Blaðsíða:Biskupa sögur Bindi 1.pdf/14

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

vii

FORMÁLI.

deildarstjórnarinnar í Kaupmannahöfn, á fundi 18. November 1854, að fèlagið lèti prenta allan þann sagnaflokk, sem snerti kirkjusögu landsins, og kallaði þann flokk „Biskupasögur”. Á þessa uppástúngu fèllst Deildin í Kaupmannahöfn, og hún var samþykkt á fundi Deildarinnar í Reykjavík 5. August 1855. Eptir þessum ályktunum kom út fyrsta hepti af Biskupasögum vorið eptir, 1856, annað hepti í fyrra vor, og nú hið þriðja, sem fullgjöra skal hið fyrsta bindi af sögusafni þessu.

Nú kann sumum að sýnast sem mart sè í sögum þessum, er lítil þörf sè að kunna eðr leiða fyrir sjónir, svo sem jarteinirnar og yms hindrvitni og trúarvilla, en til þess má svara því, að þess verðr getið sem gjört er; sá sem vill heita fróðr, verðr að þekkja bæði illt og gott. Grasafræðíngrinn les sèr blóm og aldini ekki síðr úr grýttri jörð og hrjóstrugri, en úr blómbeðunum. Líkt verðr sá að gjöra, sem sagnafróðr vill vera. Enda mun og hèr sannast, að fátt er svo að engu dugi, þeim sem rètt kunna með að fara. Af jarteinum má margan fróðleik nema, þær sýna berlega trú manna og hugsan í þá daga, og gefa margar ágætar bendíngar um hagi landsins í allskonar efnum, og ber þar margt fyrir, sem ekki finnst í neinum öðrum sögum vorum, og sem menn nú mundi ganga duldir, ef ekki væri til jarteinaþættirnir. Auk þess er málið og frásögnin í sögum þessum víða ágætt, og handritin sum meðal hinna elztu og beztu, sem menn þekkja nú af íslenzkum handritum.

Vèr munum því næst lýsa handritum þeim, sem höfð hafa verið við útgáfu þessa bindis, sem nú er fullgjört, og ákveða sem næst sanni aldr handritanna, en þó einkum um ætt þeirra og samband hvers við annað, en þar næst tala um aldr hverrar sögu fyrir sig, og um höfunda þeirra, þar sem þess er kostr. En svo að menn geti skilið það, sem í þessu efni verðr sagt, þá er ekki ófallið, að nefna nokkur atriði um handrit vor og afdrif þeirra, en þó helzt um Íslendíngasögur. Handrit vor eru ýmist rituð á bókfell eðr pappír. Skinnhandritin eru elzt; hin elztu þeirra, en þó örfá, eru frá 12. öld, ekki allfá frá miðri og ofanverðri 13. öld, en mestr þorri er þó frá 14. öld og 15.