Blaðsíða:Dómur Landsdóms nr. 3-2011.pdf/19

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur ekki verið prófarkalesin

19 mörgu leyti úreltar og á skjön við ... flestar efnahagsspár sem hafa birst að undanförnu. Þær gera allar ráð fyrir því að viðskiptahallinn fari hratt minnkandi og verðbólgan sömuleiðis. Jafnframt eru horfur á að hagvöxtur verði minni en verið hefur og þannig dragi úr þenslunni. ... Loks er rétt að benda á að endurskoðaðar áætlanir sýna að staða ríkisfjármála bæði í ár og á næsta ári er sterkari en áður var talið og aðhaldsstig þeirra í hagstjórninni því meira en ella ... Það má minna á að S&P hafa áður verið neikvæðir í sinni umfjöllun um Ísland og sett fram hrakspár og fullyrðingar sem síðan hafa ekki staðist og þeir orðið að draga í land með.“ Samkvæmt minnisblaði, sem alþjóða- og markaðssvið Seðlabanka Íslands sendi til bankastjórnar 30. nóvember 2007, höfðu sérfræðingar frá matsfyrirtækinu Moody´s Investors Service verið staddir á landinu 27. og 28. sama mánaðar í tilefni af fyrrgreindri breytingu Standard & Poor’s Financial Services á horfum um lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins. Í minnisblaðinu sagði meðal annars að þessir sérfræðingar hafi ekki virst „hafa of miklar áhyggjur af harðri lendingu hagkerfisins“, sem hafi gengið gegnum ýmsar sveiflur og sýnt mikla aðlögunarhæfni. Sérfræðingarnir hafi á hinn bóginn haft „þó nokkrar áhyggjur af fjármálakerfinu og áhrifum frá lausafjárkreppunni ... á alþjóðlegum fjármálamörkuðum“ og mikinn áhuga á því hvernig stjórnvöld myndu bregðast við ef einn eða fleiri bankar þyrftu á aðstoð að halda og hvort þau hefðu „yfirhöfuð getu til íhlutunar.“ Matsfyrirtækið hafi um árabil „talið að stjórnvöld hefðu getu til þess að koma til aðstoðar en núna séu fulltrúar fyrirtækisins farnir að efast um það ekki síst í ljósi stærðar bankakerfisins og mikillar starfsemi erlendis.“ Þessi skoðun væri farin að hafa meira vægi innan fyrirtækisins „sérstaklega í ljósi þeirra mistaka sem áttu sér stað þegar bankasérfræðingar Moody´s hækkuðu lánshæfiseinkunn íslensku bankanna í Aaa og þurftu síðan að lækka hana fljótlega aftur.“ Þá sagði jafnframt að lausafjárstaða bankanna hafi verið ofarlega á baugi í viðræðum sérfræðinganna við starfsmenn Glitnis banka hf. og Landsbanka Íslands hf., en um stöðu þess fyrrnefnda var þess getið að komið hafi í ljós að fjárhagur hans og lausafjárstaða væri traust. Af dagskrá vegna heimsóknar þessara sérfræðinga, sem fylgdi minnisblaðinu, verður séð að þeir hafi meðal annars átt fund með ákærða og ráðuneytisstjóranum í forsætisráðuneytinu. Í framlagðri blaðagrein eftir ákærða, sem birt var í árslok 2007, sagði meðal annars að ekkert benti þá til sérstakra efnahagslegra áfalla, en ætíð væri hyggilegra að vera því viðbúinn að „jákvæð þróun geti snúist á verri veg.“ Sviptingar á mörkuðum