Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/41

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

Um II. kafla.

Stjórnlagaráð ákvað á einum af sínum fyrstu fundum að endurskoðun mannréttindakafla stjórnarskrárinnar væri eitt þeirra meginverkefna sem ráðið vildi einbeita sér að. Þessi ákvörðun Stjórnlagaráðs byggðist m.a. á sterkri undiröldu á Þjóðfundi þar sem ýmis mannréttindamál voru fundargestum hugleikin. Margar þær áherslur sem liggja til grundvallar þessari endurskoðun mannréttindakaflans rekja rætur sínar til Þjóðfundar. Ýmsar nýjar greinar þessa kafla eru enn fremur reistar á tillögum í Skýrslu stjórnlaganefndar, t.d. um náttúruvernd, auðlindir og fjölmiðla. Eftir ábendingu stjórnlaganefndar var jafnframt ákveðið að færa mannréttindakaflann fremst í stjórnarskrána. Slík uppröðun er til þess fallin að endurspegla mikilvægi mannréttinda og þá grunnhugsun að öll meðferð ríkisvalds og starfsemi stofnana ríkisins sé bundin mannréttindum, enda komi valdið frá þjóðinni.

Í Skýrslu stjórnlaganefndar eru lagðar til mun umfangsminni breytingar á mannréttindakaflanum en Stjórnlagaráð leggur til að ráðist verði í. Þetta hefur sumum þótt til marks um að kaflinn þurfi lítilla endurbóta við, enda sé hann nýjasti heildstæði kafli stjórnarskrárinnar og hafi verið endurskoðaður árið 1995. Þó má lengi gott bæta, en einn nefndarmanna í stjórnlaganefnd skýrði frá því að ákvörðun skýrsluhöfunda hefði ekki síst helgast af tímaskorti nefndarinnar sem ákvað að einbeita sér heldur að öðrum málaflokkum, eldri hlutum stjórnarskrárinnar.[1] Ýmsir lögfræðingar hafa og lengi talað fyrir því að verulega þurfi að styrkja mannréttindakaflann. Ragnar Aðalsteinsson hrl. sagði strax árið 1995 að ekki væri nægjanlegt að tryggja eingöngu borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi í stjórnarskrá[2] og Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor hefur lýst þeirri skoðun sinni að efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum sé í heild sinni ábótavant í stjórnarskránni.[3]

Gjarnan er talað um kynslóðir mannréttinda og taldi tékkneski fræðimaðurinn Karel Vasak til þrjár kynslóðir árið 1977.[4] Í fyrstu kynslóð mannréttinda eru borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi mikilvægust og eru þau oft kölluð frelsisréttindi. Þeirra á meðal má telja tjáningarfrelsi, trúfrelsi og kosningarétt, sem og frelsi undan pyndingum. Þessi réttindi eru meðal mikilvægustu réttinda í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948. Efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi teljast til annarrar kynslóðar mannréttinda. Með þeim er lögð áhersla á réttindi ólíkra hópa borgara til sambærilegrar meðferðar og skilyrða til lífs. Til þessara réttinda teljast m.a. rétturinn til atvinnu og mannsæmandi vinnuskilyrða, húsnæðis, heilbrigðisþjónustu og æðri menntunar. Þessum réttindum er lýst í 22.–27. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og í alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Þriðja kynslóð mannréttinda er sennilega víðfeðmust. Þetta eru stundum kölluð hóparéttindi og eru þau öðruvísi en þau réttindi sem heyra til hinna kynslóðanna að því leyti til að þau leggja skyldur á herðar einstaklinga en ekki aðeins ríkisvaldsins. Til þessarar kynslóðar heyra t.d. réttur á þróun, friði, heilbrigðu umhverfi og jafnrétti kynslóðanna.

Telja má að vernd fyrstu kynslóðar frelsisréttinda sé ágætlega tryggð með núgildandi stjórnarskrá.

Við endurskoðun stjórnarskrárinnar árið 1995 voru ýmis efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi tryggð betur en áður var. Var þá m.a. litið til þróunar alþjóðlegra mannréttindasamninga og dómaframkvæmdar. Ekki var gengið svo langt að útfæra réttindin í hörgul heldur fór mestur þungi endurskoðunarinnar 1995 í borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Fannst ýmsum of skammt gengið með breytingunum og hafa sérfræðingar á sviði mannréttinda vakið máls á að útfæra þurfi mannréttindavernd með skýrari hætti í stjórnarskrá. Enn

  1. Sjá Skúla Magnússon 2011.
  2. Sjá Ragnar Aðalsteinsson 1995.
  3. Sjá Oddnýju Mjöll Arnardóttur 2011.
  4. Sjá Vasak 1977:10.

39