Blaðsíða:Biskupa sögur Bindi 1.pdf/27

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

hennar, sem sumir hafa haldið? — það mun fara fjarri að svo sè. Teljum vèr þar til fyrst orðfæri Kristnisögu, það er sitt hvað og orðfæri það sem tíðkaðist á ofanverðri 13. öld, og sem sjá má á Árna biskups sögu. Þarf enginn að ganga duldr þess, sem söguna les, að hún er rjtuð löngu fyrir daga Hauks; hún er þýð og fáorð, og hefir í öllu hinn forna sögubrag, sem tíðkaðist um 1200. Hauksbók ber það og sjálf með sèr, að Haukr hefir ritað upp en ekki samið söguna: Á einum stað er eyða fyrir nafni (bls. 27), því Haukr hefir ekki getað lesið hvað stóð i frumriti hans; bls. 32 er líka eyða, sem eflaust hefir staðið í sjálfri Hauksbók, svo sem afskript Bjarnar á Skarðsá í Viðbæti Landnámu sýnir. Fyrirsögn er röng á einum stað, við kap. 13[1]; og að síðustu þá er fjöldi af ritvillum í bókinni í nöfnum og slíku; má til nefna helztu dæmin: bls. 17 stendr: „mun ek gera þignan”, en á að vera: „gera þig [sýk]nan”; bls. 23 stendr „Broddi Þorarinsson”, fyrir „bróðir Þórarins”; bls. 32 stendr: „Þórðr og Páll vóru synir þeirra”, en á að vera „Snorri ok Páll” (sbr. Rafnssögu og Sturlúngu), o. s. frv. Þetta sýnir til fullnustu, að sagan er rituð ekki skömmu fyrir daga Hauks. En hver er þá höfundr hennar? — Þetta er vandari getan. Vèr vitum, að Haukr ritaði Landnámu sína eptir bókum þeirra Styrmis fróða og Sturlu lögmanns, og hafði það úr hvorri sem framar greindi, en Kristnisaga er ekki annað í Hauksbók en þáttr, sem er áfastr Landnámu, því hún byrjar svo: „Nú hefr þat, hversu kristni kom á Ísland”, en Landnáma sjálf endar með því, að segja hverir landnámsmenn hafi verið skírðir, og mun það vera svosem inngangr kristnisögunnar. Nú höfum vèr Landnámu Sturlu, og finnst ekki Kristnisaga þar, en Styrmisbók er glötuð. Nú ímyndum vèr oss, að Kristnisaga hafi staðið aptanvið bók Styrmis. Styrmir fróði Kárason mun vera fæddr um 1180; hann varð lögsögumaðr 1210; 1235 tók hann við ráðum í Viðeyjarklaustri, og andaðist 1245, mun hann þá hafa verið gamall maðr. Styrmis nafnið heyrir til Víðdæla ætt, og ætlum vèr að Styrmir hafi

  1. ritararnir settu optast eðr ætið fyrirsagnir allar af eigin brjósti.