Blaðsíða:Þúsund og ein nótt (bindi 2).pdf/17

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið villulesin


henni, því þær voru hræddar um Núreddín, ekki síður en hún. Rétt á eftir kom vezírinn Kakan að þeim og varð hann hissa, er hann sá konu sína og ambáttir hennar fljóta í tárum, og Persameyna fögru hengja niður höfuðið með dapurlegu yfirbragði. En er hann spurði, hverju það gegn hljóðuðu þær, kona hans og ambáttirnar, upp yfir sig og grétu enn ákafar en áður, en svöruðu honum engu: furðaði hann sig þá því meira. Veik hann sér að konu sinni og mælti: „Ég vil fyrir hvern mun vita, hvers vegna þið grátið, og það með sannindum." Gat þá kona hans ekki lengur færzt undan og tók þannig til máls: „Herra! lát mig ekki gjalda þess, sem ég nú geri þér uppskátt; ég sver þér, að ég er með öllu saklaus. Meðan ég var í baði með ambáttum mínum, kom sonur þinn og hagnýtti sér óheillastund þessa til að telja Persameynni fögru trú um, að þú ætlaðir honum hana, en ekki konunginum. Það sem hann tók sér fyrir hendur eftir að hann hafði logið þessu að henni, muntu lofa mér að láta ósagt, enda er það auðráðið. Þetta veldur því, að ég er hrygg, bæði þín og sonar míns vegna; ég þori naumast að biðja þig að fyrirgefa honum.“

Því verður ekki með orðum lýst, hversu Kakan varð uppvægur af heift og harmi út af ósvífni sonar síns. Hann barði sér á brjóst, sleit skegg sitt og æpti upp yfir sig: „Óláns seggurinn, ættarskömmin þín! svona hrindir þú föður þínum af hæsta tindi hamingjunnar niður í djúp glötunarinnar; svona steypir þú bæði honum og sjálfum þér í ógæfu.“ Leitaðist kona hans við að sefa skapsmuni hans og beiddi hann að hafa hóf á harmi sínum. „Ég skal gefa þér tíu þúsund gullpeninga af eigum mínum,“ mælti hún, „og getur þú fyrir þá keypt þér aðra ambátt, sem fríðari er og samboðnari konunginum." „Heldur þú,“ svaraði vezírinn, „að ég kæri mig nokkuð um þessa tíu þúsund gullpeninga? Fjártjón þetta, og jafnvel missir eigna minna, getur nú ekki komið til tals, og það mundi ekki fá mér mikils. En hér ræðir um sæmd mína og hún er mér dýrmætari en öll auðæfi veraldarinnar.“ „Þá virðist mér samt svo," mælti kona hans, „að sá skaði, sem bæta má með fé, sé ekki svo háskalegur.“

„Veiztu þá ekki,“ anzaði vezírinn, „að Sawy er svarinn óvinur minn? Ætli hann færi ekki til konungsins undir eins og hann fréttir þetta, og hrósi þar sigri yfir mér? „Yðar hátign!" mun hann segja, „þér talið allténd um, hvað hann Kakan sé yður dyggur og trúr, en hann hefur rétt fyrir skemmstu sýnt, að hann er ómaklegur þess trausts, sem þér hafið á honum Hann tók við tíu þúsund gullpeningum til að kaupa ambátt fyrir, og kom því heiðarlega ætlunarverki fram, sem honum var á hendur falið; keypti

9