Blaðsíða:Dómur Landsdóms nr. 3-2011.pdf/16

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur ekki verið prófarkalesin

16 hlutfall vanskila væri enn lágt og yrði því að fylgjast vel með gæðum trygginga. Bönkunum gæti einnig stafað hætta af vaxandi erlendum lánum til heimila. Álagspróf Fjármálaeftirlitsins gæfu til kynna að bankarnir hefðu nægilega sterka eiginfjárstöðu til að „standast samspil óvenjumikilla lána- og markaðsskella“, en þau gætu þó „vanmetið óbein áhrif slíkra áfalla.“ Því yrði að endurbæta álagsprófin. Í ljósi mikils vaxtar fjármálafyrirtækja hafi sendinefndin fagnað eflingu Fjármálaeftirlitsins. Í viðbrögðum Seðlabanka Íslands 15. ágúst 2007 við áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var meðal annars vísað til þess að íslenska bankakerfið hafi vaxið með undraverðum hætti á undanförnum árum og þáttur þess í vergri landsframleiðslu nánast tvöfaldast á áratug. Áhersla hafi verið lögð á aukna starfsemi erlendis vegna takmarkaðra kosta á vexti hér á landi, en stóru bankarnir þrír hafi aflað um helmings tekna sinna erlendis. Þeir hafi komist yfir erfiðleika, sem tengst hafi öflun lánsfjár á árinu 2006, og bætt úr tilteknum annmörkum. Lausafjárstaða þeirra væri þó enn athugunarefni, einkum ef ytri aðstæður færðust á verri veg. Við þessu hafi bankarnir brugðist með því að auka fjölbreytni í lánsfjáröflun og lengja lánstíma að meðaltali í fjögur til fimm ár. Eftir aðvörunina, sem fengist hafi 2006, væru bankarnir betur settir til að mæta yfirstandandi erfiðleikum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þá birti Seðlabanki Íslands tilkynningu 21. ágúst 2007 um að matsfyrirtækið Moody´s Investors Service hafi staðfest fyrri lánshæfiseinkunnir íslenska ríkisins, sem voru í hæstu flokkum, og talið horfur stöðugar. Landsbanki Íslands hf. tilkynnti Fjármálaeftirlitinu 6. september 2007 að hann hygðist hefja viðtöku innlána í útibúi sínu í Amsterdam og óskaði eftir að þetta yrði tilkynnt eftirlitsstofnunum í Hollandi. Þessu kom Fjármálaeftirlitið á framfæri við seðlabanka Hollands og greindi jafnframt frá því að Landsbanki Íslands hf. ætti hlut að Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta hér á landi, en reglur um hann væru reistar á reglum Evrópusambandsins um það efni. Í stefnuræðu, sem ákærði flutti á Alþingi 2. október 2007, gerði hann meðal annars að umtalsefni að þensla undanfarinna ára væri á undanhaldi og framundan væri tímabil stöðugleika og jafnvægis í þjóðarbúskap, þótt hagvöxtur kynni að verða minni um hríð. Af þeim sökum væri mikilvægt að „skapa íslenskum fyrirtækjum þann grundvöll að þau sjái sér hag í að vera með höfuðstöðvar á Íslandi“, en þar vegi þungt „skattalegt ... og almennt rekstrarlegt umhverfi“. Þá gat ákærði þess einnig að íslenskur fjármálamarkaður hafi „stækkað og eflst verulega á undanförnum árum“ og skipti sífellt meira máli í þjóðhagslegu samhengi, enda hafi verið áætlað að hlutdeild