Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/21

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

65. gr.

Málskot til þjóðarinnar.

Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt.

Kröf­una ber að leggja fram innan þriggja mánaða frá samþykkt laganna. Lögin falla úr gildi ef kjós­endur hafna þeim, en annars halda þau gildi sínu. Alþingi getur þó ákveðið að fella lögin úr gildi áður en til þjóðaratkvæðis kemur.

Þjóðaratkvæðagreiðslan skal fara fram innan árs frá því að krafa kjósenda var lögð fram.

66. gr.

Þingmál að frumkvæði kjósenda.

Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.

Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagn­tillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði, svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóð­aratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.

Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því mál­ið hefur verið afhent Alþingi.

67. gr.

Framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt ákvæð­um 65. og 66. gr. skal varða almannahag. Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóð­rétt­arskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. Þess skal gætt að frum­varp að tillögu kjósenda samrýmist stjórnarskrá. Rísi ágreiningur um hvort mál uppfylli fram­angreind skilyrði skera dómstólar þar úr.

Í lögum skal kveðið á um framkvæmd málskots eða frumkvæðis kjósenda, svo sem um form og fyrirsvar fyrir kröfunni, tímalengd til söfnunar undirskrifta og um fyrirkomulag þeirra, hverju megi til kosta við kynningu, hvernig afturkalla megi kröfuna að fengnum viðbrögðum Al­þingis, svo og um hvernig haga skuli atkvæðagreiðslu.

68. gr.

Frumvarp til fjárlaga.

Fyrir hvert reglulegt Alþingi skal, þegar það er saman komið, leggja frumvarp til fjárlaga fyr­ir það fjárhagsár sem í hönd fer. Skal í frumvarpinu vera fólgin greinargerð um tekjur rík­is­ins og gjöld eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.

69. gr.

Greiðsluheimildir.

Enga greiðslu má inna af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum.

Að fengnu samþykki fjárlaganefndar Alþingis getur fjármálaráðherra þó innt greiðslu af hendi án slíkrar heimildar, til að mæta greiðsluskyldu ríkisins vegna ófyrirséðra atvika eða ef al­mannahagsmunir krefjast þess. Leita skal heimildar fyrir slíkum greiðslum í fjár­aukalögum.

70. gr.

Réttur fjárlaganefndar til upplýsinga.

Fjárlaganefnd Alþingis getur krafið stofnanir ríkisins, ríkisfyrirtæki og þá aðra sem fá fram­lög úr ríkissjóði, um upplýsingar sem tengjast ráðstöfun þess fjár. 19