Blaðsíða:Dómur Landsdóms nr. 3-2011.pdf/13

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur ekki verið prófarkalesin

13 fjármálamarkaði, í fimmta lagi að tryggja samræmd vinnubrögð stofnananna við hugsanlegri kerfisáhættu á fjármálamarkaði og loks í sjötta lagi að stuðla að skilvirkni og öryggi greiðslu- og uppgjörskerfa. Í 2. grein samningsins var vísað til laga nr. 87/1998 og 36/2001 um hlutverk stofnananna og tekið fram að þær skyldu virða starfssvið hvorrar annarrar og leitast við að skilgreina á skýran hátt verksvið og ábyrgð hvorrar þegar hlutverk þeirra skarist. Í 3. grein var kveðið á um verkaskiptingu stofnananna vegna eftirlits með greiðslu- og uppgjörskerfum, en í niðurlagi greinarinnar sagði að þær skyldu hafa sameiginlega viðlagaáætlun vegna þessara kerfa. Í 4. grein samningsins var mælt fyrir um reglubundna fundi stofnananna, sem skyldu haldnir að lágmarki þrisvar á ári, en þar ætti meðal annars að fjalla um mat Seðlabanka Íslands á þróun rekstrarumhverfis fjármálafyrirtækja og áhrif hennar á afkomu þeirra og mat Fjármálaeftirlitsins á fjárhagsstöðu þeirra. Einnig var kveðið á um að sérfræðingar innan seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, sem fjalli um vísbendingar um kerfisáhættu á fjármálamarkaði, skyldu funda ekki sjaldnar en þrisvar á ári. Þá skyldu seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið efna sameiginlega til viðlagaæfinga að jafnaði annað hvert ár. Í 5. grein samningsins sagði að aðilar hans væru „sammála um að aðgangur að upplýsingum sé nauðsynlegur til að þeir geti sinnt skyldum sínum samkvæmt lögum og samningi þessum“ og skyldu þeir hafa samráð um öflun reglulegra upplýsinga um fyrirtæki á fjármálamarkaði. Í fylgiskjali með samningnum yrði kveðið á um gagnasöfnun hvorrar stofnunar og hvaða upplýsingar hvor þeirra ætti að láta hinni í té, en slík skipti á upplýsingum skyldu fara fram svo fljótt, sem kostur væri eftir að þær lægju fyrir, og aldrei síðar en einni viku frá þeim tíma. Í þessari grein sagði einnig eftirfarandi: „Leiði athuganir Fjármálaeftirlitsins í ljós grunsemdir um bresti á fjárhagslegri stöðu eftirlitsskyldra aðila sem eru í viðskiptum við Seðlabankann eða eru umsvifamiklir á markaði, eða alvarlega kerfislega hættu á fjármálamarkaði að öðru leyti, skal Fjármálaeftirlitið tafarlaust gera bankastjórn Seðlabankans viðvart. Leiði athuganir Seðlabankans í ljós grunsemdir um bresti í fjárhagslegri stöðu fyrirtækja á fjármálamarkaði eða alvarlega erfiðleika á fjármálamarkaði að öðru leyti, skal Seðlabankinn tafarlaust gera forstjóra Fjármálaeftirlitsins viðvart. Í þessum tilvikum bregðast forstjóri Fjármálaeftirlitsins og bankastjórn Seðlabankans við í samræmi við innri reglur hvorrar stofnunar. ... Samningsaðilar skulu veita hvor öðrum fullan aðgang að gögnum sem þeir varðveita og nýtast í starfsemi hlutaðeigandi skv. 2. gr.“ Í 6. grein samningsins voru fyrirmæli um setningu reglna, en í 7. grein um samstarf um aðgerðir. Þar sagði meðal annars að