Blaðsíða:Alþjóðasáttmáli um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.pdf/1

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið staðfest

Lagasafn (útgáfa 140b) – Íslensk lög 11. september 2012 Nr. 10 1979 1

Alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi

Inngangsorð.

Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum

hafa í huga, í samræmi við grundvallaratriði þau sem sett eru fram í sáttmála Sameinuðu þjóðanna, að viðurkenning á meðfæddri göfgi mannsins og jöfnum óaðskiljanlegum réttindum allra manna sé grundvöllur frelsis, réttlætis og friðar í heiminum,

viðurkenna að þessi réttindi leiði af meðfæddri göfgi mannsins, viðurkenna, í samræmi við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, að sú hugsjón að menn séu frjálsir, óttalausir og þurfi ekki að líða skort, rætist því aðeins að sköpuð verði skilyrði til þess að allir geti notið efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda, jafnt sem borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda,

hafa í huga skyldur ríkja samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna til þess að stuðla að almennri virðingu fyrir og varðveislu mannréttinda og frelsis,

gera sér grein fyrir að einstaklingurinn sem hefur skyldur gagnvart öðrum einstaklingum og samfélagi því sem hann tilheyrir hefur þá ábyrgð að leitast við að stuðla að og halda í heiðri réttindi þau sem viðurkennd eru í samningi þessum,

samþykkja eftirfarandi greinar:

I. hluti.

1. gr.

 1. Allar þjóðir hafa sjálfsákvörðunarrétt. Vegna þess réttar ákveða þær frjálst stjórnmálalegar aðstæður sínar og framfylgja frjálst efnahagslegri, félagslegri og menningarlegri þróun sinni.
 2. Allar þjóðir mega, í sínu eigin markmiði, ráðstafa óhindrað náttúruauðæfum og auðlindum sínum brjóti það ekki í bága við neinar skuldbindingar sem leiðir af alþjóðlegri efnahagssamvinnu, byggðri á grundvallarreglunni um gagnkvæman ábata, og þjóðarétti. Aldrei má svipta þjóð ráðum sínum til lífsviðurværis.
 3. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum, þar með talin þau sem bera ábyrgð á stjórnun lendna sem ekki ráða sér sjálfar og gæsluverndarlendna, skulu stuðla að viðurkenningu á sjálfsákvörðunarrétti og skulu virða þann rétt í samræmi við ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

II. hluti.

2. gr.

 1. Sérhvert ríki sem aðili er að samningi þessum tekst á hendur að gera þær ráðstafanir, eitt sér eða fyrir alþjóðaaðstoð og -samvinnu, sérstaklega á sviði efnahags og tækni, sem það frekast megnar með þeim ráðum sem því eru tiltæk, í þeim tilgangi að réttindi þau sem viðurkennd eru í samningi þessum komist í framkvæmd í áföngum með öllum tilhlýðilegum ráðum, þar á meðal sérstaklega með lagasetningu.
 2. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að ábyrgjast að réttindum þeim sem greind eru í samningi þessum muni verða framfylgt án nokkurrar mismununar vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.
 3. Þróunarlönd mega ákveða, með tilhlýðilegu tilliti til mannréttinda og efnahags þjóða þeirra, að hvaða marki þau mundu ábyrgjast þau efnahagslegu réttindi sem viðurkennd eru í samningi þessum til handa þeim sem ekki eru þegnar þeirra.

3. gr.

Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að ábyrgjast jöfn réttindi til handa körlum og konum til þess að njóta allra þeirra efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu réttinda sem sett eru fram í samningi þessum.

4. gr.

Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna að ríki megi, til þess að réttinda þeirra verði notið sem ríki ákveður í samræmi við þennan samning, einungis binda slík réttindi þeim takmörkunum sem ákveðið er í lögum og einungis að svo miklu leyti sem það getur samrýmst eðli þessara réttinda og einungis í þeim tilgangi að stuðla að velferð almennings í lýðfrjálsu þjóðfélagi.

5. gr.

 1. Ekkert í samningi þessum má túlka þannig að það feli í sér að ríki, hópur eða einstaklingur hafi rétt til þess að takast á hendur neinar athafnir né aðhafast neitt sem miðar að eyðileggingu neins þess réttar eða frelsis sem hér er viðurkennt eða takmörkun á þeim að frekara marki en gert er ráð fyrir í þessum samningi.
 2. Engar takmarkanir á eða frávik frá neinum þeim grundvallarmannréttindum sem viðurkennd eru eða fyrir hendi eru í einhverju ríki vegna laga, samninga, reglugerða eða venju skulu leyfðar undir því yfirskini að samningur þessi viðurkenni ekki slík réttindi eða viðurkenni þau að minna marki.

III. hluti.

6. gr.

 1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt manna til vinnu, sem felur í sér rétt sérhvers manns til þess að hafa tækifæri til þess að afla sér lífsviðurværis með vinnu sem hann velur sér eða tekur að sér af frjálsum vilja, og munu ríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja þennan rétt.
 2. Ráðstafanir þær sem ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum gera til þess að framfylgja að öllu leyti þessum réttindum skulu meðal annars vera fólgnar í tækni- og starfsfræðslu og þjálfunaráætlunum, stefnumörkun og aðferðum til þess að ná stöðugri efnahagslegri, félagslegri og menningarlegri framþróun og fullri og skapandi atvinnu við aðstæður sem tryggja grundvallarfrelsi, stjórnmálalega og efnahagslega, til handa einstaklingum.

7. gr.

Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða sem tryggja sérstaklega:

(a) endurgjald sem veitir öllum vinnandi mönnum sem lágmark:
(i) sanngjarnt kaup og jafnt endurgjald fyrir jafnverðmæta vinnu án nokkurrar aðgreiningar, og séu konum sérstaklega tryggð vinnuskilyrði sem eigi séu lakari en þau sem karlmenn njóta, og jafnt kaup fyrir jafna vinnu;
(ii) sómasamlega lífsafkomu fyrir þá sjálfa og fjölskyldur þeirra í samræmi við ákvæði samnings þessa;
(b) öryggi við störf og heilsusamleg vinnuskilyrði;
(c) jafna möguleika allra til þess að hækka í stöðu á viðhlítandi hærra stig, enda sé ekki tekið tillit til annarra atriða en starfsaldurs og hæfni;
(d) hvíld, frítíma og sanngjarna takmörkun á vinnustundum og frídaga á launum með vissu millibili svo og endurgjald fyrir opinbera frídaga.

8. gr.

 1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að ábyrgjast: