Blaðsíða:Dómur Landsdóms nr. 3-2011.pdf/24

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur ekki verið prófarkalesin

24 ríkisins væru á krossgötum. Að mati fyrirtækisins kæmi Ísland vel út í samanburði við mörg önnur þróuð iðnríki með sömu lánshæfiseinkunn, en á móti kæmi að íslenska ríkið kynni að vera berskjaldað gagnvart bresti á trúverðugleika „vegna mikilla alþjóðlegra umsvifa stórra íslenskra viðskiptabanka.“ Mjög skuldsett hagkerfi hér á landi hafi ekki farið varhluta af aðstæðum á fjármálamörkuðum og hafi áframhaldandi alþjóðlegur vöxtur bankakerfisins leitt til þess að „ófyrirséðar fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins hafa vaxið upp fyrir það sem æskilegt ... getur talist.“ Líklegt væri að íslensk stjórnvöld gætu mætt lausafjárskorti, varið innstæðueigendur og forðast greiðsluþrengingar, jafnvel við sérstaklega erfið skilyrði, en vöxtur erlendra skuldbindinga bankakerfisins gæti reynt á getu stjórnvalda til að gera þetta á þann hátt, sem samrýmst gæti lánshæfiseinkunn ríkisins. Í tilefni af framangreindu mati Moody´s Investors Service gerði Ingimundur Friðriksson samdægurs minnisblað, sem sent var meðal annars til ráðuneytisstjóranna í forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Í því sagði að álit fyrirtækisins væri ágætt og á vissan hátt jákvætt, en þar væru skýrðar helstu forsendur þess að íslenska ríkið hefði enn hæstu lánshæfiseinkunn. Í álitinu kæmi fram að „fjárhagsgrunnur bankanna sé heilbrigður, þeir hafi nægt lausafé og betri samsetningu lánsfjármögnunar en áður.“ Fyrirtækið vekti athygli á hve næmt Ísland væri fyrir breytingum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, en landið hefði góða burði til að takast á við slíkt, auk þess sem ríkið gæti mætt hugsanlegum áföllum í fjármálakerfinu án þess að lánshæfismat þess myndi skerðast. Fyrirtækið hefði á hinn bóginn áhyggjur af miklum erlendum skuldum, sem tengdust útrás bankanna, og teldi að frekari skuldsetningu þeirra yrðu að fylgja aðgerðir ríkisins til að koma í veg fyrir að lánshæfiseinkunnir þess lækki. Fyrirtækið hafi gert „tvö sérstök próf eða greiningar, annars vegar um laust fé og hins vegar skuldir. Í báðum tilfellum stenst Ísland prófið sem ríki með hæstu mögulega lánshæfiseinkunn.“ Ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu framsendi þetta minnisblað með tölvubréfi til ákærða, sem svaraði um hæl með orðunum: „OK, þetta er ágætt svo langt sem það nær.“ Umræður urðu á Alþingi 29. janúar 2008 í tilefni af mati Moody´s Investors Service. Þar kvað ákærði matið „mjög jákvætt hvað varðar efnahagsstöðuna á Íslandi“ og leiddi getum að því að það hafi verið birt vegna þess að „þeir telja að þeir þurfi sérstaklega að rökstyðja að þeir hafi gefið ríkissjóði Íslands hæstu lánshæfiseinkunn“. Yrði að leiðrétta það, sem komið hafi fram í fréttum, að fyrirtækið teldi best að bankarnir flyttu úr landi, en á hinn bóginn væri vissulega rétt að „sú óbeina ábyrgð