Þorsteins þáttur uxafóts

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þorsteins þáttur uxafóts

1. kafli[breyta]

Þórður skeggi hét maður. Hann nam lönd öll í Lóni fyrir norðan Jökulsá, millum og Lónsheiðar, og bjó í Bæ tíu vetur. En er hann frá til öndvegissúlna sinna í Leiruvogi fyrir neðan heiði þá seldi hann lönd sín Úlfljóti lögmanni er þar kom út í Lóni. Úlfljótur var son Þóru, dóttur Ketils Hörða-Kára, Áslákssonar Bifru-Kára, Unnarssonar arnarhyrnu. En er Úlfljótur var nær sex tigum að aldri þá fór hann til Noregs og var þar þrjá vetur. Þá settu þeir Þorleifur spaki móðurbróðir hans lög þau er síðan voru kölluð Úlfljótslög. En er hann kom út þá var alþingi sett og höfðu allir menn ein lög síðan hér á landi.

Það var upphaf hinna heiðnu laga að menn skyldu eigi hafa höfuðskip í haf. En ef menn hefðu þá skyldu þeir af taka höfuð áður þeir kæmu í landsýn og sigla eigi að landi með gapandi höfðum né gínandi trjónu svo að landvættir fældust við. Baugur, tvíeyringur eða meiri, skyldi liggja í hverju höfuðhofi á stalli. Þann baug skyldi hver goði hafa á hendi sér til lögþinga þeirra allra er hann skyldi sjálfur heyja og rjóða hann þar í róðru blótnauts þess er hann blótaði þar sjálfur. Hver sá maður er þar þurfti lögskil af hendi að leysa að dómi skyldi áður eið vinna að þeim baugi og nefna sér votta tvo eða fleiri.

„Ykkur nefni eg í það vætti,“ skyldi hann segja, „að eg vinn eið að „ baugi, lögeið. Hjálpi mér svo nú Freyr og Njörður og hinn almáttki ás, sem eg mun svo sök þessa sækja eða verja eða vitni bera eða kviðu eða dóma dæma sem eg veit réttast og sannast og helst að lögum, og öll lögmæt skil af hendi leysa, þau er undir mig koma, meðan eg er á þessu þingi.“

Þá var landinu skipt í fjórðunga og skyldu vera þrjú þing í fjórðungi hverjum en þrjú höfuðhof í þingsókn hverri. Þar voru menn vandaðir til að varðveita hofin að hyggindi og réttlæti. Þeir skyldu dómnefnur eiga á þingum og stýra sakferli. Því voru þeir goðar kallaðir. Hver skyldi og gjalda toll til hofs svo sem nú er kirkjutíund.

Böðvar hinn hvíti af Vors úr Noregi byggði fyrstur að Hofi og reisti þar hof og gerðist hofgoði. Hann var faðir Þorsteins, föður Halls á Síðu.

Þórir hinn hávi nam land í Krossavík fyrir norðan Reyðarfjörð. Þaðan eru Krossvíkingar komnir.

2. kafli[breyta]

Þorkell hét maður er bjó í Krossavík. Hann var Geitisson. Hann var hið mesta afarmenni og harðfengur og kallaður ofurhugi. Hann var þá ókvæntur er þessi saga gerðist. Systir hans óx upp með honum er Oddný hét, allra kvenna vænst, hverri konu hagari. Þó var mikill mállaki á ráði hennar. Hún hafði ekki mál og var með því alin. Þau unnust mikið systkin.

Þorkell átt þræl einn, útlendan að öllu kyni, er Freysteinn hét. Hann var hvorki ljótur né illur viðureignar sem aðrir þrælar heldur var hann gæfur og góður viðurskiptis og nálega hverjum manni vænni. Því var hann kallaður Freysteinn hinn fagri.

Krumur hét maður. Hann bjó í Krumsholti. Sá bær er nú eyddur. Hann var Vémundarson, Ásbjarnarsonar, Krumssonar hins gamla. Krumur hinn gamli fór af Vors búferli til Íslands. Hann nam land á Hafranesi inn til Þernuness og allt hið ytra, bæði Skrúð og aðrar úteyjar og inn öðrumegin að Þernunesi. Krumur hinn yngri átti þá konu er Þórgunna hét og var Þorsteinsdóttir, Veturliðasonar, Ásbjarnarsonar, göfugs manns af Beitsstöðum, Ólafssonar langháls, Bjarnarsonar reyðarsíðu. Þórgunna var vitur kona og meðallagi vinsæl, mjög margkunnandi, ekki fríð en forn í skapi, heldur harðlynd og þó örskiptamaður. Krumur var óríkur maður. Miseldri mikið var með þeim hjónum. Var Þórgunna þá roskin kona er þetta ævintýr gerðist. Þau áttu ekki barn svo að sögur gangi af.

3. kafli[breyta]

Styrkár hét maður Eindriðason Hreiðarssonar. Þeir voru bræður, Hreiðar og Ásbjörn, faðir Járnskeggja af Yrjum en systir þeirra var Ólöf er átti Klyppur hersir er drap Sigurð konung slefu. Þeirra bróðir var Erlingur, ríkur hersir af Hörðalandi.

Erlingur átti þann son er Ívar hét, allra manna vænstur þeirra er upp óxu á Hörðalandi. Því var hann kallaður Ívar ljómi. Hann var hverjum manni betur að íþróttum búinn, ofmetnaðarmaður svo mikill að nálega máttu öngir menn mæla né gera til jafna við hann. Hann var ókvæntur langa tíma og því, að honum þótti sér nær hvergi fullkosta. Hann sat löngum hjá Styrkári frænda sínum á Gimsum í Þrándheimi. Þessi Styrkár var faðir Einars þambaskelfis. Segja það og sumir menn að þeir hafi bræður verið, Eindriði faðir Styrkárs og Ásbjörn faðir Eindriða ilbreiðs. Ástúðigt var lengi með þeim frændum Styrkári og Ívari. Ívar hafðist löngum við í kaupferðum bæði til Englands og Danmerkur.

Eitt sumar fór hann til Íslands kaupferð. Hann kom skipi sínu í Gautavík í Austfjörðum. Þorkell Geitisson reið til skips og bauð stýrimanni heim til sín við svo marga menn sem hann vildi með sér haft hafa. Ívar þakkaði bónda og kveðst það þiggja mundu. Ívar fór heim í Krossavík við fimmta mann og sat þar um veturinn. Ívar var gleðimaður mikill og ör af fé.

Það var einn dag að Þorkell gekk til tals við Oddnýju systur sína og sagði henni að stýrimaðurinn var heim kominn.

„Vildi eg frændi,“ segir hann, „að þú þjónaðir honum í vetur því að hér eru flestir aðrir menn í starfi.“

Oddný reist rúnar á kefli því að hún mátti eigi mæla en Þorkell tók við og leit á.

Keflið sagði svo: „Ekki er mér um að leggja mig til þjónustu við stýrimann því að mér segir svo hugur um ef eg geri það að þjóna Ívari að þar muni mikið vont af standa.“

Þorkell reiddist fast er Oddný taldist undan en er hún sá það stóð hún upp og gekk inn og tók til þjónustu við Ívar og hélt því um veturinn. En er á leið sáu menn að Oddný mundi fara eigi kona ein saman og er Þorkell fann það spurði hann Oddnýju hversu háttað væri um hagi hennar eða hvort hún væri með barni eða hver það ætti með henni.

Oddný reist þá enn rúnar og sögðu þær svo: „Eigi hefir Ívar betur launað þér veturvistina en svo að barn það er eg geng með á hann við mér.“

Setti þá grát mikinn að Oddnýju en Þorkell gekk í burt.

Líður út veturinn og er vorar lætur Ívar búa skip sitt í Gautavík og er það var búið býst Ívar brott úr Krossavík og hans menn.

Þorkell ríður í veg með Ívari og er þeir höfðu riðið nokkura stund veik hann til við stýrimann: „Hvert ráð gerir þú Ívar fyrir barni því er þú átt við Oddnýju systur minni eða viltu gera vel og ganga að eiga hana? En eg mun gæða hana svo peningum að þú sért sæmdur af.“

Ívar brást við reiður mjög og svaraði: „Til ills erindis hefði eg farið þá til Íslands ef eg skyldi eiga systur þína mállausa. Hefir mér kostur verið æðri kvenna og kynstærri heima á Hörðalandi eða þó víðara í Noregi. En þú þarft eigi að kenna mér barn systur þinnar þó að hún eigi við þrælum þínum. Hefir þú talað við mig mikla svívirðing.“

Þorkell svarar: „Viljir þú eigi ganga við barni Oddnýjar og smá bæði mig og hana í orðum skaltu sjálfan þig fyrir finna. Hefi eg eigi þolað mönnum fyrr meir þvílíka smán.“

Ívar hjó þá til Þorkels. Það högg kom á fótinn og varð mikið sár. Þorkell brá þá sverði og hjó til Ívars en hann reið undan en höggið kom á hestfótinn svo að af tók. Stökk Ívar þá af baki og rann eftir félögum sínum en Þorkell reið heim í Krossavík.

Annan dag eftir safnar Þorkell mönnum og reið í Gautavík með þrjá tigu manna. En er hann kom þar hafði Ívar kippt bryggjum en vindur stóð af landi og sigldu svo til hafs og linnti eigi fyrr en hann kom til Noregs og fór svo heim á Hörðaland og settist um kyrrt.

Þorkell reið heim í Krossavík og undi lítt við sinn hag því að hann hafði eigi meiri smán fengið en þessa alla saman.

4. kafli[breyta]

Að miðju sumri eða litlu síðar fæddi Oddný barn. Það var sveinbarn svo mikið að menn þóttust ekki barn meira nýfætt séð hafa. Þorkatli var sagt að systir hans var léttari orðin að því barni er ætti við henni Ívar ljómi. En er Þorkell heyrði það varð hann æsilega reiður og sagði að út skyldi bera en það var þá lög í þann tíma að út skyldi bera óríkra manna börn ef vildi og þótti þó eigi vel gert. Þorkell lét kalla Freystein þræl og bað hann tortíma sveininum en hann taldist undan þar til er Þorkell sagði á reiði sína.

Þá var Geitir faðir Þorkels vistum með Þorkatli syni sínum. Hann talaði um að sveininn skyldi eigi út bera, sagði sér svo hug um segja að sá sveinn mundi ekki lítill fyrir sér verða ef hann næði lífi að halda.

Þorkell var svo æfur að hann vildi ekki á það heyra og kvað eigi annað skyldu en pilturinn væri út borinn.

Nú gekk Freysteinn, þó nauðigur færi, til Oddnýjar og tók upp sveininn og gekk út með og til skógar. Hann vafði piltinn í einum dúk og lagði flikkissneið í munninn. Hann gerði skjól undir viðarrótum og lét þar koma í barnið og bjó vel um og gekk svo frá, fór heim síðan og sagði bónda að hann hefði fyrir séð barninu. Bóndi lét vel yfir og var nú kyrrt um hríð.

5. kafli[breyta]

Bráðlega eftir þetta er það að segja að Krumur bóndi fór í skóg sinn að sækja við. Hann heyrði barnsgrát og fór þangað til og fann sveinbarn bæði mikið og vænlegt. Þar lá hjá flesksneið er hann þóttist vita að fallið mundi hafa úr munni barnsins og því mundi það æpt hafa. Spurt hafði Krumur að barn hafði verið út borið í Krossavík og hversu Þorkell hefði hart um mælt, þóttist vita að þetta sama mundi vera. En með því að þeir Þorkell voru miklir vinir og hins annars að hann sá að það var bæði glæpska og skaði að þar dæi svo mannlegt barn og líklegt til stórra afdrifa þá tók hann það upp og hafði heim með sér og gerði ekki orð á. Það var á fjórða dægri er barnið fannst frá því er það var út borið.

Krumur gaf nafn piltinum og kallaði Þorstein og sagði sinn son vera. Um þetta urðu þau Þórgunna samráða. Vex Þorsteinn nú þar upp og leggur Þórgunna við hann ástfóstur og kennir honum mart í fræðum. Þorsteinn gerðist bæði mikill og sterkur og viðleitinn um allar íþróttir. Hann var svo sterkur að þá er hann var sjö vetra gamall sambauð hann að afli rosknum mönnum þótt færir væru.

Það var einn dag sem oftar að Þorsteinn kom til Krossavíkur. Hann gekk til stofu. Þá sat Geitir faðir bónda á palli og þuldi í feld sinn. En er pilturinn kom í stofuna þá fór hann mjög geystur sem börnum er títt. Fellur hann á stofugólfinu og er Geitir sér þetta skellir hann upp og hlær. En er Oddný sér piltinn setur að henni grát mikinn.

Pilturinn gengur innar að Geiti og mælti: „Hvort þótti þér þetta allbroslegt er eg féll áðan?“

Geitir svarar: „Það er satt því að eg sá það er þú sást eigi.“

„Hvað var það?“ sagði Þorsteinn.

„Það má eg segja þér. Þá er þú komst í stofuna fylgdi þér einn hvítabjarnarhúnn og rann fyrir innar á gólfið. En er hann sá mig nam hann staðar en þú fórst heldur geystur og féllst þú um húninn og það er ætlan mín að þú sért eigi son Krums né Þórgunnar heldur muntu stærri ættar.“

Pilturinn settist niður hjá Geiti og skrumuðu þeir en er kveldaði sagðist Þorsteinn heim skyldu.

Geitir bað hann koma þar oft „því að mér þykir sem þú munir eiga hér kynni.“

En er pilturinn var út genginn kom Oddný þar og færði Þorsteini klæði nýskorin. Fór hann síðan heim. Vandi hann nú komur sínar til Krossavíkur. Þorkell gaf sér fátt að piltinum en þótti hann þó frágerðamaður að vexti og afli. Geitir sagði Þorkatli syni sínum að það væri hans ætlan að þessi Þorsteinn væri son Oddnýjar og Ívars ljóma og mundi verða mikill maður fyrir sér.

Þorkell kveðst eigi kunna að synja: „Skulum vér hér fá sannar fréttir af.“

Og um morguninn sendir Þorkell eftir Krum og Þórgunnu og Þorsteini og er þau komu spurði Þorkell glögglega að hversu Þorsteinn væri til kominn. En þau hjón sögðu allt hversu til komið var. Sagði Freysteinn og sína sögu og bar allt saman. Þótti Þorkatli nú vel um gengið og kunni Freysteini þakk fyrir.

Vaknar Þorsteinn nú við ætt sína og fór hann nú vistafari til Krossavíkur og gerir Þorkell við hann raunvel.

6. kafli[breyta]

Það er sagt eitt haust er menn skyldu á fjall ganga, beiddi Þorkell Þorstein frænda sinn að fara með þeim. Hann játtaði því. Hann var tíu vetra gamall þá. Freysteinn kveður hann til ferðar með sér. Þeir fara sem þeim liggja leiðir, finna mart fjár og er þeir fara heim á leið koma þeir í einn dal djúpan. Eru þá tveir saman, Þorsteinn og Freysteinn. Þá kveldaði mjög. Þeir sáu þar einn haug stóran.

„Hér ætla eg í nátt að vera,“ segir Þorsteinn, „og skaltu vaka í nátt Freysteinn og vekja mig eigi hversu sem eg læt í svefni því að þar þykir mér á liggja.“

Freysteinn játtaði því. Síðan sofnaði Þorsteinn og er á leið náttina lét hann illa í svefni því að hann braust um á hnakki og hæli. Því gekk allt til dags. Freysteinn efaðist í hvort hann skyldi vekja Þorstein eða eigi. Miklu voru hans læti erfiðlegri.

En er lýsti af degi vaknaði Þorsteinn og var þá sveittur mjög og mælti: „Dyggilega hefir þú enn vakað Freysteinn. Hefir þú nú gert þá tvo hluti að hvortveggi væri launa verður, í fyrstan tíma er þú fórst með mig, og nú. Skal eg nú því launa þér að eg skal fá fyrir þig frelsi af Þorkatli frænda mínum og hér eru tólf merkur silfurs að eg vil gefa þér. En nú vil eg segja þér draum minn. Mér þótti haugur sjá opnast og gekk þar út úr maður rauðklæddur. Hann var mikill maður vexti og ekki aðallega illilegur.“

Hann gekk að Þorsteini og heilsaði upp á hann. Þorsteinn tók honum vel og spurði hann að nafni eða hvar hann ætti heima.

Hann lést Brynjar heita og eiga heima í haugi þeim „er þú sérð standa hér í dalnum en veit eg hvað þú heitir og svo hvers kyns að þú ert og svo það að þú munt mikill maður verða fyrir þér eða viltu fara með mér og sjá híbýli mín?“

Þorsteinn játtaði því og stóð upp og tók öxi sína er Þorkell hafði gefið honum, ganga inn í hauginn. En er Þorsteinn kom þar sýndist honum þar vel fyrir búið. Hann sá þar til hægri handar sitja ellefu menn á bekk. Þeir voru allir rauðklæddir og heldur fálegir. Öðrumegin í hauginum sá hann sitja tólf menn. Þeir voru allir bláklæddir. Sá var þeirra mestur og mjög illilegur.

Brynjar laut að Þorsteini og mælti: „Sá er bróðir minn, hinn mikli maður, og erum við þó ekki skaplíkir. Hann heitir Oddur og vill flestum illt. Hann veitir mér þungar búsifjar en hann er því öllu sterkari en eg sem hann er meiri vöxtum en eg hefi orðið að játta því og mínir menn að fá honum hverja nátt mörk gulls eða tvær merkur silfurs eða einnhvern grip jafnan þessu. Hefir nú svo fram farið hinn næsta mánuð og gerumst vér nú farnir að lausafé. Oddur hefir að varðveita gull það er sú náttúra fylgir að hver maður sem mállaus er og leggur það undir tungurætur sér, þá tekur þegar mál sitt og af því gulli má móðir þín mál fá en Oddur geymir það svo ríkt að það gengur aldrei af honum hvorki nátt né dag.“

Nú sest Brynjar niður hjá sínum kumpánum en Þorsteinn situr þeirra ystur. En er þeir hafa setið um hríð stóð Brynjar upp og gekk yfir að Oddi bróður sínum og afhenti honum einn hring digran. Oddur tók við þegjandi en Brynjar gekk aftur til sætis síns. Svo stóð upp hver að öðrum og færðu Oddi allir nokkurn grip en hann gaf öngum þökk í móti.

En er þeir höfðu þetta allir gert þá mælti Brynjar: „Það mun þér ráð Þorsteinn að gera sem aðrir og færa Oddi nokkuð gjald. Eigi mun annað duga með því að þú situr á vorn bekk.“

Oddur var yggldur mjög og sat upp mjög gnæpur og heldur ófrýnlegur. Þorsteinn stóð þá upp og hélt á öxi sinni.

Hann gekk yfir að Oddi og mælti: „Ekki er eg plaggamargur til Oddur að lúka þér gjald þetta. Muntu og ekki mikilþægur að við mig því að eg er óríkur.“

Oddur ansaði og heldur stutt: „Ekki er mér um komu þína hingað en muntu eigi frammi láta það er þér líkar?“

„Eg hefi ekki til nema öxi mína ef þú vilt hana taka.“

Oddur rétti höndina í móti en Þorsteinn höggur til hans. Kemur það á höndina fyrir ofan ölnboga og tekur af. Oddur sprettur þá upp og allir þeir er í hauginum voru. Vopn þeirra héngu uppi yfir þeim. Grípa þeir þau. Slær nú með þeim í bardaga. Það sér Þorsteinn að nú er ekki fjarri um með þeim Þorsteini og Oddi er Oddur var einhentur. Allir lítast honum hinir bláklæddu menn harðfengari. Það sér hann og þó að þeir höggist af hendur eða fætur eða særist öðrum stórsárum þá eru þeir á annarri stundu heilir. En það er Þorsteinn hjó þá var það eftir eðli. Eigi linnti Þorsteinn fyrr og þeir bræður allir saman en Oddur var drepinn og þeir allir kumpánar. Þorsteinn var þá mjög móður en ekki sár því að Brynjar og hans félagar höfðu hlíft Þorsteini við höggum öllum. Brynjar tók nú gullið af Oddi dauðum og fékk Þorsteini og bað hann færa móður sinni.

Hann gaf honum tólf merkur silfurs í sjóði og mælti: „Mikið frelsi hefir þú unnið mér Þorsteinn því að nú ræð eg hér haugi og eignum. Mun þetta upphaf þinna þrekvirkja er þú munt vinna utanlendis. Þú munt og taka siðaskipti og er sá siður miklu betri þeim sem hann mega hljóta en hinum erfiðara um sem eigi eru til þess skapaðir og slíkir eru sem eg því að við bræður vorum jarðbúar. Nú þætti mér miklu máli skipta að þú kæmir nafni mínu undir skírn ef þér yrði það auðið að eiga son.“

„Síðan leiddi hann mig út úr hauginum og áður við skildum mælti hann: „Ef mín orð mega nokkuð þá snúist þér þín verk öll til heiðurs og hamingju.“ Eftir það sneri Brynjar inn í hauginn en eg vaknaði og það til marks um að hér er nú bæði hjá mér sjóðurinn og gullið.“

Síðan fóru þeir og ráku heim fénað þann er þeir höfðu fundið og heimtu menn vel. Sagði Þorsteinn þenna atburð allan og færði móður sinni gullið og tók hún þegar mál sitt er það kom undir tungurætur henni. Stendur þessi haugur í Jökulsdal og er kallaður Brynjarshaugur og sér enn í dag merki.

7. kafli[breyta]

Freysteinn fékk frelsi brátt af orðum Þorsteins og gerði Þorkell það vel og liðuglega því að honum var vel í geði til Freysteins því að hann vissi að hann var góðrar ættar og göfgra manna fram í kyn. Grímkell faðir Freysteins bjó á Vors og átti Ólöfu Brunnólfsdóttur, Þorgeirssonar, Vestarssonar. En Sokki víkingur brenndi inni Grímkel föður hans en tók piltinn og seldi mansali. Hafði Geitir hann út hingað.

Það segja sumir menn að Þorsteinn gifti Freysteini Oddnýju móður sína. Freysteinn hinn fagri bjó í Sandvík á Barðsnesi og átti Viðfjörð og Hellisfjörð og var kallaður landnámsmaður. Frá honum eru komnir Sandvíkingar og Viðfirðingar og Hellisfirðingar.

8. kafli[breyta]

Ásbjörn kastanrassi átti skip uppi standanda í Gautavík. Þar tók Þorsteinn sér fari með honum. Þá var hann tólf vetra gamall. Þorkell fékk honum fararefni svo að honum nægði og áður Þorsteinn reið til skips töluðust þau við og móðir hans.

Hún mælti: „Nú muntu frændi finna föður þinn, Ívar ljóma, og ef hann gengur seint við faðerni þínu þá er hér einn hringur er þú skalt færa honum og seg honum að þenna hring gaf hann mér í fyrsta sinni og má hann þá eigi dyljast við.“

Síðan skildu þau mæðgin og reið Þorsteinn til skips og fór utan um sumarið. Komu þeir norðarlega við Noreg um haustið. Fór Þorsteinn vistafari til Styrkárs á Gimsar og var þar um veturinn. Féll vel á með þeim Styrkári því að hann sá að Þorsteinn var hinn mesti atgervimaður því að hann jafnvægði þá hinum sterkustum mönnum í öllum leikum.

Um veturinn nokkuru fyrir jól komu þar sendimenn Ívars ljóma þess erindis að Ívar hafði boðið honum Styrkári til jólaveislu. Sá hét Björn er fyrir þeim var. Styrkár hét ferðinni og fór með þrjá tigu manna. Þar var Þorsteinn í ferð. Þeir koma til veislunnar. Var Styrkári þar vel fagnað. Sat hann hið næsta Ívari um veisluna.

Fór veislan vel fram og affaradag veislunnar áður menn skyldu burt fara gekk Þorsteinn fyrir Ívar og mælti: „Það er erindi mitt við þig Ívar að vita hvort þú vilt nokkuð ganga við faðerni að mér.“

Ívar svarar: „Hvert er nafn þitt eða hvaðan ertu að kominn?“

„Þorsteinn er nafn mitt. Oddný heitir móðir mín og er Geitisdóttir út á Íslandi og hér er hringur er hún bað mig færa þér til jarteigna og kvað að þú mundir kenna að þú hafðir gefið henni.“

Ívar roðnaði fast og mælti: „Þú munt eiga allt verra faðerni. Eru nógir þrælar út á Íslandi til þess að móðir þín kenni þig. Er það og mála sannast að mér þætti eiga að leiða drengjum og herjanssonum það að hver pútuson kallaði mig föður að sér.“

Þorsteinn reiddist þá ákaflega mjög og stillti þó vel orðum og sagði: „Illa hefir þú svarað og ódrengilega en svo kem eg annað sinn að þú gengur við mér ellegar er það bani þinn.“

Þorsteinn snýr þá í brottu.

Ívar talaði til Styrkárs: „Það vildi eg frændi að þú banaðir fóli þessu því að mér þykir einskis ills örvænt fyrir hann.“

„Eigi vil eg það,“ segir Styrkár, „því að eg ætla hann hafa réttara að mæla en þú því að eg hygg að hann sé kynstórra manna.“

Skildu þeir Ívar og Styrkár þá í styttingi. Fór Styrkár heim á Gimsar og Þorsteinn með honum. Styrkár átti sér systur er Herdís hét, kvenna vænst. Góður þokki var á með þeim Þorsteini. Þar var hann tvo vetur. Þá fór Þorsteinn út til Íslands og heim til Krossavíkur og hafði mikið framist í utanferð sinni. Og er hann hafði verið þrjá vetur á Íslandi fór hann utan með Kolbirni sneypi til Noregs. Fór hann þá enn til Styrkárs á Gimsar og tók hann við honum fegins hendi.

9. kafli[breyta]

Glögglega er það sagt að þetta sumar yrði höfðingjaskipti í Noregi, félli frá Hákon blótjarl en í staðinn kom Ólafur Tryggvason. Hann boðaði öllum mönnum rétta trú.

Það kom fyrir Ólaf konung að flögð lægju á Heiðarskóg svo að þar tæki af vega alla. Konungur skýtur á húsþingi og spyr hverjir fara vilja að frjálsa Heiðarskóg.

Maður stóð upp, mikill og vörpulegur, er Brynjúlfur hét, lendur maður í Þrándheimi, og mælti: „Eg vil fara herra ef þér viljið.“

Konungi kveðst það vel líka.

Bjóst Brynjúlfur þá við sex tigu manna. Þorkell hét maður. Þangað ríða þeir Brynjúlfur til gistingar. Tók Þorkell við þeim vel. Voru þeir þar um nóttina en um morguninn fylgdi hann þeim í veg og kvað það skaða mikinn er konungur skyldi eigi slíkra manna lengi njóta mega.

Síðan riðu þeir veg sinn og allt þar til er þeir sáu standa skála mikinn. Þaðan sáu þeir hlaupa þrjár tröllkonur, tvær unglegar og ein stærst. Hún var loðin öll utan sem grábjörn. Þær höfðu allar sverð í höndum. Þeir sáu og ganga mikinn mann, ef mann skyldi kalla, og tvo pilta með honum. Hann hafði brugðið sverð í hendi. Það var svo bjart að sindra þótti af. Öll voru tröllin illileg að sjá. Þar slær þegar í bardaga. Varð hinn mikli maður mjög stórhöggur og svo hin loðna skessa. Lýkur með því að þar fellur Brynjúlfur og allt hans föruneyti nema fjórir menn komust á skóg og fóru síðan á fund konungs og sögðu honum þessi tíðindi og spurðist þetta víða.

10. kafli[breyta]

Það er að segja að Styrkár talaði við Þorstein og spurði hvort hann vildi fara með honum á Heiðarskóg. Þorsteinn lést búinn þeirrar ferðar. Bjuggust þeir einn morgun snemma og fóru á skíðum upp á fjall og linntu eigi fyrr en þeir komu að kveldi dags til eins sæluhúss og ætla þar að vera um nóttina. Skiptu þeir þá verkum. Skyldi Þorsteinn vatn sækja en Styrkár eld kveikja.

Þorsteinn gengur þá út og tók upp spjót er Styrkár hafði gefið honum og vatnsfötur í aðra hönd og er hann kemur mjög til vatnsins sá hann stúlku ganga með vatnsfötur. Hún var ekki foraðs há en ógnar digur og er hún sér Þorstein kastar hún niður fötunum og bregður við hart og hleypur aftur á veg. Þorsteinn lætur og eftir sínar vatnsfötur og hleypur eftir. En er stúlkan sér það rykkir hún hart undan. Hleypur þá hvort sem getur og dregur þá hvorki sundur né saman með þeim. Gengur þessu þar til er Þorsteinn sér skála standa mjög stóran og rammgervan. Þar hleypur þessi stúlka inn í og skellir aftur hurðu. En er Þorsteinn sér það skýtur hann eftir henni spjótinu og kemur í skálahurðina og flýgur í gegnum hurðina.

Þorsteinn gengur þá að skálanum og inn í, finnur spjót sitt á gólfinu en ekki sér hann til stúlku sinnar. Honum verður gengið innan um skálann og þar til er hann kemur að einni lokrekkju. Þar brann ljós á kertistiku. Þorsteinn sér að kona liggur í sænginni, ef konu skyldi kalla. Hún var bæði há og digur og að öllu tröllsleg. Hún var stórskorin mjög í andliti en álits bæði svört og blá. Hún lá í einum silkiserk. Hann var því líkastur sem hann væri þveginn í mannablóði. Flagðið var þá í svefni og hraut ógurlega hátt. Skjöldur og sverð hékk uppi yfir henni. Þorsteinn steig upp á rekkjustokkinn og tók ofan sverðið og brá. Hann fletti þá klæðum af flagðinu. Sá hann þá að hún var öll alloðin nema einn díli undir hinni vinstri hendi sá hann að snöggur var. Það þóttist hann vita að annaðhvort mundi hana þar járn bíta eða hvergi annarstaðar. Hann leggur sverðinu á þessum sama flekk og fellur á hjöltin. Sverðið bítur svo að oddurinn stóð í dýnunni. Kerling vaknaði þá og eigi við góðan draum og fálmaði höndunum og spratt upp. Þorsteinn hefir allan einn rykkinn að hann slökkvir ljósið og stökkur upp yfir flagðið í sængina en hún hleypur fram á gólfið og ætlar að vegandinn muni til dyranna leitað hafa en er hún kemur þar sæfist hún á sverðinu og deyr.

Þorsteinn gengur þá að henni og kippir burt brandinum og hefir með sér. Hann gengur þá þar til er hann kemur að hurðu. Hún var greypt í stokk og hnigin eigi allt í klofa. Hann sá mikinn mann á palli sitja og mjög stórskorinn og héngu yfir honum öll herklæði. Á aðra hönd honum sat mikil skessa og illileg og ekki alleldileg. Piltar tveir léku á gólfinu. Þeim var sprottið hár úr kolli.

Skessan tók til orða: „Hvort syfjar þig Járnskjöldur faðir?“

„Eigi er Skjalddís dóttir. Liggja á mér hugir stórra manna.“

Hann nefndi þá piltana, annan Hák en annan Haka, og bað þá fram ganga til Skjaldvarar móður sinnar og vita hvort hún vekti eða svæfi.

Skjalddís svaraði: „Óráðlegt er faðir að senda ungmenni í myrkri því að eg vil segja þér að eg sá í kveld hlaupa tvo menn ofan af fjalli. Þeir eru svo fóthvatir að eg hygg að það sé fátt af vorum mönnum að þeim standist.“

„Eigi þykir mér á því liggja,“ segir Járnskjöldur, „því að þá eina menn sendir konungur hingað að eg óttast þá ekki því að það er einn maður að eg hræðist en sá heitir Þorsteinn og er Oddnýjarson utan af Íslandi en svo er sem mér hangi blað fyrir auga um öll mín forlög hvað sem því veldur.“

„Ólíklegt er það faðir,“ segir hún, „að sá Þorsteinn komi nokkurn tíma á Heiðarskóg.“

Piltarnir gengu nú fram en Þorsteinn veik sér frá. Þeir hlaupa fram og út.

En er nokkur stund var liðin tók Skjalddís til orða: „Fram fýsir mig að ganga.“

Nú hleypur hún fram á hurðina hart og heimslega. Þorsteinn snýr þá undan en er hún kemur að útidyrum þá fellur hún um móður sína dauða. Henni verður þá kalt og kynlegt við. Hún hleypur þá út úr skálanum. Í því kemur Þorsteinn að og höggur af henni höndina með sverðinu Skjaldvararnaut. Hún vill þá inn aftur í skálann en Þorsteinn ver henni dyrnar. Hún hafði skálm í hendi. Þau sækjast um hríð en svo lýkur með þeim að Skjalddís fellur dauð. Í því kom Járnskjöldur út. Hann hafði brugðið sverðið í hendi, bæði bjart og biturlegt, svo að Þorsteinn þóttist ekki slíkt séð hafa. Hann höggur þegar til Þorsteins. Hann veik sér við höggið og varð þó sár á læri. Sverðið renndi niður í völlinn allt upp að hjöltum. Laut Járnskjöldur þá við en Þorsteinn reiddi upp sverðið Skjaldvararnaut bæði hart og títt og höggur til Járnskjaldar. Það högg kom á öxlina, tók af höndina og fótinn. Féll Járnskjöldur þá við. Þorsteinn lætur þá skammt stórra höggva í milli og höggur þá af honum höfuðið.

Eftir það gengur Þorsteinn inn í skálann en er hann gengur inn varð hann eigi fyrr var við en hann var gripinn upp og færður niður. Þorsteinn finnur þá að þar var komin Skjaldvör kerling og var þá sýnu verri viðureignar en fyrr. Hún greyfðist þá niður að Þorsteini og ætlar að bíta sundur í honum barkann. Þorsteini kemur þá í hug að sá mun mikill vera er skapað hefir himin og jörð. Hafði hann og heyrt margar sögur og merkilegar frá Ólafi konungi og þeirri trú er hann boðaði, heitir nú af hreinu hjarta og heilum hug að taka við þeirri trú og þjóna Ólafi meðan hann lifði, ef hann kæmist heill og lífs í brott, af allri kunnáttu. Og er hún ætlaði tönnum að víkja að barka Þorsteins en hann hafði staðfest heitið kemur geisli inn í skálann ógurlega bjartur og stendur þvert framan í augun kerlingar. Við þá sýn varð henni svo illt að dró úr henni mátt og magn allt. Hún tók þá að geispa niðörklega. Hleypur þá úr henni spýja og ofan í andlit Þorsteini svo að nálega hélt honum við bana af illsku og óþef þeim er af stóð. Þykir mönnum og eigi örvænt að í brjóst Þorsteini muni af komið hafa nokkur partur sakir þess að mönnum þykir sem hann hafi eigi síðan dygglega einhamur verið hvort er því veldur meir spýja Skjaldvarar eða það að hann var út borinn. Liggur nú hvorttveggja þeirra í milli heims og heljar svo að þá mátti hvorki upp standa.

11. kafli[breyta]

Hitt er að segja að Styrkár er nú í sæluhúsinu og þykir Þorsteini dveljast. Kastar hann sér þá upp í setið og er hann hafði legið nokkura stund hlaupa þar inn piltar tveir mjög illsviplegir og hafði sitt sax hvor í hendi, sækja þegar að Styrkári en hann grípur frá stokkinn frá setinu og lemur þá með þar til er hann drepur þá báða.

Síðan gengur hann út úr skálanum, grunar þá hvað Þorstein mun dvelja, gengur nú þar til er hann kemur að skálanum, sér nú vegsummerki að þar liggja tvö flögð drepin en Þorstein sér hann hvergi, þykir nú ugglegt að hann muni í nokkurum nauðum staddur vera, heitir nú á skapara himins og jarðar að taka við þeirri trú sem Ólafur konungur boðar ef hann fyndi á þeirri nátt Þorstein félaga sinn lífs og heilan, gengur síðan inn í skálann og kemur þar að sem þau Skjaldvör og Þorsteinn liggja, spyr þá hvort Þorsteinn megi nokkuð mæla. En hann segir það eigi trauða, biður hann hjálpa þá til. Styrkár tekur þá til Skjaldvarar og dregur hana af ofan. Þorsteinn stendur upp brátt og er stirðnaður mjög af öllu saman, umfangi því er hann hafði átt við flögðin og faðmlögum Skjaldvarar. Brjóta þeir þá Skjaldvör kerlingu á háls og gekk þeim það hið treglegasta því að hún var harðla hálsdigur. Segir Þorsteinn nú Styrkári allt frá ferðum sínum.

Styrkár ansaði: „Mikill afreksmaður ertu svo að það er líkast að þessa þinna afreksverka sé getið meðan Norðurlönd eru byggð.“

Taka þeir nú og draga saman öll flögðin og kynda að bál og brenna upp að köldum kolum. Síðan kanna þeir skálann og finna þeir ekki fémætt, fara í burt síðan og heim á Gimsar. Spyrjast nú þessi tíðindi og þykja mikil vera.

12. kafli[breyta]

Ólafur konungur sat á veislu á Hörðalandi. Þangað fara þeir Styrkár og Þorsteinn og ganga fyrir konung og kveðja hann. Þar var Ívar ljómi þá með konungi í svo mikilli virðingu að tveir menn sátu þá upp í milli þeirra konungs.

Þorsteinn snýr þá fyrir Ívar með brugðið sverðið Skjaldvararnaut og stakk blóðreflinum fyrir brjóst honum og mælti: „Ger þú annaðhvort að eg þrýsti ótæpt blóðreflinum ella gakk þú við faðerni að mér.“

Ívar svarar: „Mér þykir sæmd í að eiga þig að syni. Áttu og svo góða móður að eg veit að hún mundi það eigi sagt hafa nema satt væri. Vil eg að vísu við þér ganga.“

Konungur telur þá trú fyrir þeim sem öllum öðrum er á hans fund komu. Þeir létu það auðsótt af sinni hendi, segja þá konungi glögglega allan atburð sinnar þarkomu og frá þeim tíðindum er gerðust á Heiðarskógi. Konungur geldur þá margfalt lof guði fyrir þær jarteignir er hann veitti syndugum mönnum hér í heimi. Voru þeir síðan skírðir báðir. Fór Styrkár heim á Gimsar og hélt öllum þeim veislum er hann hafði fyrr haft en Þorsteinn gerðist maður Ólafs konungs og fylgdi honum til dauðadags og Ívar faðir hans og þóttu vera hinir vöskustu menn.

13. kafli[breyta]

Hárekur hét maður. Hann bjó á Reinu í Þrándheimi, lendur maður og ekki mjög vinsæll. Hann hafði tekið við kristni en þó var konungi sagt að eftir mundi nokkuð af fyrnsku í fari hans. Því tók konungur þar veislu og vildi reyna hvað satt var í. Þar var veisla fögur. Hárekur var öfundsamur og illgjarn. Honum lék öfund á virðingu Þorsteins.

Það var einn dag að Hárekur talaði við Þorstein og spurði hann af sínum afreksverkum en Þorsteinn sagði slíkt er hann spurði.

„Ætlar þú nokkurn mann sterkara í Noregi en þig?“ segir Hárekur.

„Eigi veit eg það svo víst,“ segir Þorsteinn.

„Hvor ykkar konungs ætlar þú að sterkari sé?“ segir Hárekur.

„Allt mun mig annað meira skorta við konung en afl,“ segir Þorsteinn, „og mun eg þó eigi komast til jafns við hann um það.“

Þeir skilja nú tal sitt.

Og um daginn eftir sagði Hárekur konungi að Þorsteinn hefði jafnast til við hann um allar íþróttir. Konungur gaf sér fátt um það.

Nokkuru síðar talaði konungur um að þeim væri það ráð er til hefðu jafnast við hann að reyna þá íþróttir sínar „eða er það satt Þorsteinn að þú hefir það talað að þú værir jafn mér að íþróttum eða framar?“

„Eigi hefi eg svo talað herra,“ segir Þorsteinn, „eða hver sagði yður það?“

„Hárekur,“ sagði konungur.

„Hví sagði hann yður síður af blótnauti því er hann blótar á laun því að það mun þó sannara? En það sagði eg herra að mig mundi allt meira skorta við yður en afl og mundi eg þó eigi komast til jafns við yður um það.“

„Er nokkuð það satt Hárekur?“ sagði konungur.

„Lítið mun þar til haft herra,“ segir Hárekur.

„Lát oss sjá naut það er þú hefir svo mikil mæti á,“ segir konungur.

„Það skal í yðru valdi herra,“ segir Hárekur, „og skulum vér þá fara fram á skóginn.“

Þeir gerðu svo og er þeir koma þar sjá þeir nautaflokk mikinn. Þar var með uxi ógurlega stór og illilegur svo að konungur þóttist slíkan ósénan hafa. Hann öskraði ógurlega og lét mjög illilega.

Hárekur mælti: „Hér er nú nautið herra og hefi eg því mætur á uxa þessum að hann er mjög elskur að mér.“

„Sé eg víst,“ sagði konungur, „og líst mér illa á eða hvað er nú Þorsteinn? Viltu reyna afl þitt og taka naut þetta því að mér þykir sem eigi muni gagn í að hann lifi lengur?“

Þorsteinn hleypur þá fram í nautaflokkinn og þar að sem uxinn var. Nautið snýr undan en Þorsteinn grípur í fótinn hinn eftra og svo hart að bæði rifnaði húð og hold svo að fóturinn gekk af með öllu þjóinu og hélt á eftir og gekk svo fyrir konung en blótnautið datt niður dautt. En svo hafði nautið við spyrnt rammlega að það var sokkið hinum fyrrum fótum niður í jörðina upp að knjám.

Konungur mælti þá: „Sterkur maður ertu Þorsteinn og ekki mun þér aflafátt verða ef þú átt við mennska menn um. Mun eg nú auka nafn þitt og kalla þig Þorstein uxafót og hér er einn hringur að eg vil gefa þér að nafnfesti.“

Þorsteinn tók við hringnum og þakkaði konungi því að það var góður gripur. Konungur fór nú heim á bæinn og kastaði sinni eigu þar á allt en rak Hárek úr landi fyrir óhlýðni sína og blótskap.

14. kafli[breyta]

Innan lítils tíma spurðist enn af Heiðarskógi að þar lágu flögð á svo að menn máttu þar eigi fram komast. Styrkár sendi þá orð Þorsteini að þeir skyldu enn fara á Heiðarskóg. Þorsteinn brá við skjótt og fór með konungs lofi og hitti Styrkár, fara nú tveir samt og koma í það sæluhús sem þeir voru fyrr og voru þar um nóttina.

Um daginn eftir er þeir voru úti staddir sáu þeir þrettán menn á skóginum og var eitt kona í. Þeir snúa þangað til. Þorsteinn kennir þar stúlku sína og hafði heldur vaxið því að hún var nú hið mesta flagð.

Hún kastaði orðum á Þorstein og mælti: „Þar ertu kominn Þorsteinn uxafótur og komstu hér svo næst að eg mátti minni til reka, drapst föður minn, móður og systur en Styrkár bræður mína tvo en þú eltir mig. Varð eg hrædd mjög sem eigi var ólíklegt um níu vetra gamla meystúlku en nú er eg tólf vetra. Eg fór í jarðhús eitt er við skildum en meðan þið börðust, þið faðir minn, tíndi eg saman alla góðgripi þá er í skálanum voru niður í jarðhúsið undir sæng móður minnar. Nokkuru síðar giftist eg þessum manni, Skelkingi, og skildi eg það til við hann að hann skyldi drepa hvorntveggja ykkarn Styrkárs. Nú er hann hér kominn og bræður hans ellefu og muntu nú þurfa að sýna karlmannlega vörn ef duga skal.“

Slær nú síðan í bardaga með þeim. Sækir Skjaldgerður þar að er Þorsteinn var fyrir, svo hart að Þorsteinn þykist varla í meiri raun komið hafa en svo lýkur þó með þeim að Þorsteinn kemur á Skjaldgerði höggi fyrir ofan mjaðmirnar með sverðinu Skjaldvararnaut og tekur í sundur í miðju. Þá hafði Styrkár drepið Skelking. Vinna þeir nú skjótt um við hina ellefu og drepa þá alla. Síðan fara þeir í skálann, brjóta upp jarðhúsið og bera þaðan í brott marga góðgripi, fóru síðan heim á Gimsar og skiptu fé með sér síðan.

Bað Þorsteinn þá Herdísar systur Styrkárs og fékk hennar. Segja menn og að þau ættu son er Brynjar hét. Fór Þorsteinn nú til Ólafs konungs og var með honum síðan og féll á Orminum langa.