Blaðsíða:Alþjóðasamningur um borgararleg og stjórnmálaleg réttindi.pdf/4

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið staðfest

4 Nr. 10 1979 Lagasafn (útgáfa 140b) – Íslensk lög 11. september 2012

með lögum sem myndu skaða eða beita lögum á þann hátt að það myndi skaða það sem tryggt er í þeirri samþykkt.

23. gr.

1. Fjölskyldan er hin eðlilega grundvallarhópeining þjóðfélagsins og á rétt á vernd þjóðfélagsins og ríkisins.
2. Réttur karla og kvenna á hjúskaparaldri til þess að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu skal viðurkenndur.
3. Ekki skal stofnað til hjúskapar nema með frjálsu og fullkomnu samþykki hjónaefnanna.
4. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja jöfn réttindi og jafnar skyldur hjóna varðandi stofnun hjúskapar, á meðan á hjúskap stendur og við slit hjúskapar. Við hjúskaparslit skal gera ráðstafanir varðandi nauðsynlega vernd barna.

24. gr.

1. Öll börn skulu eiga rétt á þeim verndarráðstöfunum sem þau þarfnast vegna aðstæðna þeirra sem ófullveðja, af hendi fjölskyldu sinnar, þjóðfélagsins og ríkisins án nokkurrar mismununar vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna eða ætternis.
2. Öll börn skulu skráð þegar eftir fæðingu og skulu bera nafn.
3. Öll börn eiga rétt á að öðlast þjóðerni.

25. gr.

Án mismununar þeirrar sem um getur í 2. gr. og án ósanngjarnra takmarkana skal sérhver borgari eiga rétt á og hafa tækifæri til:

(a) að taka þátt í opinberri starfsemi, á beinan hátt eða fyrir milligöngu fulltrúa sem eru kosnir á frjálsan hátt;
(b) að kjósa og vera kjörinn í raunverulegum reglubundnum kosningum þar sem almennur og jafn kosningaréttur gildir og kosið er leynilegri kosningu sem tryggir frjálsa viljayfirlýsingu kjósendanna;
(c) að hafa aðgang að opinberu starfi í landi sínu á almennum jafnréttisgrundvelli.

26. gr.

Allir eru jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á sömu lagavernd án nokkurrar mismununar. Lögin skulu því í þessu skyni banna hvers konar mismunun og ábyrgjast öllum mönnum jafna og raunhæfa vernd gegn mismunun svo sem vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.

27. gr.

Í þeim ríkjum þar sem staðfélags-, trúarbragða- eða tungumálaminnihlutahópar eru skal þeim sem tilheyra slíkum minnihlutahópum ekki neitað um rétt til þess, í samfélagi við aðra í þeirra hópi, að njóta menningar sinnar, að játa og þjóna sinni eigin trú eða að nota sitt eigið tungumál.

IV. hluti.

28. gr.

1. Stofna skal mannréttindanefnd (í samningi þessum hér á eftir kölluð nefndin). Hún skal skipuð átján nefndarmönnum og skal framkvæma þau störf sem mælt er um hér á eftir.
2. Nefndin skal skipuð þegnum þeirra ríkja sem aðilar eru að samningi þessum og skulu þeir vera gæddir góðum siðgæðiseiginleikum og vera viðurkenndir að þekkingu á sviði mannréttinda og skal höfð í huga gagnsemi af þátttöku nokkurra manna sem hafa reynslu í lagastörfum.
3. Nefndarmenn skulu kjörnir og skulu starfa sem einstaklingar.

29. gr.

1. Nefndarmenn skulu kjörnir í leynilegum kosningum af lista með nöfnum manna sem hafa til að bera þá eiginleika sem mælt er í 28. gr. og tilnefndir eru í þessum tilgangi af ríkjum þeim sem aðilar eru að samningi þessum.
2. Sérhvert ríki sem aðili er að samningi þessum má tilnefna tvo menn en ekki fleiri. Þessir menn skulu vera þegnar þess lands sem tilnefnir þá.
3. Tilnefna má menn til endurkjörs.

30. gr.

1. Fyrstu kosningarnar skulu fara fram eigi síðar en sex mánuðum eftir að þessi samningur gengur í gildi.
2. Minnst fjórum mánuðum fyrir hvern kjördag til nefndarkosninga, annarra en kosninga til að skipa sæti sem lýst hefur verið laust í samræmi við 34. gr., skal aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna senda skriflegt erindi til ríkja þeirra sem aðilar eru að samningi þessum um að leggja fram tilnefningu til nefndarskipunar innan þriggja mánaða.
3. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal gera skrá í stafrófsröð um alla þá sem þannig eru tilnefndir og gefa til kynna aðildarríkin sem hafa tilnefnt þá, og skal leggja hana fyrir ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum eigi síðar en mánuði fyrir kjördag.
4. Kosning nefndarmanna skal fara fram á fundi aðildarríkja samnings þessa sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kallar saman í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Á þeim fundi, þar sem tveir þriðju ríkja þeirra sem aðilar eru að samningi þessum skulu mynda lögmætan fund, skulu þeir, sem tilnefndir hafa verið, taldir kjörnir í nefndina sem hljóta flest atkvæði og hreinan meiri hluta atkvæða fulltrúa aðildarríkjanna sem viðstaddir eru og greiða atkvæði.

31. gr.

1. Í nefndinni má ekki vera nema einn þegn sama ríkis.
2. Við kosningu í nefndina skal höfð í huga sanngjörn landfræðileg skipting nefndarmanna og að þeir séu fulltrúar hinna mismunandi menningartegunda og helstu lagakerfa.

32. gr.

1. Kjörtímabil nefndarmanna skal vera fjögur ár. Þá má endurkjósa ef þeir eru tilnefndir aftur. Þó skal kjörtímabil níu nefndarmanna sem kosnir eru í fyrstu kosningunum renna út að tveimur árum liðnum; þegar eftir fyrstu kosningarnar skal formaður fundarins sem um getur í 4. mgr. 30. gr. velja nöfn þessara níu nefndarmanna með hlutkesti.
2. Við lok embættisþjónustu skulu kosningar fara fram í samræmi við undanfarandi greinar þessa hluta samnings þessa.

33. gr.

1. Nú er það samhljóða álit annarra nefndarmanna að nefndarmaður hefur hætt að rækja starf af öðrum orsökum en tímabundinni fjarvist, og skal þá formaður nefndarinnar þegar tilkynna það aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem skal þá lýsa sæti þess nefndarmanns laust.
2. Þegar um er að ræða andlát eða afsögn nefndarmanns skal formaður nefndarinnar þegar tilkynna það aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem skal lýsa sætið laust frá dánardegi eða þeim degi er afsögnin tekur gildi.

34. gr.

1. Þegar lýst er lausu sæti í samræmi við 33. gr. og renni embættistímabil nefndarmanns, sem skipa skal fyrir, ekki út innan sex mánaða frá yfirlýsingunni um að sætið væri laust, skal aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tilkynna þetta öllum ríkjum þeim sem aðilar eru að samningi þessum sem mega innan tveggja mánaða leggja fram tilnefningar í samræmi við 29. gr. til þess að skipa hið lausa sæti.
2. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal gera skrá í stafrófsröð um þá sem þannig eru tilnefndir og leggja hana fyrir ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum. Kosningar til þess að skipa laust sæti skulu síðan fara fram í samræmi við þau ákvæði þessa hluta samnings þessa sem við eiga.