Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/33

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

IV. Meginefni.

Leiðarstefin sem Stjórnlagaráð hefur haft í störfum sínum eru einkum þrjú: Valddreifing, gegnsæi og ábyrgð. Leitast hefur verið við að auka valddreifingu með skýrari aðgreiningu valdhafanna þriggja. Auk þess er kveðið á um aukna þátttöku almennings að ákvörðunum sem mun einnig leiða til aukinnar valddreifingar. Með áherslu á aukið gegnsæi og upplýsingaskyldu opinberra aðila er leitast við að tryggja mun betur rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Þá er réttur fjölmiðla settur í stjórnarskrá og aukin vernd upplýsinga. Við endurskoðun á valdþáttum og valdmörkum ríkisins hefur verið lögð áhersla á að öllu valdi fylgi ábyrgð.

Frumvarp Stjórnlagaráðs felur í sér heildarendurskoðun á núgildandi stjórnarskrá og fjölgar greinum umtalsvert, úr 81 í 114. Auk aðfaraorða skiptist frumvarpið í níu kafla, um undirstöður, mannréttindi og náttúru, Alþingi, forseta Íslands, ráðherra og ríkisstjórn, dómsvald, sveitarfélög, utanríkismál og lokaákvæði. Lögð er áhersla á skýra framsetningu, bæði málfar og uppbyggingu.

Ákvæði um mannréttindi hafa verið endurskoðuð, færð framar og um þau fjallað í kafla með yfirskriftinni Mannréttindi og náttúra. Leitast er við að tryggja betur rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum og ákvæði færð til nútímahorfs. Jafnræðisreglan er ítarlegri en í núgildandi stjórnarskrá og sérstaklega kveðið á um að öllum skuli tryggður réttur til að lifa með reisn. Kveðið er á um að öllum börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefjist. Í samræmi við markmið ráðsins um aukið gegnsæi er upplýsingaskylda opinberra aðila stjórnarskrárbundin. Réttur fjölmiðla er nýmæli í stjórnarskrá og tjáningarfrelsi er veitt aukin vernd.

Meðal fleiri nýmæla eru ákvæði um náttúru Íslands, umhverfi og auðlindir. Auðlindir sem ekki eru í einkaeigu eru samkvæmt þeim sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Þá er lagt til nýtt ákvæði þess efnis að stjórnvöldum beri að upplýsa almenning um ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á.

Megineinkenni núgildandi stjórnskipulags eru óbreytt. Stjórnarform landsins er lýðveldi, haldið er í þingræðisskipan og áfram byggt á þrígreiningu ríkisvaldsins.

Við endurskoðun á meðferð löggjafar- og framkvæmdarvalds er lögð áhersla lögð á að dreifa valdi og auka aðgreiningu. Margar breytingar eru gerðar sem hafa í för með sér bætt löggjafar starf Alþingis. Eftirlits- og fjárstjórnarhlutverk þingsins er eflt til muna og mörg nýmæli þess efnis að finna í kafla um Alþingi. Leitast er við að efla samráð á milli meiri- og minnihluta á þingi, meðal annars með því að gera kröfu um samþykki aukins meirihluta þingmanna, svo sem við kosningu forseta Alþingis. Stofnað er til svokallaðrar Lögréttu, sem hefur það hlutverk að skoða hvort lög standist stjórnarskrá.

Ýmis nýmæli eru í frumvarpinu sem tryggja eiga rétt almennings til lýðræðislegrar þátttöku í ákvörðunum. Samkvæmt frumvarpinu geta tíu af hundraði kjósenda krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt og tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi. Með þessum breytingum mun Ísland vera meðal þeirra þjóða sem tryggir sem best rétt almennings til þátttöku í opinberum ákvörðunum. Beint lýðræði er þannig aukið til muna.

Kosningakerfið er tekið til heildarendurskoðunar. Fram kemur að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vegi jafnt. Kveðið er á um að kjósandi geti með persónukjöri valið frambjóðendur þvert á lista en heimilt sé að mæla fyrir um í lögum að valið sé einskorðað við kjördæmislista eða landslista sömu samtaka. Kjördæmi skuli vera eitt til átta.

Forseti Íslands skal ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil samkvæmt frumvarpinu og enginn ráðherra getur gegnt sama embættinu lengur en í átta ár. Markmið þess er meðal annars að 31