Þúsund og ein nótt/Sagan af málaranum Mamúð frá Ispahan

Úr Wikiheimild

Einu sinni fór málari að finna kunningja sinn; sá hann þá hjá honum mynd svo yndislegrar konu, að hann fékk á henni brennandi ást. Reyndi vinur hans að leiða honum fyrir sjónir, hversu heimskulegt það væri, að hafa svo ákafan girndarhug á blindri og mállausri mynd, sem einhver ef til vill hefði gert eftir hugmynd sinni.

Þá svaraði Mamúð: „Það er ómögulegt að málaranum hafi tekizt að mynda þetta andlit, nema hann hafi haft það fyrir sér.“

Lét hann vin sinn ekki hafa neinn frið fyrr en hann komst fyrir það hjá málaranum og varð þess vísari, að myndin var af söngmey nokkurri í kvennabúri stórvezírsins í Ispahan.

Þegar málarinn vissi, að stúlkan, sem hann elskaði, var í höfuðborg Persíu, fór hann af stað þangað og ferðaðist dag og nótt. Þegar hann var búinn að vera þar nokkra daga, varð hann gagnkunnugur lyfsölumanni einum; var hann til húsa hjá honum og talaði við hann um margt, sem hann þurfti að komast eftir, til að ná áformi sínu. Heyrði hann, að konungur væri svarinn óvinur töframanna, og ef hann næði þeim, léti hann kasta þeim niður í gjá nokkra fyrir utan borgina, svo þeir yrðu þar hungurmorða. Fékk hann og fulla vissu um það, að söngmærin væri ein af ambáttum stórvezírsins og hugsaði hann sér bragð til að ná henni.

Hann bjó sig út eins og ræningi og læddist til hallar vezírsins, og komst með kaðalstiga, er hann hafði með sér, yfir múrinn og flatþakið niður í garðinn. Sá hann þar herbergi skínandi bjart af mörgum ljósum; þangað gekk hann og fór inn; sá hann þar konu, ljómandi af fegurð eins og sól í heiði; lá hún þar sofandi í fílabeinsrúmi gullbúnu, og brunnu lampar allt umhverfis; kenndi hann, að þar var sú, er hann leitaði að.

Gekk hann þá rétt að hvílunni og rispaði hægt í lófa hennar með daggarði sínum, svo að ofurlítið dreyrði úr. Hrökk hún upp, en var svo hrædd, að hún mátti ekki hljóði upp koma sér til hjálpar; hélt hún að þetta væri ræningi og bauð honum blæju, sem hjá henni lá, margskreytta perlum og gimsteinum, ef hann vildi gefa sér líf. Tók Mamúð við blæjunni, og fór eins og hann var kominn.

Daginn eftir bjóst hann í pílagrímsgervi, stakk á sig blæjunni og fór til konungs. „Herra!“ tók hann til orða: „Eg em guðhræddur pílagrímur frá Khórassan; hefur lofstír mannkosta þinna og orðrómur réttlætis þíns dregið mig hingað, að ég mætti lifa í skjóli þínu og vernd. Ég kom þegar skuggsýnt var orðið að borginni og voru hliðin lokuð; varð ég svo að bíða þar til morguns. Meðan ég lá þar úti, sá ég koma fjórar konur, reið ein hýenu, önnur hrúti, þriðja svörtum hundi, fjórða lébarða; var auðséð að þetta voru fordæður.

Ein þeirra kom til mín og lamdi mig með keyri sínu, sem var eins og glóandi hrísla á að líta. Nefndi ég þá nafn allsvaldanda guðs, og brá til hennar hníf mínum, og skeindi hana á hendinni. Hvarf hún þá frá mér, en missti þessa dýrindis blæju og tók ég hana upp; virði ég jarðneskan hégóma að vettugi og legg hana því niður fyrir fætur þína.“

Að svo mæltu fór hann, en konungur þekkti blæjuna; hafði hann gefið vezírnum hana áður, og komst hann nú að því, að vezírinn hafði aftur gefið hana uppáhalds ambátt sinni. Var hún leidd fram eftir skipun konungs og skoðuð; fannst þá á henni sárið. Var hún dæmd til að verða hungurmorða fyrir fordæðuskap og var henni sökkt niður í gjána fyrir utan borgina.

En er Mamúð spurði, hvernig bragðið hafði heppnazt, fór hann þangað, og beiddi varðhaldsmennina að framselja sér ambáttina; gerðu þeir það, því bæði gaf hann þeim gjafir og skemmti þeim með sögu sinni. Hélt hann síðan heim á leið með ambáttina og fór dagfari og náttfari unz hann komst þangað með hana.

Þetta er nú eitt af hinum óteljandi brögðum karlmannanna,“ mælti Kansade að lyktum, en Sindbað svaraði: „Nú skal sonur minn orðalaust deyja á morgun.“

Á þessu hafði nú gengið í fjörutíu daga, að Kansade rak eftir lífláti Núrgehans, en vezírarnir töldu úr því. En að morgni hins fertugasta og fyrsta dags settist konungur í hásæti, lét leiða fram son sinn og hina fjörutíu vezíra, alla í fjötrum, og kom einn tugur í einu.

Var böðlinum skipað að taka til verks, og batt hann fyrir augu kóngssonar og brá sverðinu. Spurði hann konung tvisvar, hvort hann skyldi höggva, og játaði konungur því tvisvar. Samt spurði böðullinn í þriðja skipti og mælti: „Herra! Hugsið eftir því, að ef ég framkvæmi skipun yðar, verður hún ekki aftur tekin.“

Konungur ætlaði að skipa honum í þriðja sinn, en í því bili var Abúmasjar dreginn fram fyrir hásætið svo fljótt, að fætur hans komu varla við gólfið; höfðu varðmenn tekið hann fastan fyrir utan höllina.

„Mannfjandi!“ mælti konungur, er hann sá læriföður sonar síns, „níðingsskapur þinn skal koma í koll þér. Er ekki svikum þínum um málleysi sonar míns að kenna?“

„Svo er í sannleika, herra!“ anzaði Abúmasjar, „það dró nauðsyn til, að sonur þinn þegði í fjörutíu daga, svo að óláni því yrði afstýrt, er himintunglin spáðu honum. En nú er hinn hættulegi tími á enda og nú má hann tala.“

Var þá bandið óðara leyst frá augum Núrgehans, og sagði hann hreinskilnislega frá, hvað hann og drottningin, stjúpa hans, hefðu átt saman. Báru þjónustumeyjarnar það með honum; höfðu þær staðið á hleri og heyrt hvert orð, því þunnur veggur var á milli. Lét þá Sindbað konungur son sinn setjast við hlið sér og kyssti á honum augun; en hinir fjörutíu vezírar voru leystir úr fjötrunum og kysstu kné hans og fætur; fóru þeir úr sorgarbúningnum, er þeir urðu að bera á hinum fjörutíu dögum, og íklæddust dýrindis klæðum, sem konungur gaf þeim.

En Kansade var vægðarlaust líflátin.

Þegar gríski konungurinn hafði sagt vezir sínum sögu Sindbaðs Persakonungs, mælti hann enn fremur: „Ég skal gjalda varhuga við því að drepa eftir þínum ráðum hann Dúban, sem þú öfundar og ekkert hefur gert þér. Ég vil ekki gera honum eins rangt til og konungurinn gerði syni sínum.“

Þegar vezírinn sá að svona lá í konungi, mælti hann: „Því skyldi ég bera slíkan kala til hins svikráða læknis, að ég talaði illa um hann, og bruggaði honum banaráð, ef hann ekki sæti á svikráðum við þig? Mér gekk ekkert annað til en dyggð og trúleiki þér til handa, að vara þig við honum, og hafi ég ekki sagt satt, þá refsaðu mér eins og einum vezír hefur verið refsað einu sinni áður.“

„Og hvað hafði hann til saka?“ spurði gríski konungurinn, en vezírinn mælti: „Þóknast yður mildilegast að hlýða á: