Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/15

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

26. gr.

Dvalarréttur og ferðafrelsi.

Allir skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.

Engum verður meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómstóla. Stöðva má þó brott­för manns úr landi með lögmætri handtöku.

Með lögum skal kveða á um rétt flóttamanna og hælisleitenda til réttlátrar og skjótrar málsmeðferðar.

27. gr.

Frelsissvipting.

Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.

Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess.

Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er lið­inn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarð­haldi má aðeins beita fyrir sök sem fangelsisvist liggur við. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sæt­ir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæslu­varðhaldi lengur en nauðsyn krefur.

Hver sá sem af öðrum ástæðum en í tengslum við sakamál er sviptur frelsi á rétt á að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má. Reynist frelsissvipting ólögmæt skal hann þegar látinn laus.

Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.

28. gr.

Réttlát málsmeðferð.

Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól. Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum sam­kvæmt til að gæta allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila og vitna.

Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hef­ur verið sönnuð.

29. gr.

Bann við ómannúðlegri meðferð.

Í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu.

Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refs­ingu.

Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi.

30. gr.

Bann við afturvirkni refsingar.

Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsi­verð samkvæmt lögum þegar hún átti sér stað, eða má fullkomlega jafna til þeirrar hátt­semi.

Viðurlög mega ekki verða þyngri en þá voru leyfð í lögum.

31. gr.

Bann við herskyldu.

Herskyldu má aldrei í lög leiða. 13