Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/19

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

50. gr.

Hagsmunaskráning og vanhæfi.

Alþingismanni er óheimilt að taka þátt í meðferð þingmáls sem varðar sérstaka og veru­lega hagsmuni hans eða honum nákominna. Um hæfi þingmanna skal mælt fyrir í lögum. Vanhæfi þingmanns hefur ekki áhrif á gildi settra laga.

Í lögum skal kveðið á um skyldu alþingismanna til að veita upplýsingar um fjárhagslega hags­muni sína.

51. gr.

Styrkir til frambjóðenda og samtaka þeirra.

Í lögum skal kveðið á um starfsemi stjórnmálasamtaka, svo og um fjármál frambjóðenda í því skyni að halda kostnaði í hófi, tryggja gegnsæi og takmarka auglýsingar í kosningabaráttu.

Upplýsingar um framlög yfir ákveðinni lágmarksupphæð skulu birtar jafnóðum sam­kvæmt nánari fyrirmælum í lögum.

52. gr.

Þingforseti.

Alþingi kýs sér forseta með 2/3 hlutum atkvæða í upphafi hvers kjörtímabils. Sitji forseti ekki út kjörtímabil skal sami háttur hafður á við kosningu nýs forseta.

Forseti stýrir störfum Alþingis. Hann ber ábyrgð á rekstri þingsins og hefur æðsta vald í stjórn­sýslu þess. Með forseta starfa varaforsetar sem eru staðgenglar hans og mynda ásamt hon­um forsætisnefnd. Um kosningu þeirra skal mælt fyrir í lögum.

Forseti Alþingis lætur af almennum þingstörfum og hefur ekki atkvæðisrétt. Varamaður hans tekur sæti á þingi á meðan hann gegnir embættinu.

53. gr.

Þingsköp.

Þingsköp Alþingis skulu sett með lögum.

54. gr.

Þingnefndir.

Alþingi kýs fastanefndir til að fjalla um þingmál.

Um störf þingnefnda skal mælt fyrir í lögum.

55. gr.

Opnir fundir.

Fundir Alþingis eru haldnir í heyranda hljóði.

Þingnefnd getur ákveðið að fundur hennar sé opinn almenningi.

56. gr.

Flutningur þingmála.

Alþingismenn hafa rétt til að flytja frumvörp til laga, tillögur til ályktana og önnur þing­mál.

Ráðherrar geta lagt fyrir Alþingi frumvörp til laga og tillögur til ályktana sem ríkisstjórn hefur samþykkt.

57. gr.

Meðferð lagafrumvarpa.

Frumvörp alþingismanna og ríkisstjórnar eru tekin til athugunar og meðferðar í þing­nefndum áður en þau eru rædd á Alþingi. Sama á við um þingmál að tillögu kjósenda.

Mat á áhrifum lagasetningar skal fylgja frumvörpum samkvæmt nánari ákvæðum í lög­um.

Lagafrumvarp má ekki samþykkja fyrr en eftir minnst tvær umræður á Alþingi.

Frumvörp sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok kjörtímabils. 17