Blaðsíða:Alþjóðasamningur um borgararleg og stjórnmálaleg réttindi.pdf/1

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið staðfest

Lagasafn (útgáfa 140b) – Íslensk lög 11. september 2012 Nr. 10 1979

Alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi

Inngangsorð.

Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum hafa í huga, í samræmi við grundvallaratriði þau sem sett eru fram í sáttmála Sameinuðu þjóðanna, að viðurkenning á meðfæddri göfgi mannsins og jöfnum óaðskiljanlegum réttindum allra manna sé grundvöllur frelsis, réttlætis og friðar í heiminum,

viðurkenna að þessi réttindi leiðir af meðfæddri göfgi mannsins,

viðurkenna, í samræmi við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, að sú hugsjón að menn séu frjálsir og njóti borgaralegs og stjórnmálalegs frelsis, séu óttalausir og þurfi ekki að líða skort, rætist því aðeins að sköpuð verði skilyrði til þess að allir geti notið borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda, jafnt sem efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda,

hafa í huga skyldur ríkja samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna til þess að stuðla að almennri virðingu fyrir og varðveislu mannréttinda og frelsis,

gera sér grein fyrir að einstaklingurinn sem hefur skyldur gagnvart öðrum einstaklingum og samfélagi því sem hann tilheyrir hefur þá ábyrgð að leitast við að stuðla að og halda í heiðri réttindi þau sem viðurkennd eru í þessum samningi,

samþykkja eftirfarandi greinar:

I. hluti.

1. gr.

1. Allar þjóðir hafa sjálfsákvörðunarrétt. Vegna þess réttar ákveða þær frjálst stjórnmálalegar aðstæður sínar og framfylgja frjálst efnahagslegri, félagslegri og menningarlegri þróun sinni.
2. Allar þjóðir mega, í sínu eigin markmiði, ráðstafa óhindrað náttúruauðæfum og auðlindum sínum brjóti það ekki í bága við neinar skuldbindingar sem leiðir af alþjóðlegri efnahagssamvinnu, byggðri á grundvallarreglunni um gagnkvæman ábata, og þjóðarétti. Aldrei má svipta þjóð ráðum sínum til lífsviðurværis.
3. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum, þar með talin þau sem bera ábyrgð á stjórnun lendna sem ekki ráða sér sjálfar og gæsluverndarlendna, skulu stuðla að viðurkenningu á sjálfsákvörðunarrétti og skulu virða þann rétt í samræmi við ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

II. hluti.

2. gr.

1. Sérhvert ríki sem aðili er að samningi þessum tekst á hendur að virða og ábyrgjast öllum einstaklingum innan landsvæðis síns og undir lögsögu sinni réttindi þau sem viðurkennd eru í samningi þessum án nokkurs konar mismununar svo sem vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.
2. Sérhvert ríki sem aðili er að samningi þessum tekst á hendur, sé ekki þegar gert ráð fyrir því í lagaákvæðum sem fyrir eru eða með öðrum ráðstöfunum, að gera nauðsynlegar ráðstafanir í samræmi við stjórnskipulega meðferð og ákvæði þessa samnings, að koma á slíkum lögum eða öðrum ráðstöfunum er kunna að vera nauðsynlegar til þess að réttindum samkvæmt samningi þessum sé framfylgt.
3. Sérhvert ríki sem aðili er að samningi þessum tekst á hendur:
(a) að ábyrgjast að sérhver maður sem hefur viðurkenndan rétt eða frelsi eins og hér er viðurkennt og brotið hefur verið á honum, skuli fá raunhæfar úrbætur, enda þótt skerðingin hafi verið framin af mönnum sem fara með stjórnvald;
(b) að ábyrgjast að sérhver maður sem krefst slíkra úrbóta skuli fá rétt sinn til þessa ákveðinn af lögbæru dóms-, stjórn- eða löggjafarvaldi eða einhverju öðru lögbæru yfirvaldi sem gert er ráð fyrir í réttarkerfi ríkisins, og hlutast til um möguleika á úrbótum samkvæmt dómi;
(c) að ábyrgjast að lögbær yfirvöld skuli framfylgja slíkum úrbótum sem veittar hafa verið.

3. gr.

Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að ábyrgjast jöfn réttindi til handa körlum og konum til þess að njóta allra þeirra borgaralegu og stjórnmálalegu réttinda sem sett eru fram í samningi þessum.

4. gr.

1. Þegar um er að ræða almennt neyðarástand sem ógnar lífi þjóðarinnar og slíku ástandi hefur verið opinberlega lýst yfir mega ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum gera ráðstafanir sem víkja frá skyldum þeirra samkvæmt samningi þessum að því marki sem bráðnauðsynlegt er vegna hættuástandsins að því tilskildu að slíkar ráðstafanir séu ekki í ósamræmi við aðrar skyldur þeirra samkvæmt þjóðarétti og feli ekki í sér mismunun sem byggist eingöngu á aðstæðum vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða eða félagslegs uppruna.
2. Ekki má víkja í neinu frá 6., 7., 8. (1. og 2. mgr.), 11., 15., 16. og 18. gr. samkvæmt þessu ákvæði.
3. Sérhvert ríki sem aðili er að samningi þessum og notfærir sér rétt til fráviks skal þegar í stað tilkynna hinum ríkjunum sem aðilar eru að samningi þessum, fyrir milligöngu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, um þau ákvæði sem það hefur vikið frá og þær ástæður sem knúðu það til þess. Önnur orðsending skal send fyrir milligöngu sama þann dag sem það fellir slíkt frávik niður.

5. gr.

1. Ekkert í samningi þessum má túlka þannig að það feli í sér að ríki, hópur eða einstaklingur hafi rétt til þess að takast á hendur neinar athafnir né aðhafast neitt sem miðar að eyðileggingu neins þess réttar eða frelsis sem hér er viðurkennt eða takmörkun á þeim að frekara marki en gert er ráð fyrir í þessum samningi.
2. Ekki skulu vera neinar takmarkanir á eða frávik frá neinum þeim grundvallarmannréttindum sem viðurkennd eru eða fyrir hendi eru í einhverju ríki, sem aðili er að samningi þessum, samkvæmt lögum, samningum, reglugerðum eða venju undir því yfirskini að samningur þessi viðurkenni ekki slík réttindi eða viðurkenni þau að minna marki.

III. hluti.

6. gr.

1. Sérhver maður hefur meðfæddan rétt til lífs. Þennan rétt skal vernda með lögum. Engan mann má svipta lífi að geðþótta.
2. Í löndum sem ekki hafa afnumið dauðarefsingu má aðeins kveða upp dauðadóm fyrir alvarlegustu glæpi í samræmi við þau lög sem í gildi voru á þeim tíma er glæpurinn var framinn og ekki eru andstæð ákvæðum samnings þessa né ákvæðum sáttmálans um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð. Þessari refsingu má aðeins framfylgja samkvæmt lokadómi, uppkveðnum af lögbærum dómstóli.
3. Þegar svipting lífs felur í sér hópmorð skal ljóst vera að ekkert í þessari grein skal heimila neinu ríki sem aðili er að samningi þessum að víkja á nokkurn hátt frá neinni skyldu