Blaðsíða:Þúsund og ein nótt (bindi 2).pdf/19

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið villulesin


vezírinn, að reyndar hafi aldrei nokkur sonur meira afgert við föður sinn en Núreddín, þar sem hann hafði þá sæmd af honum, að færa kon svo algjörva ambátt sem Persamærin fagra var. „En ætlar þú,“ mælti hún, „að glata honum gersamlega? Þá mundir þú í stað óláns þess, er þú ættir að gleyma, baka þér enn meiri ógæfu, sem þú ekki athugar. Ertu þá ekki hræddur um, að menn loksins komist að hinu sanna, þegar þeir fara að brjóta heilann um það, hvers vegna sonur þinn flýr þig? En færi svo, þá rataðir þú eins og maklegt er í glötun þá, sem þú óttast svo mjög.“ Sá vezírinn að þetta var viturlega mælt, en samt kvaðst hann ekki geta fengið af sér að fyrirgefa syni sínum, svo að hann ekki um leið léti hann finna til þess, hversu mjög hann hafði misgert. Sagði þá kona hans: „Það mundi takast, ef þú vildir gera eins og mér nú kemur til hugar. Núreddín kemur hingað á hverju kveldi, þegar þú ert genginn til rekkju, sefur hann hér og fer burt að morgni áður en þú ert kominn á fætur. Bíddu hans nú í kvöld og láttu eins og þú ætlir að drepa hann. Ég hleyp þá til og hjálpa honum, og gefur þú honum líf fyrir minn bænastað; mun hann feginshendi taka þeim kosti, að eiga Persameyna fögru, með hverjum skildaga sem þú vilt setja. Veit ég, þú munir nú vilja gefa honum hana, því heldur sem mér er kunnugt, að hann ann henni hugástum og hún honum.“

Vezírinn féllst á ráð hennar, og áður en Núreddín væri hleypt inn á vanalegum tíma, faldi Kakan sig að hurðarbaki; en er sonur hans kom inn, flaug hann á hann, felldi hann undir sig og reiddi upp hnífinn, en í sama vetfangi kom móðir Núreddíns hlaupandi, þreif í handlegg honum og æpti: „Hvað ætlar þú nú að gera, herra?“ „Slepptu mér,“ svaraði vezírinn reiðilega, „svo ég geti drepið þenna vonda son.“ „Dreptu mig heldur, herra!“ sagði móðirin, „ég skal aldrei líða þér að flekka hendur þínar í þínu eigin blóði.“ Þá sætti Núreddín lagi og sagði grátandi: „Faðir! ég bið þig vægðar og miskunnar: fyrirgef mér í nafni hans, sem þú væntir fyrirgefningar af á þeim degi, sem vér allir munum birtast fyrir honum.“ Lét Kakan þá hnífinn vindast úr hendi sér, féll Núreddín því næst fram fyrir hann, og kyssti á fætur hans til merkis um, hversu hann iðraðist eftir að hafa móðgað hann. Sagði vezírinn Núreddín, að hann skyldi þakka móður sinni, því hann gerði það af elsku til hennar, að fyrirgefa honum. „Og Persameyna fögru,“ mælti hann ennfremur, „gef ég þér því að eins með því skilyrði, að þú sverjir mér, að fara ekki með hana eins og ambátt, heldur sem konu þína, eða með öðrum orðum, aldrei að selja hana eða reka hana frá þér. Hún er margfalt hyggnari, gáfaðri og siðugri en þú,

11