Blaðsíða:Dómur Landsdóms nr. 3-2011.pdf/26

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

væri það stjórnenda hans og eigenda að leysa þau, en „opinberir aðilar“, þar á meðal seðlabankinn, kynnu að þurfa að hlutast til um að svo yrði gert. Gagnstætt þessu gæti þjóðnýting einnig komið til álita, en hún „væri neyðarúrræði því þá skapast sú hætta að ef fjármögnun tekst ekki þá væri lánstraust þjóðarinnar í húfi.“ Í niðurlagi skýrslunnar var síðan ítrekað að það væri hlutverk stjórnenda og eigenda viðskiptabanka að leysa úr vanda hans og yrði ábyrgðarlaust „að gera út á mögulega aðstoð hins opinbera við banka.“ Reynslan af fjármálaáföllum í öðrum löndum sýndi samt að stjórnvöld yrðu að huga að viðbúnaði, því ef „til kastanna kemur getur lítill tími verið til að ígrunda skynsamlegustu viðbrögð við óvæntum aðstæðum og þá getur vandaður undirbúningur skipt sköpum.“

3

Framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja sendi tölvubréf til ákærða 4. febrúar 2008, þar sem sagði eftirfarandi: „Í viðhengi eru drög að minnisblaði á grunni þess sem við ræddum í síðustu viku. Þar sem umræða um stöðuna getur verið viðkvæm, viljum við kalla þetta drög. SFF eru reiðubúin að hitta þig og/eða aðra sem þú metur þörf á að ræða þetta mál við hvenær sem er á næstu dögum. Þá geri ég ráð fyrir að formaður SFF, Lárus, hringi í þig seinni partinn í dag.“ Drögin, sem fylgdu tölvubréfinu, virðast einnig hafa verið send í bréfi til ákærða sem „drög að minnisblaði til forsætisráðherra“, dagsett sama dag og merkt sem trúnaðarmál, en þau voru undirrituð af Lárusi Welding forstjóra Glitnis banka hf. Í upphafi minnisblaðsins sagði að tilefni þess væri áhyggjur „forystumanna í íslenskum fjármálageira af þeirri þröngu stöðu sem nú er að skapast í efnahagsmálum þjóðarinnar og þeim víðtæku áhrifum sem of hraður samdráttur gæti haft“. Aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefðu versnað á undanförnum mánuðum og gjörbreytt rekstrarforsendum íslenskra fyrirtækja, sem störfuðu á alþjóðamörkuðum. Þetta væri farið að setja mark sitt á starfsemi þeirra, meðal annars með því að kjör íslenskra banka hafi versnað og þeir brugðist við með því að draga úr útlánum. Þótt ástandið yrði væntanlega á ný orðið eðlilegt innan skamms væri „engu að síður nauðsynlegt að okkar mati að staldra við og styrkja innviðina til að lágmarka líkurnar á því að illa fari.“ Vísað var til þess að matsfyrirtækið Moody´s Investors Service hafi ákveðið að breyta horfum um lánshæfiseinkunnir tveggja íslenskra banka úr stöðugum í neikvæðar. Að auki hafi ríkið búið til óvenjulegar aðstæður með því að halda annars vegar úti banka, sem veiti fjármálafyrirtækjum landsins lán með 14% vöxtum, og hins vegar sjóði, sem veiti lán gegn „ríkisstyrktum 4,5% verðtryggðum vöxtum“ í