Blaðsíða:Þúsund og ein nótt (bindi 2).pdf/10

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið villulesin


til allra þeirra, er á Móhamet trúðu. Hann var líkur konungum þeim, er skáldin hafa lýst: „Hann hafði lagvopn sín fyrir penna, hjörtu fjandmanna fyrir pappír og blóð þeirra fyrir blek, — og fyrir þá sök hygg ég að forfeður vorir hafi kallað lagvopn: Kattijeh.“ Þeir kalífinn og Móhammed konungur voru bræðrungar. Hafði Móhammed eigi þótt ráðlegt að trúa einum vezír fyrir stjórn landa sinna, og hafði hann því kosið sér tvo vezíra; þeir hétu Kakan og Sawy.

Kakan var ljúfmenni, greiðvikinn, ör af fé og réttlátur; hafði hann yndi af að gera hverjum manni að skapi, sem hann átti nokkur viðskipti við, að því leyti sem honum var unnt, en varaðist þó um leið að halla réttvísinni, er hann var settur til að gæta. Enda var enginn sá, hvorki í hirð konungs, borginni Balsora né í öllu ríkinu, sem ekki lofaði hann og héldi orðstír hans á loft. Öðru máli var að gegna um skapferli Sawys; hann var jafnan önugur og hratt öllum frá sér, hvort sem þeir voru tignir eða ótignir. Fór því fjarri, að hann verði fé sínu sæmilega, heldur var hann mesti svíðingur og synjaði sjálfum sér hinna nauðsynlegustu hluta. Hann var hverjum manni hvimleiður, og aldrei heyrðist hans getið nema að illu einu. Gerðist hann enn óvinsælli fyrir fæð þá, er hann lagði á Kakan, því hann færði allar gerðir þessa veglynda ráðgjafa á verra veg og reyndi þannig án afláts að gera hann tortryggilegan í augum konungs.

Það var einhvern dag eftir ráðstefnu, að konungurinn í Balsora var að tala við báða vezírana og fleiri úr ríkisráðinu. Ræddu þeir um konur þær, er keyptar eru sem ambáttir og njóta því nær sömu virðingar á með vor sem lögmætar konur. Héldu sumir þeirri skoðun fram, að það nægði, ef slíkar ambáttir væru fríðar og vel vaxnar, svo þær gætu verið þeim til hugbótar, er annaðhvort fyrir frændsemi sakir eða annarra hluta vegna neyðast til að eiga konur, sem ekki eru allténd sérlega friðar eða öðrum líkamlegum kostum búnar.

Aftur voru aðrir, og í þeirra tölu var Kakan, er mótmæltu þessari skoðun og sögðu, að það væri ekki fegurðin ein og líkamlegir kostir, er heimta skyldi af þesskonar ambátt, heldur ætti hún að vera andrík, hyggin, kurteis og látprúð og kunna margskonar fræði og fagrar listir, svo sem unnt væri. Færðu þeir það til síns máls, að ekkert væri þeim mönnum inndælla, sem hafa áríðandi störf á hendi, en að koma heim til skemmtilegrar lagskonu eftir dagsverk sín og hafa bæði gagn og gaman af viðtali hennar í góðu tómi. Því menn gerðu sig jafna dýrum, ef ambáttin ekki væri höfð til annars en augnagamans og til að svala fýsn þeirri, er sameiginleg er mönnum

2