Blaðsíða:Þúsund og ein nótt (bindi 2).pdf/13

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið villulesin


þúsund gullpeninga. „Fyrst hún er ætluð konungi,“ anzaði kaupmaður, „þá væri það sæmilegast, að ég byði honum hana að gjöf, ef maður í minni stöðu væri þess umkominn að gefa slíka gjöf.“ Lét vezírinn þá sækja féð og telja kaupmanni það af hendi. Því næst mælti kaupmaður: „Með leyfi herra míns, vezírsins, vildi ég segja nokkuð.“ „Seg þú það sem þér býr í huga,“ anzaði Kakan. „Herra!“ mælti kaupmaðurinn, „að minni hyggju væri það gott, ef þér færuð ekki með ambáttina til konungs nú þegar í dag. Hún er nýkomin úr langferð og er því eftir sig, svo þó hún sé fyrirtaks fríð, mundi hún samt verða miklu ásjálegri, ef þér létuð hana hvíla sig í tíu daga í húsi yðar og veittuð henni góðan aðbúnað. Getur hún síðan tekið langar og má leiða hana fyrir soldán í skartmiklum búningi; munuð þér fá af þessu mikla sæmd, og vona ég að þér kunnið mér nokkra þökk fyrir.“ Vezírnum leizt ráð kaupmannsins hyggilegt og lét fá hinni fögru Persamey herbergi sér, næst því, er kona hans var í; beiddi hann konu sína að láta hana eta við borð sitt og fara með hana eins og konu, sem konungur ætti. Hann beiddi hana og að láta gera handa henni marga búninga, skyldu þeir vera hinir skartmestu og fara sem bezt. Sagði hann að skilnaði við Persameyna fögru: „Þér getið ekki orðið fyrir meira láni en ég hef fyrirhugað yður. Megið þér sjálfar dæma um, hvort ekki er svo: ég hef keypt yður handa konunginum og vona ég að hann verði miklu fegnari að fá yður en ég að hafa afrekað erindi það, er hann fól mér á hendur. En um leið verð ég að gera yður vara við, að ég á son, sem ekki skortir vitsmuni, en hann er ungur, glannalegur og nærgöngull. Varið yður því á honum, ef hann skyldi fara nokkurs á leit við yður.“

Persamærin fagra þakkaði honum fyrir viðvörun þessa og sagði, að hann mætti treysta því, að hún skyldi fara að ráðum hans. Sonur vezírsins hét Núreddín og mátti hann koma í herbergi móður sinnar svo oft sem honum líkaði; borðaði hann oftast nær með henni. Hann var ungur og allra manna fríðastur sýnum; látbragð hans var fagurt og djarflegt, og með því hann var gáfumikill og prýðilega vel máli farinn, gat hann talað hvern mann upp til hvers, sem vera skyldi. Þó hann nú vissi, að Persamærin fagra var keypt handa konungi, og faðir hans hefði sagt honum það, þá fór því fjarri, að hann sneri ástarhug sínum frá henni, úr því hann einu sinni hafði séð hana. Varð það miklu fremur til þess, að hann lét töfrast af yndisleik hennar, og einsetti hann sér, er hann hafði átt tal við hana, að vinna allt til þess, að hafa hana undan konunginum. Enda varð Núreddín Persameynni fögru vel að skapi, og hugsaði hún með sér: „Vezírinn gerði mér

5