Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/30

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan; lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga; framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála og umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda. Jafnframt var tekið fram að ráðinu væri heimilt að taka fleiri atriði til umfjöllunar í starfi sínu. Meðal fulltrúa í Stjórnlagaráði kom strax í upphafi fram mikill vilji til að taka mannréttindakaflann til endurskoðunar og jafnframt var ákveðið að taka fyrir nokkur önnur efni en þau sem voru nefnd sérstaklega í þingsályktuninni en hafði verið fjallað um í skýrslu stjórnlaganefndar, s.s. stöðu þjóðkirkjunnar og sveitarfélaga. Litið hefur verið á skýrsluna sem góðan grundvöll að byggja á en ekki bindandi fyrirmæli eða valkosti.

III. Vinnutilhögun.

Fyrsta verkefni Stjórnlagaráðs var að kjósa sér formann og varaformann og ganga frá starfsreglum ráðsins. Formaður var kjörin Salvör Nordal og varaformaður Ari Teitsson. Samkvæmt starfsreglum sem samþykktar voru á 3. fundi var ráðsfundur æðsta vald Stjórnlagaráðs og stýrði formaður þeim og varaformaður í hans fjarveru. Ráðsfundir urðu 19 talsins.

Á 5. fundi Stjórnlagaráðs, 19. apríl 2011, var málefnum skipt á milli þriggja nefnda og kosnir formenn og varaformenn fyrir hverja nefnd. Að lokinni kosningu nefndaformanna var stjórn Stjórnlagaráðs fullskipuð. Meginverkefni stjórnar var að skipuleggja og stýra starfi ráðsins og í því skyni voru haldnir 28 stjórnarfundir. Aðallögfræðingur Stjórnlagaráðs Sif Guðjónsdóttir var ritari stjórnar og Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri Stjórnlagaráðs starfaði fyrir stjórn og sat alla stjórnarfundi.

Undirbúningur að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga miðaðist í fyrstu við svokallað áfangaskjal sem aðgengilegt var á vefsíðu Stjórnlagaráðs. Vinnutilhögun var á þá leið að í kjölfar nefndarfunda í hverri viku kynntu nefndirnar tillögur sínar á fundum með öðrum fulltrúum og þar á eftir á opnum ráðsfundi. Í kjölfar kynningar gátu tillögurnar tekið breytingum, með hliðsjón af erindum, umsögnum fræðimanna og stofnana, umræðna í nefndum og ráði og á vefsíðu Stjórnlagaráðs. Að lokinni kynningu og frekari vinnslu eftir atvikum voru tillögur aftur lagðar fram á ráðsfundi til samþykktar inn í áfangaskjalið. Á þennan hátt mótuðust tillögurnar smám saman í samræðum milli fulltrúa ráðsins innbyrðis og í samræðum við almenning. Úr áfangaskjalinu voru síðan unnin drög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og það afgreitt eftir tvær umræður í ráðinu, með atkvæðagreiðslum um hvert ákvæði og breytingartillögur við það.

Verkefnanefnd A

Formaður A-nefndar var kjörin Silja Bára Ómarsdóttir og Örn Bárður Jónsson varaformaður. Auk þeirra tóku þar sæti þau Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir, Freyja Haraldsdóttir, Illugi Jökulsson, Katrín Oddsdóttir og Þorvaldur Gylfason. Ritari nefndarinnar var Andrés Ingi Jónsson.

Nefndin fjallaði um grunngildi, ríkisborgararétt og þjóðtungu, uppbyggingu og kaflaskipan stjórnarskrárinnar, náttúruauðlindir, umhverfismál og mannréttindi, þ.á m. þjóðkirkjuna.

Haldnir voru 43 fundir og lagðar fram tillögur að 31 grein í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, auk einnar í utanríkismálakafla. Nefndinni bárust 167 erindi, sem voru tekin fyrir og rædd á fundum.

Tillögur A-nefndar voru sendar til umsagnar sérfræðinga, ráðuneyta og stofnana á ýmsum tímapunktum og skiluðu sjö þeirra formlegum minnisblöðum, sem birtust á heimasíðu 28