Blaðsíða:Alþjóðasamningur um borgararleg og stjórnmálaleg réttindi.pdf/3

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið staðfest

Lagasafn (útgáfa 140b) – Íslensk lög 11. september 2012 Nr. 10 1979 3

3. Við ákvarðanir er maður hefur verið borinn sökum um glæpsamlegt athæfi skal hann eiga rétt á að honum séu tryggð eftirtalin lágmarksréttindi sem skulu talin fullkomlega jafnrétthá:
(a) að fá tafarlaust vitneskju, á máli sem hann skilur, um eðli og orsök kærunnar gegn honum í einstökum atriðum;
(b) að hafa nægilegan tíma og aðstöðu til þess að undirbúa vörn sína og að hafa samband við málsvara sem hann velur sér sjálfur;
(c) að mál hans sé rannsakað án óhæfilegrar tafar;
(d) að mál hans sé rannsakað í hans viðurvist og að verja sig sjálfur eða að verja sig fyrir lögfræðilega aðstoð sem hann velur sér sjálfur; að honum sé tilkynnt, hafi hann ekki lögfræðilega aðstoð, um þennan rétt hans; og að honum sé séð fyrir lögfræðilegri aðstoð í öllum þeim tilvikum sem réttarhagsmunir krefjast þess, og án greiðslu af hans hálfu í öllum slíkum tilvikum, hafi hann ekki næg efni til þess að greiða aðstoðina;
(e) að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum og að hans vitni komi fyrir og séu spurð við sömu aðstæður og vitni sem leidd eru gegn honum;
(f) að fá ókeypis aðstoð túlks ef hann skilur ekki eða talar ekki mál það sem notað er fyrir dómi;
(g) að vera ekki þröngvað til þess að bera gegn sjálfum sér eða að játa sök.
4. Sé um að ræða ófullveðja menn skal málsmeðferð vera slík að tekið sé tillit til aldurs þeirra og þeirrar viðleitni að stuðla að endurhæfingu þeirra.
5. Hver sá sem sakfelldur hefur verið fyrir glæp skal eiga rétt á að sakfelling hans og dómur séu endurskoðuð af æðra dómi samkvæmt lögum.
6. Nú hefur maður verið sakfelldur fyrir glæpsamlegt athæfi með lokadómi en hann síðan verið sýknaður eða hann hefur verið náðaður vegna þess að ný eða nýuppgötvuð staðreynd sýnir ótvírætt að réttarspjöll hafa verið framin, þá skal sá maður sem hefur þolað refsingu vegna slíkrar sakfellingar fá bætur samkvæmt lögum nema sannað sé að það var að öllu eða nokkru leyti um að kenna honum sjálfum að hin óupplýsta staðreynd kom ekki í ljós á réttum tíma.
7. Enginn skal þurfa að þola að mál hans sé rannsakað fyrir dómi eða honum refsað í annað sinn fyrir misgerð sem hann hefur þegar verið sakfelldur fyrir eða sýknaður af með lokadómi samkvæmt lögum og réttarfari í sakamálum í því landi sem um ræðir.

15. gr.

1. Engan skal telja sekan um glæpsamlegt athæfi hafi verknaður sá eða aðgerðaleysi sem hann er borinn ekki varðað refsingu að landslögum eða þjóðarétti á þeim tíma er verknaðurinn eða aðgerðaleysið átti sér stað. Eigi má heldur dæma hann til þyngri refsingar en þeirrar sem að lögum var leyfð þegar verknaðurinn var framinn. Nú er, eftir að hið glæpsamlega athæfi var framið, lögleitt ákvæði þar sem beita má vægari refsingu og skal þá misgerðamaðurinn njóta góðs af því.
2. Ekkert ákvæði þessarar greinar skal fyrirgirða réttarrannsókn og refsingu á hendur neinum manni fyrir verknað eða aðgerðaleysi sem var refsivert, þegar það var framið, samkvæmt almennum grundvallarreglum laga, viðurkenndum af samfélagi þjóðanna.

16. gr.

Allir skulu eiga rétt til þess að vera viðurkenndir hvar sem er sem aðilar að lögum.

17. gr.

1. Enginn skal þurfa að þola geðþótta- eða ólögmæta röskun á einkalífi, fjölskyldu, heimili eða bréfaskiptum, né ólögmætar árásir á heiður eða mannorð sitt.
2. Allir eiga rétt á lagavernd gegn slíkri röskun eða árásum.

18. gr.

1. Allir menn skulu frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar. Í þessum rétti felst frelsi til þess að hafa eða aðhyllast trú eða skoðun að þeirra vali, og frelsi til þess að láta í ljós trú sína eða játningu, einir sér eða í félagi við aðra, opinberlega eða einslega, með tilbeiðslu, helgihaldi, guðsþjónustu og kennslu.
2. Enginn skal þurfa að sæta þvingun sem mundi hefta frelsi hans til þess að hafa eða aðhyllast trú eða skoðun að hans vali.
3. Frelsi til þess að láta í ljós trú eða skoðun skal einungis háð þeim takmörkunum sem mælt er í lögum og eru nauðsynlegar til þess að vernda öryggi almennings, reglu, heilbrigði eða siðgæði, eða grundvallarréttindi og frelsi annarra.
4. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða frelsi foreldra og, eftir því sem við á, lögráðamanna til þess að tryggja trúarlegt og siðferðislegt uppeldi barna sinna í samræmi við þeirra eigin sannfæringu.

19. gr.

1. Allir skulu eiga rétt á að ráða skoðunum sínum afskiptalaust.
2. Allir skulu eiga rétt til að láta í ljós skoðanir sínar; í þessum rétti felst frelsi til þess að leita, taka við og miðla alls konar vitneskju og hugmyndum án tillits til landamæra, annaðhvort munnlega, skriflega eða á prenti, í formi lista, eða eftir hverjum öðrum leiðum að þeirra vali.
3. Sérstakar skyldur og ábyrgð felast í því að nota sér réttindi þau sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar. Því má takmarka þessi réttindi að vissu marki, en þó aðeins að því marki sem mælt er í lögum og er nauðsynlegt:
(a) til þess að virða réttindi eða mannorð annarra;
(b) til þess að vernda þjóðaröryggi eða allsherjarreglu (ordre public), eða heilbrigði almennings eða siðgæði.

20. gr.

1. Allur stríðsáróður skal bannaður með lögum.
2. Allur málflutningur til stuðnings haturs af þjóðernis-, kynþáttar- eða trúarbragðalegum toga spunnið sem felur í sér hvatningu um mismunun, fjandskap eða ofbeldi skal bannaður með lögum.

21. gr.

Rétt skal mönnum að koma saman með friðsömum hætti. Eigi skal réttur þessi öðrum takmörkunum háður en þeim sem settar eru í samræmi við lög og nauðsynlegar eru í lýðfrjálsu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða öryggis almennings, allsherjarreglu (ordre public), verndunar heilbrigði almennings eða siðgæðis, eða til verndunar réttindum og frelsi annarra.

22. gr.

1. Allir eiga rétt á að mynda félög með öðrum, þar á meðal að stofna og ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum.
2. Eigi skal réttur þessi háður öðrum takmörkunum en þeim sem mælt er í lögum og nauðsynlegar eru í lýðfrjálsu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða öryggis almennings, allsherjarreglu (ordre public), verndunar heilbrigði almennings eða siðgæðis, eða til verndunar réttindum og frelsi annarra. Grein þessi skal ekki vera því til fyrirstöðu að lögmætar takmarkanir séu settar við því að herliðar og lögreglumenn beiti þessum réttindum.
3. Ekkert í grein þessari skal heimila ríkjum, sem aðilar eru að samþykkt á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá 1948 um félagafrelsi og verndun þess, að gera ráðstafanir