Þúsund og ein nótt/Sjöunda og síðasta ferð Sindbaðs farmanns

Úr Wikiheimild

„Þegar ég var heim kominn úr sjöttu ferðinni, var ég afhuga öllu nýju ferðalagi. Ég var nú kominn á þann aldur, að ég þurfti hvíldar og hafði ég staðráðið með sjálfum mér, að leggja ekki framar út í hættur þær, sem ég svo oft hafði ratað í. Hafði ég því ekki hugann á öðru en að lifa ánægjulegu lífi, það sem eftir var ævinnar.

Það var einhvern dag, þegar ég hafði vini mína í boði, að einn af heimilismönnum mínum kallaði á mig, og sagði að einn af þjónum kalífans vildi finna mig að máli. Stóð ég þá upp frá borðum og gekk á móti honum.

„Kalífinn,“ tók hann til máls, „skipaði mér að skila til yðar, að hann vildi tala við yður.“

Fylgdi ég honum til hallarinnar og leiddi hann mig á fund kalífans; fleygði ég mér þá niður fyrir fætur honum.

„Sindbað!“ mælti hann, „nú er ég upp á þig kominn og verður þú að gera bón mína, en hún er sú, að þú færir konunginum á Seylon bréf og gjafir frá mér. Það er sanngjarnt, að ég láti kurteisi koma á móti kurteisi.“

Þegar ég heyrði þessa skipun, datt mér allur ketill í eld. „Konungur rétttrúaðra manna,“ mælti ég, „ég er reiðubúinn til hvers, sem yðar hátign vill, en ég bið yður auðmjúklegast, að vorkenna mér sakir ellilasleika. Ég hef strengt þess heit, að fara aldrei framar úr Bagdad.“

Því næst sagði ég honum öll ævintýri mín út í hörgul; þóknaðist honum að hlýða á þau allt til enda, og svaraði hann mér þá:

„Þetta eru að vísu fáheyrðir atburðir, en ekki eiga þeir að aftra þér frá því að fara þessa ferð, mér til geðþekkni. Þú þarft ekki að fara lengra en til eyjarinnar Seylon, og heim aftur að afrekuðu erindi þínu. En þangað verður þú að fara, því það máttu skilja, að ekki tjáir það, né hæfir tign minni, að láta konunginn þar á eynni eiga nokkuð til skuldar að telja hjá mér.“

Þegar ég sá, að þetta var einbeittur vilji kalífans, kvaðst ég vera fús að hlýða, og varð hann þá glaður við, og lét telja mér hundrað sekkínur til ferðakostnaðar.

Að fárra daga fresti varð ég ferðbúinn, og jafnskjótt sem kalífinn hafði látið afhenda mér bréfið ásamt gjöfunum, fór ég til Balsora og tók mér fari. Varð ég vel reiðfara og lenti á Seylon, sagði ráðgjöfunum erindi mitt og beiddi þá að fylgja mér á fund konungs. Var mér ekki synjað þess, heldur fylgt til hallarinnar; heilsaði ég þá konungi og kastaði mér til jarðar eins og siður er til.

Konungurinn þekkti mig undir eins og varð stórglaður. „Kom þú heill, Sindbað!“ mælti hann, „það máttu vita fyrir víst, að síðan við skildum, hef ég oftsinnis til þín hugsað, og er þetta blessaður dagur, sem lætur fundum okkar aftur bera saman.“

Þakkaði ég honum góðvilja hans mér til handa, og afhenti honum bréf og gjafir kalífans, en hann tók við og lét í ljósi mikla gleði.

Kalífinn sendi honum heilan sængurfatnað úr gullfjölluðu rósasilki, þúsund sekkína virði, fimmtíu skikkjur úr dýrindis vefnaði og hundrað aðrar úr smágjörvu hvítu líni frá Kairó, Súez, Alexandríu og Kafa. Þar að auki voru lifrauð rúmföt og enn hin þriðju; ennfremur ker úr agatsteini, sem var víðara en það var djúpt til, fingurs þykkt og hálft fet þvermáls, en á botninum var lágmynd; það var maður, sem lá með annað knéð á jörðinni og hélt á boga með ör á streng og ætlaði að skjóta á ljón. Að endingu fylgdi gjöfum þessum dýrmæt tafla, sem sagt var, að hinn mikli Salómon hefði átt. Bréf kalífans var svolátandi:

„Abdalla Harún Alrasjid, sem guð hefur vísað i tignarsæti eftir forfeður hans, hásællar minningar, sendir hinum volduga og giftusama soldáni kveðju sína í nafni hans, sem einn er ljós og leiðtogi á réttum vegi.

Vér höfum meðtekið bréf yðvart og fékk það oss mikillar gleði, og sendum vér yður aftur bréf þetta úr ríkisráði voru. Vér vonum að það votti yður vorn góða tilgang og verði yður vel að skapi. Guð veri með yður.“

Konunginum á Seylon var mikil gleði að því, að kalífinn hafði tekið vináttuboði hans. Skömmu síðar beiddi ég leyfis að kveðja hann og var það harðla torsótt. Loksins var mér veitt það, og gaf konungur mér fararleyfi og leysti mig út með ríkulegum gjöfum.

Sté ég þá undir eins á skip og ætlaði heim til Bagdad, en var ekki svo heppinn að komast þangað, eins og ég vonaði, heldur sneri drottinn þessu á aðra leið.

Þegar vér höfðum verið nokkra daga á leiðinni, réðust á oss víkingar og varð þeim hægðarleikur að hertaka skip vort, því vér höfðum engan viðbúnað til varnar oss. Sumir reyndu að verjast, en ég og allir þeir, sem voru svo hyggnir að varast slíka fásinnu, voru hnepptir í þrældóm.


109. nótt[breyta]

Þegar víkingarnir höfðu rænt oss, og fengið oss léleg föt í stað þeirra, sem þeir tóku af oss, fluttu þeir oss til stórrar eyjar langt burtu, og seldu oss mansali.

Mig keypti auðugur kaupmaður, og óðar en hann hafði keypt mig, fór hann með mig inn í hús sitt og gaf mér góðan mat og þokkalegan þrælaklæðnað. Hafði hann ekki grennslazt eftir, hver ég væri, og spurði mig því nokkrum dögum síðar, hvort ég kynni nokkra iðn. Ég kvað nei við, og gerði honum ekki frekara uppskátt, hver ég væri, en það, að ég sagði honum, að ég væri kaupmaður og hefði verið rændur öllu af víkingum þeim, er seldu mig.

„Kanntu þá ekki að skjóta af boga?“ spurði hann mig, og svaraði ég, að þá íþrótt hefði ég tamið mér í æsku, og hefði ekki týnt henni niður síðan.

Því næst fékk hann mér boga og örvar, lét mig setjast upp á fíl bak við sig, og fór til mikils skógar, sem var margar mílur frá borginni. Riðum við langt inn í skóginn, þangað til hann staðnæmdist og lét mig fara af baki; sýndi hann mér tré nokkurt hátt og digurt og mælti:

„Klifrastu upp í tréð að tarna og skjóttu á fílana, sem fram hjá ganga, því hér er mesti fjöldi af þeim. Drepir þú einhvern þeirra, skaltu láta mig vita.“

Síðan fékk hann mér nesti og fór aftur til borgarinnar. Ég var á gægjum alla nóttina og sá engan fíl, en um morguninn sá ég mesta sæg, skömmu eftir sólar uppkomu. Skaut ég á þá hvað eftir annað, þangað til einn féll; höfðu þá hinir sig burt, og gerðu mér þannig mögulegt að segja húsbónda mínum frá veiðihappi þessu.

Hann gaf mér góðan málsverð fyrir, hældi mér fyrir íþrótt mína, og var mér hinn blíðasti. Fórum við nú báðir saman út í skóg og dysjuðum fílsskrokkinn. Ætlaði húsbóndi minn að koma og taka tennurnar, þegar dýrið væri rotnað.

Ég hélt veiði þessari áfram í tvo mánuði, og drap einn fíl á dag; fór ég ekki ætíð upp í sama tréð, heldur sitt í hvert skipti.

Það var einn morgun, er ég beið fílanna, að þeir brugðu út af vana sínum, því þeir röltu jafnan fram hjá mér gegnum skóginn, en nú drifu þeir að mér með hræðilegu öskri, og var það slíkur urmull, að hvergi sá í milli, en jörðin skalf og titraði undir fótum þeirra.

Þeir slógu hring um tréð, er ég sat í, með trjónurnar reistar í loft upp og augun starandi á mig; varð mér svo illt við þessa kynlegu sjón, að ég varð máttvana af hræðslu, og hrökk boginn og örvarnar úr höndum mér.

Þetta var og mikið hræðslu efni, því þegar þeir höfðu glápt á mig um hríð, krækti einhver stærsti fíllinn trjónu sinni um tréð að neðanverðu, og sleit það upp með rótum, svo að ég steyptist til jarðar. En dýrið þreif mig upp með trjónunni og hóf mig upp á bak sér, og hélt ég mér þar fast með örvamælinn á herðum mér, og var nær dauða en lífi. Gekk nú fíll þessi á undan; en hinir á eftir í hóp; bar hann mig góðan spöl, lagði mig síðan niður og gekk burt með félögum sínum.

Hugsið yður nú, hvernig á mér muni hafa legið; mér þótti allt líkara draumi en vöku. Þegar ég hafði legið um stund á jörðinni og sá engan fíl, stóð ég upp og litaðist um, og var ég staddur á víðri hæð, sem var alþakin fílatönnum.

Þegar ég sá þetta, fór ég að hugsa margt; ég furðaði mig á náttúruviti dýra þessara, og þóttist viss um, að hér mundi vera dauðareitur þeirra, og hefðu þeir sýnt mér hann til þess, að ég ekki skyldi leggja þá í einelti vegna tannanna. Sneri ég nú tafarlaust aftur til borgarinnar og gekk allan daginn og næstu nótt, þangað til ég kom til húsbónda míns. Á þeirri leið mætti ég engum fíl, og réði ég af því, að þeir mundu hafa hörfað lengra inn í skóginn, til þess ég hefði greiða göngu til hólsins.

Þegar húsbóndi minn sá mig, mælti hann: „Veslings Sindbað! Ég hef verið dauðhræddur um þig. Ég fór til skógarins og kom að tré einu, sem rifið var um koll, og fann ég þar nálægt boga og örvar; ég leitaði þín alstaðar árangurslaust og taldi þig af. Segðu mér, hvað hefur þér viljað til, og hvernig varstu svo bráðheppinn, að komast lífs af?“

Sagði ég honum þá allt, hvernig farið hafði, og fórum við báðir næsta dag til hólsins. Varð hann frá sér numinn af gleði, er hann sá, að ég hafði sagt satt. Við klyfjuðum fílinn, sem við höfðum með okkur, svo mörgum tönnum, sem hann gat borið, og þegar heim kom, sagði húsbóndi minn við mig:

„Bróðir, nú skalt þú ekki framar vera þræll minn, sakir fundar þessa, sem verða mun auðsuppspretta mín. Guð veiti þér ríkulega allt, sem gott er og farsællegt, og tek ég hann til vitnis, að ég gef þér frelsi. Ég hafði dulið þig þess, að fílarnir í skógunum drepa fjölda þræla, sem vér sendum þangað eftir fílabeini. Hvað ríkt sem vér leggjum á við þá, að þeir skuli fara gætilega, ráða þó þessi slægvitru dýr þeim bana, fyrr eða síðar.

Guð hefur varðveitt þig fyrir grimmdaræði þeirra og engan annan; er það ljóst merki þess, að hann elskar þig og vill láta þig lifa, til þess að gera allt hið góða, sem þér er ætlað. Mér hefur þú gert ómetanlegt gagn; allt til þessa gátum vér eigi náð fílabeini, nema vér hefðum þræla vora í lífsháska, en nú mun öll borgin auðgast af því.

En ekki skaltu halda, að mér þyki þér vera fulllaunað með frelsisgjöfinni, heldur mun ég þar á ofan sæma þig miklum gjöfum. Gæti ég hæglega komið öllum borgarmönnum til að efla hamingju þína, en nú ætla ég sjálfum mér einum þessa sæmd.“

Þessum vinmælum svaraði ég þannig: „Guð varðveiti yður; frelsisgjöfin er svo mikils verð, að ég á ekkert hjá yður, og í stað allra verðlauna fyrir greiða þann, sem ég hef gert yður og borg yðvarri, bið ég að eins leyfis að fara heim til fósturjarðar minnar.“

Þá mælti hann: „Nú munu stöðuvindar (Á hinu indverska hafi sem liggur undir jafndægursbaug, blása staðvindar (mussons) á víxl, ýmist austanvindur eða vestanvindur og blæs mánuðum saman af sömu áttinni.) bráðum flytja hingað skip, er sækja fílabein; þá skal ég verða þér hjálplegur, svo að þú komist heim.“

Þakkaði ég honum enn á ný frelsi mitt og vinsemd hans mér til handa. En þangað til stöðuvindar byrjuðu, fórum við svo margar ferðir til hólsins, að öll forðabúr hans urðu full af fílabeini. Gerðu svo allir kaupmenn í borginni, sem verzluðu með þá vöru, því þeim gat ekki dulizt það til lengdar.


110. nótt[breyta]

Nú komu loksins skip, og útvegaði húsbóndi minn mér far með einu þeirra; fermdi hann það fílabeini og átti ég hálfan farm. Hann gaf mér og ágætt nesti, margar dýrmætar gjafir og fágæta hluti, sem fengust þar í landi. Þakkaði ég honum nú innilega fyrir allt gott, sem ég hafði þegið af honum, sté á skip og létum vér síðan úr höfnum.

Lentum vér í mörgum eyjum til að fá oss hressingu, og með því skipið hafði komið frá meginlandi Indíaveldis, lögðum vér þar að landi. Vildi ég ekki hætta á sjóferð til Balsora, heldur réði ég af að fara þangað landveg. Lét ég því skipa upp fílabein mitt og seldi það fyrir ógrynni peninga, keypti marga fágæta hluti, sem ég ætlaði að gefa, og slóst síðan í lestaferð með kaupmönnum nokkrum.

Vorum vér lengi á ferðinni, og varð ég að þola marga hrakninga, en bar það með þolinmæði, því nú þurfti ég hvorki að hræðast storma, víkinga, höggorma, eða aðrar hættur, sem ég áður hafði ratað í.

Þegar ég kom til Bagdad, voru allar þrautir mínar á enda; fór ég þá til kalífans, til þess að gera honum grein fyrir sendiferð minni. Sagðist hann hafa farið að verða hræddur um mig, er burtvera mín dróst svo lengi, en hafa þó ætíð verið vongóður um, að guð mundi ekki yfirgefa mig.

Þegar ég hafði sagt honum frá viðureign minni við fílana, undraðist hann mjög, og mundi ekki hafa lagt trúnað á þá sögu, hefði hann ekki þekkt mig að ráðvendni. En svo þótti honum sagan merkileg, að hann lét skrifara sinn letra hana gullnum stöfum og leggja til geymslu í féhirzlu sína. Kvaddi ég hann síðan og gekk burt glaður af gjöfum þeim, er ég hafði þegið og sæmd þeirri, er mér hafði verið sýnd, og helga ég nú líf mitt heimili mínu, ættingjum og vinum.“

Þannig lauk Sindbað að segja af hinni sjöundu og síðustu ferð sinni, og spurði hann nú Hindbað: „Vinur, hefur þú nokkurn tíma heyrt, að mennskur maður hafi þolað slíkt og átt í slíkum mannraunum? Hef ég ekki unnið til náðugra og ánægjulegra daga ofan á slíka hrakninga?“

Hindbað kyssti á hönd hans og mælti: „Sannlega, herra, hafið þér átt í ógurlegum hættum og komast mínar þrautir í engan samjöfnuð við yðar, því þó mér þyki þær þungbærar meðan á þeim stendur, þá get ég samt ætíð huggað mig við hinn litla gróða, sem ég hef í aðra hönd. Þér eigið ekki einungis skilið að lifa náðugu lífi, heldur eruð þér í alla staði verðugur hinna miklu auðæfa, því þér verjið þeim vel og sýnið af yður höfðingsskap. Guð gefi yður gleðilega lífdaga allt til æviloka.“

Lét þá Sindbað aftur telja honum hundrað gullpeninga, tók hann í tölu vina sinna og bauð honum að hætta við atvinnu sína og eta framvegis við borð sitt, svo að hann alla ævi gæti munað Sindbað farmann.“

Af því Sjerasade sá að dagur var enn þá ekki kominn, byrjaði hún á nýrri sögu.