Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/20

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

58. gr.

Meðferð þingsályktunartillagna og annarra þingmála.

Þingsályktunartillögur ríkisstjórnar eru teknar til athugunar og meðferðar í þingnefndum áð­ur en þær eru ræddar á Alþingi.

Tillögu til þingsályktunar má ekki samþykkja fyrr en eftir tvær umræður á Alþingi.

Tillögur til þingsályktana sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok lög­gjaf­ar­ þings.

Tillögur um þingrof eða vantraust á ráðherra eru ræddar og afgreiddar við eina umræðu.

Að öðru leyti skal kveðið á um meðferð þingmála í lögum.

59. gr.

Ályktunarbærni.

Alþingi getur því aðeins gert samþykkt um mál að meira en helmingur þingmanna sé á fundi og taki þátt í atkvæðagreiðslu.

60. gr.

Staðfesting laga.

Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til laga undirritar forseti Alþingis það og leggur inn­an tveggja vikna fyrir forseta Íslands til staðfestingar, og veitir undirskrift hans því laga­gildi.

Forseti Íslands getur ákveðið innan viku frá móttöku frumvarps að synja því staðfestingar.

Skal sú ákvörðun vera rökstudd og tilkynnt forseta Alþingis. Frumvarpið fær þá engu að síður laga­gildi, en innan þriggja mánaða skal bera lögin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjun­ar. Einfaldur meirihluti ræður hvort lögin halda gildi sínu. Atkvæðagreiðsla fer þó ekki fram felli Alþingi lögin úr gildi innan fimm daga frá synjun forseta. Um framkvæmd þjóð­aratkvæða­greiðslu skal að öðru leyti mælt fyrir í lögum.

61. gr.

Birting laga.

Birta skal lög, stjórnvaldsfyrirmæli og þjóðréttarsamninga sem ríkið hefur fullgilt. Lögum og stjórnvaldsfyrirmælum má aldrei beita með íþyngjandi hætti fyrr en eftir birtingu þeirra.

Um birtingarhátt og gildistöku fer að landslögum.

62. gr.

Lögrétta.

Alþingi kýs í Lögréttu fimm menn til fimm ára.

Þingnefnd eða 1/5 hluti alþingismanna getur óskað eftir áliti Lögréttu um hvort frumvarp til laga samrýmist stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins. Ekki má afgreiða frum­varpið fyrr en álit Lögréttu liggur fyrir.

Um störf Lögréttu skal mælt fyrir í lögum.

63. gr.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kannar hvers kyns athafnir og ákvarðanir ráð­herra eða stjórnsýslu þeirra eftir því sem hún telur efni til. Nefndinni er skylt að hefja slíka könn­un að kröfu þriðjungs þingmanna.

64. gr.

Rannsóknarnefndir.

Alþingi getur skipað nefndir til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða.

Nánari reglur um hlutverk, rannsóknarheimildir og skipan rannsóknarnefnda skulu settar með lögum. 18