Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/34

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

koma í veg fyrir valdþreytu og stöðnun. Þá kýs Alþingi sér forsætisráðherra í kjölfar þingkosninga og með því er tekið upp svokallað jákvætt þingræði. Komi fram vantrauststillaga á forsætisráðherra þarf henni að fylgja tillaga um eftirmann hans. Í þessu felst svokallað jákvætt, eða uppbyggjandi vantraust. Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embættinu og varamaður tekur þingsæti hans. Ákvæði um ráðherra og ríkisstjórn eru mun ítarlegri en nú er og kveðið er á um að ríkisstjórn taki sameiginlega ákvörðun í mikilvægum og stefnumarkandi málum. Í þessu felst að ríkisstjórn verður fjölskipað stjórnvald við tilteknar aðstæður. Mælt er fyrir um upplýsingaog sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi, þingnefndum og þingmönnum. Ákvæði um embættisveitingar hafa verið endurskoðuð og stjórnarskrárbundið að hæfni og málefnaleg sjónarmið skuli ráða við embættisveitingar.

Kafli um dómstóla hefur verið endurskoðaður og Hæstiréttur Íslands skilgreindur sem æðsti dómstóll ríkisins. Nánar er kveðið á um lögsögu dómstóla, skipan dómara og sjálfstæði þeirra í frumvarpinu.

Málefni sveitarfélaga eru til umfjöllunar í sérstökum kafla. Áhersla er lögð á aukna sjálfstjórn sveitarfélaga og kveðið á um svokallaða nálægðarreglu. Í henni felst að þeir þættir opinberrar þjónustu sem þykja best fyrir komið í héraði skuli vera á hendi sveitarfélaga eða samtaka í umboði þeirra. Loks skal haft samráð við sveitarstjórnir og samtök þeirra við undirbúning lagasetningar sem varðar málefni sveitarfélaga.

Um utanríkismál er fjallað í sérstökum kafla frumvarpsins. Þar er kveðið á um meðferð utanríkismála með skýrari hætti en áður, þar á meðal stöðu forseta og hlutverk Alþingis við töku ákvarðana um þjóðréttarsamninga og utanríkismál. Frumvarpið felur í sér heimild til framsals ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu, en þó ávallt með afturkræfum hætti. Samþykki Alþingi fullgildingu slíks samnings skal ákvörðunin borin undir bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, til samþykktar eða synjunar. Þá er kveðið á um að ákvörðun um stuðning við aðgerðir sem fela í sér beitingu vopnavalds, aðrar en þær sem Ísland er skuldbundið af samkvæmt þjóðarétti, skuli háð samþykki Alþingis. 32