Blaðsíða:Þúsund og ein nótt (bindi 2).pdf/12

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið villulesin


sín kann orðin svanni' að kjósa,
svo að hvorki' er of né van.
Sjónir fagrar — sjóli heima
sagði: „Verðið!“ óðar þá
hvarmasólir hrifu beima
hug sem mungát svífur á.
Elska mín til hennar hitni
hverri meður nótt, sem dvín;
ástarband það aldrei slitni,
efsti dagur þar til skín.
Dökku skyggist hún af hári,
húm sem nætur grúfi svart:
mótlíkt bjarma' af morgunsári
meyjar ennið ljómar bjart.

Nú með því að vezírinn var maður andríkur og vel að sér, fann hann skjótt á tali hennar, að sér mundi til einskis að leita eftir annarri ambátt, sem væri þessari fremri í því, er konungur hafði á kosið. Spurði hann þá, hversu dýra persneski kaupmaðurinn vildi selja hana; svaraði mansalsmiðillinn því, að kaupmaður slægi aldrei af, en hann setti upp tíu þúsund gullpeninga fyrir hana. „Kaupmaðurinn,“ mælti hann enn fremur, „hefur svarið mér, að með því fé væru hvorki borgaðir kjúklingarnir, sem hún hefur etið, né heldur það, sem kostað hefur verið til að mennta hana, því hún hefur lært að skrifa, málfræði, þýðingar kóransins og undirstöðu lögvísinnar, trúarfræði, læknisfræði, og rímtal; hefur hún og numið hljóðfæralist og iðkað hana. Engar bækur eru til, sem hún ekki hefur lesið, og engin ambátt hefur kunnað meira en þessi, svo að menn viti til.“ Kunni Kakan miklu betur að virða hina fögru ambátt frá Persalandi en mansalsmiðillinn, sem ekki gerði annað en að tyggja það upp aftur, sem kaupmaður hafði beðið hann að segja. Vildi Kakan nú gera út um kaupin og sendi því undireins eftir kaupmanninum. Hann var næsta hrörlegur og hafði hann lifað svo lengi, að varla var eftir nema bein og sinar. Sagði vezírinn honum að hann keypti ekki ambáttina handa sjálfum sér, heldur fyrir Móhammed konung, og spurði, hvort hann vildi láta hana fyrir tíu

4