Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/12

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

6. gr.

Jafnræði.

Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

7. gr.

Réttur til lífs.

Allir hafa meðfæddan rétt til lífs.

8. gr.

Mannleg reisn.

Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hví­vetna.

9. gr.

Vernd réttinda.

Yfirvöldum ber ætíð að vernda borgarana gegn mannréttindabrotum, hvort heldur sem brot­in eru af völdum handhafa ríkisvalds eða annarra.

10. gr.

Mannhelgi.

Öllum skal tryggð mannhelgi og vernd gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan.

11. gr.

Friðhelgi einkalífs.

Friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu skal tryggð.

Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjöl­um og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerð­ingu á einkalífi manns.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einka­lífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

12. gr.

Réttur barna.

Öllum börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir í málum sem það varðar.

Barni skal tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem það varðar og skal tek­ið réttmætt tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.

13. gr.

Eignarréttur.

Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög. 10