Blaðsíða:Þúsund og ein nótt (bindi 2).pdf/11

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið villulesin


og dýrum. Þessu varð og konungurinn samdóma, og skipaði hann Kakan vezír sínum að kaupa handa sér ambátt afbragðs friða og gædda öllum hinum áðurnefndu kostum, en það var einkum tekið fram, að hún

vera vel menntuð. Öfundaði Sawy vezírinn af sæmd þeirri, er honum var sýnd með þessu. og með því að hann var á gagnstæðu máli, segir hann: „Yðar hátign! Slíka ambátt mun erfitt að finna. en þó það tækist, sem mér er til efs, þá mætti það heita sanngjarnt, þó tíu þúsund gullpeningar væru goldnir fyrir hana.“ „Yður vex þetta í augum, Sawyl“ mælti konungur, „enda kann það að vera mikið fyrir yður, en það er ekki mikið fyrir mig.“ Skipaði hann þá undir eins yfirgjaldkyra sínum að fá vezírnum Kakan tíu þúsund gullpeninga til að greiða kostnað þenna. Undir eins og Kakan var kominn heim til sín, gerði hann boð eftir öllum þeim verzlunarmiðlum, er fengust við að selja ambáttir, og beiddi þá að láta sig vita, ef þeir hittu ambátt, er væri lík því, sem hann lýsti fyrir þeim. Lögðu þeir léttan á að útvega slíka ambátt, bæði vezírsins vegna og svo { ábata skyni og var því nær á hverjum degi einhver leidd á hans fund; en hann sá allténd einhvern galla á þeim. Það var einhvern morgun, er Kakan ætlaði til konungshallarinnar, að mansalsmiðill einn kom með miklum asa og sagði honum, að seint um kvöldið áður hefði persneskur kaupmaður komið og haft ambátt á boðstólum; væri hún svo fögur, að hún bæri langt af þeim, er hann áður hafði séð, En hvað gáfur hennar og kunnáttu snerti, þá kvað hann seljandann ábyrgjast, að hún stæði jafnfætis öllum snillingum og fræðimönnum í heimi. Brá Kakan vel við þessi tíðindi, því honum þótti líklegt, að sér mundi nú bjóðast tækifæri til að gera konungi að skapi, og bað hann því, að ambáttin mætti verða leidd til sín, þegar hann kæmi aftur frá höllinni; fór hann síðan leiðar sinnar. Sveikst mansalsmiðillinn ekki um að koma til vezírsins á tilteknum tíma með ambáttina; leizt vezírnum hún svo fögur og þótti hún vera svo langt um fram von sína, að hann kallaði hana undir eins „Persameyna fögru“. Sköpulag hennar var gullfallegt; hún hafði svört augnahár, brjóst hennar voru mikil og sælleg, mittið mjótt, en mjaðmirnar ávalar. Limar pílviðanna í Austurheimi máttu fyrirverða sig fyrir vaxtarlag hennar, og rödd hennar var þýðari en vestanblærinn, þegar hann líður yfir blómgaðan rósareit. Hefur skáld eitt lýst henni með svofelldum orðum:

Mjúkt er hennar hörund ljósa,
hjalar sætum rómi man;
3