Blaðsíða:Dómur Landsdóms nr. 3-2011.pdf/11

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur ekki verið prófarkalesin

11 þar sem athygli beindist meðal annars að vexti bankanna, eignarhaldi þeirra, lántökum og útlánum. Þá lýstu fyrirtækin jafnframt efasemdum um getu íslenska ríkisins til að standa að baki bönkunum og Seðlabanka Íslands sem lánveitanda til þrautavara. Skuldatryggingarálag vegna íslensku bankanna mun hafa hækkað nokkuð haustið 2005 og sú hækkun haldið áfram í byrjun árs 2006. Meðal þess, sem matsfyrirtækið Fitch Ratings mun hafa bent á, var að íslenska hagkerfið hafi lengi borið merki um ofþenslu, en með því að ástandinu virtist hraka mun hraðar en áður hafi fyrirtækið talið að auknar líkur væru á svonefndri harðri lendingu. Íslensku bankarnir væru mjög háðir erlendum lánsfjármörkuðum og því myndu þeir tæplega þola að hafa ekki aðgang að erlendu lánsfé um tíma. Greiningarfyrirtækið Merrill Lynch & Co. Inc. mun hafa talið vandamál á Íslandi rétt vera að hefjast, en kerfislægur vandi eins og hér væri við að glíma væri lengi að byggjast upp og fjara út. Bankastarfsemi hér á landi væri ekki sterk, hækkun á skuldatryggingarálagi íslensku bankanna væri afleiðing veikrar stöðu þeirra og tæki þó ekki að fullu mið af því hversu miklu áhættusæknari þeir væru en aðrir evrópskir bankar. Þá mun fyrirtækið hafa bent á að íslensku bankarnir hafi einungis að litlu leyti aflað sér fjár með innlánum og væri hlutfall þeirra af útlánum lágt. Greiningardeild Danske Bank A/S mun hafa talið efnahagslegt ójafnvægi vera fyrir hendi á Íslandi og spáð kreppu á næstu tveimur árum. Af þessu munu hafa stafað tímabundnir örðugleikar fyrir íslensku bankana við öflun lánsfjár auk þess sem gengi íslensku krónunnar veiktist verulega og innlend hlutabréf lækkuðu í verði. Til að bregðast við þessu munu bankarnir og íslensk stjórnvöld hafa farið í svokallaða ímyndarherferð, enda hafi þessi umræða stafað að þeirra mati af misskilningi og skorti á upplýsingum um stöðu Íslands og íslensku bankanna. Fredrick Mishkin, prófessor við Columbia háskóla í Bandaríkjunum, og Tryggvi Þór Herbertsson, þáverandi forstöðumaður hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, munu í byrjun maí 2006 hafa gert skýrslu um fjármálastöðugleika á Íslandi, þar sem meðal annars var bent á að undirstöður íslensks efnahagslífs væru traustar, hagkerfið sveigjanlegt, lífeyrissjóðakerfið sjálfbært og staðan í ríkisfjármálum einstaklega góð. Aukinn viðskiptahalli og erlend skuldasöfnun væru afleiðingar lántöku til arðbærra fjárfestingarverkefna, en ekki merki um erfiðleika í íslensku hagkerfi. Þrátt fyrir að erlendar lántökur íslensku bankanna hafi aukist hafi lánveitingar þeirra erlendis sem og erlendar eignir þeirra vaxið hratt. Hröð aðlögun á gengi íslensku krónunnar væri ekki ógn við fjármálastöðugleika hér á landi, þar sem áhættumat bankanna væri gott og þeir því ekki viðkvæmir fyrir sveiflum á genginu. Í