Blaðsíða:Æfisaga Jóns Ólafssonar.djvu/41

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

9

hvers eg neytti til hálfs, er hann sendi með henni til minnar móður; síðan þar eftir fjekk eg góða heilbrigði og viðgang.

Þá eg var 5 ára gamall var eg því nær í bæjarlæknum á Svarthamri í minni sjálfs vöggu druknaður, sem vera átti skipsmynd, hefði ei mína sálugu móður svo skjótt að borið. Item í öðru sinni, þá eg var átta vetra gamall, er eg á einum laugardegi um sumarið var með Halldóri bróður mínum riðinn í veiðiár fram i fjörð, lá mjer við að drukna á þeirri stóru Fjarðará, er svo kallast, en bróðir minn Halldór kom mjer með Guði til hjálpar. Í þriðja sinni á sama ári, er eg var sendur inn yfir ósa eftir mönnum í kaupstaðarferð, lá mjer við í Seljalandsós af hesti að flotna, er um flæði og framarlega að sjónum á sund með mig hljóp. Ráðning fjekk eg í hvert sinn hjer fyrir, svo sem verðugt var. Min elsku móðir bar stóran kvíða fyrir mjer, við vatnsföllum allra helst, og mælti hún það og margir, að mjer mundi auðnast yfir vötn að ferðast, en Guð bað hún mig jafnan annast, hverja hennar jafnlega bæn að Guð miskunsamur faðir hefur heyrt, og náðarsamlega bænheyrt. Sje hans heilaga nafn lofað og blessað að eilífu! Amen.

Anno 1615, á mínu 22. ári, lá mjer við úr Dvergasteinshlíð um veturinn mjer til heljar að hrapa, svo eg fjekk yfir 40 köst, og kom eg jafnan niður á bakið. Ei fjekk mín móðir það að vita, en minn mágur Skeggi Gunnlaugsson, var i þann tíma úti staddur er svo við bar, og vissi ei hvað til ráða skyldi, og ei meinti hann mig aftur lifandi líta. Svo bar til um vorið fyrir, að móðir min elskuleg og eg höfðum flutt vist vora frá Eyrardal og til Dvergasteins til Skeggja og Þóru frá Halldóri, og voru því sauðir þar ókendir, og urðu stansa undir skorum og náðust ekki allan veturinn, og liðu sult mikinn, en oft til reyndi óvitandi minni móður og í hennar þrásamlegu forboði. Og í þetta sinn er nú greindist, brast broddur í staf mínum nærri miðhlíðis, og síðan varpaðist eg ofan að urðum, og í hverju kasti horfði eg til himins; og nær köstum hætti, fyrir Guðs náð og vilja, var þá ei lengra til urðar en tveir eður þrír faðmar. Svo er Guði alt hægt og mögulegt að verka og