Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/27

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

104. gr.

Ákæruvald og ríkissaksóknari.

Skipan ákæruvaldsins skal ákveðin með lögum.

Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvaldsins. Hann skal í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögum.

Ráðherra skipar ríkissaksóknara og veitir honum lausn. Ríkissaksóknari er sjálfstæður í störfum sínum og nýtur sömu verndar í starfi og dómarar.

VII. KAFLI

Sveitarfélög.

105. gr.

Sjálfstæði sveitarfélaga.

Sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.

Sveitarfélög skulu hafa nægilega burði og tekjur til að sinna lögbundnum verkefnum.

Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir.

106. gr.

Nálægðarregla.

Á hendi sveitarfélaga, eða samtaka í umboði þeirra, eru þeir þættir opinberrar þjónustu sem best þykir fyrir komið í héraði svo sem nánar skal kveðið á um í lögum.

107. gr.

Kosning sveitarstjórna og íbúalýðræði.

Sveitarfélögum er stjórnað af sveitarstjórnum sem starfa í umboði íbúa og eru kjörnar í almennum, leynilegum kosningum. Rétti íbúa sveitarfélags til þess að óska eftir atkvæðagreiðslu um málefni þess skal skipað með lögum.

108. gr.

Samráðsskylda.

Samráð skal haft við sveitarstjórnir og samtök þeirra við undirbúning lagasetningar sem varðar málefni sveitarfélaga.

VIII. KAFLI

Utanríkismál.

109. gr.

Meðferð utanríkismála.

Utanríkisstefna og almennt fyrirsvar ríkisins á því sviði er á hendi ráðherra í umboði og und­ir eftirliti Alþingis.

Ráðherrum er skylt að veita utanríkismálanefnd Alþingis upplýsingar um utanríkis- og varn­armál. Ráðherra skal hafa samráð við nefndina áður en ákvörðun er tekin um mikilvæg utan­ríkismál.

Ákvörðun um stuðning við aðgerðir sem fela í sér beitingu vopnavalds, aðrar en þær sem Ís­land er skuldbundið af samkvæmt þjóðarétti, skal háð samþykki Alþingis. 25