nú segja þér söguna af honum.

Þessi texti er fenginn frá Netútgáfunni