Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/40

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

mannréttindasáttmála Evrópu. Í vinnu Stjórnlagaráðs var mikil áhersla lögð á að tryggja réttindi almennings gagnvart hinu opinbera, en með þessari grein er ætlunin að tryggja einnig að til verði skyldur sem hverjum og einum ber að rækja í samfélaginu og þá einkum að virða lög og réttindi annarra.[1] Drög að færeysku stjórnarskránni voru einnig höfð til fyrirmyndar þessa ákvæðis, en þar segir:

§ 5. Øll skulu virða hesa skipan og tær lógir, skyldur og rættindi, sum verða til í samsvari við hana.
Stk. 2. Øll eiga at virða landsins arv og tilfeingi eins og rættindi hjá øðrum.

Í tillögu Stjórnlagaráðs er mikil áhersla á réttindi borgaranna og þeim veitt aukin völd, m.a. með grein um þjóðarfrumkvæði og rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum. Í starfi ráðsins var lögð mikil áhersla á að tryggt væri að völd og ábyrgð færu saman. Greinin þykir því nauðsynleg til að tryggja að allir þeir sem stjórnarskrá þessi tekur til skapi þeim ekki einungis rétt heldur einnig skyldur til að rækja réttindi sín og virða bæði lög og réttindi annarra.

Í ráðinu var rætt hvort frekar ætti að staðsetja ákvæðið í mannréttindakaflanum um vernd réttinda þar sem fjallað er um svokallaða „Drittwirkung“, þ.e. þriðjamannsréttindi. Þó er hér kveðið á um skyldur borgaranna og því talið rétt að aðskilja umfjöllun um þessa tvo hluti.

Í 1. mgr. er kveðið á um skyldu stjórnvalda til að framfylgja þessari stjórnarskrá gagnvart borgurunum, einkum hvað varðar það að tryggja réttindi og frelsi sem stjórnarskráin veitir.

Í 2. mgr. er kveðið á um skyldu allra, borgara og lögaðila, til að virða lög og réttindi annarra, og þær skyldur sem stjórnarskráin leggur þeim sjálfum á hendur.

  1. Sigurður Líndal, fyrrverandi prófessor í lögum við Háskóla Íslands, lagði til að gengið yrði út frá frelsi manna og grundvallarréttindum sem vísum og sjálfsögðum en þess í stað leggja áherslu á skyldu manna og ákvæði þar um, sbr.: „Skylt er öllum að hlýða lögum landsins og taka á sig þær skyldur sem lög bjóða.“ Hann sagði að skylduákvæði væru almennt líkleg til að breyta áherslum og að þeim fylgdi viðhorfsbreyting. Sá sem gengst undir skyldurnar lýsir sig jafnframt reiðubúinn að bera ábyrgð. „Þegar svo báðir, þegn og valdhafi, hafa skyldurnar að leiðarljósi er líklegt að þeir sameinist um að halda í heiðri þær grundvallarreglur sem þjóðfélagið hlýtur að vera reist á. Skylduákvæðin minna þegna þjóðfélagsins á að frjáls maður gegnir skyldum, en klifar ekki í sífellu á réttindum sínum.“ Sjá Sigurð Líndal 1995:385-393.