Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/43

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

í íslenskri stjórnarskrá en tillögur þess efnis að setja þau inn í stjórnarskrá hafa komið fram á Alþingi af og til síðastliðin 50 ár.

Í greininni um vernd náttúru og umhverfis er tekið fram að öll skulum við eiga rétt á heilnæmu umhverfi og er því auðvelt að færa rök að því að sú grein eigi heima í mannréttindakaflanum. Þar sem náttúra, umhverfi og auðlindir tengjast greinilega telur Stjórnlagaráð eðlilegt að halda þessum greinum saman þótt auðlindaákvæðið teljist ekki kveða á um mannréttindareglu í ströngum skilningi. Rétturinn til óskertra fiskimiða er hins vegar skyldur réttinum til heilnæms umhverfis og ójafn aðgangur getur falið í sér mannréttindabrot eins og álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um fiskveiðistjórnarkerfið á Íslandi, frá desember 2007, vitnar um.

Við umræður í Stjórnlagaráði kom fram mikill stuðningur við ákvæði sem þessi þótt ólík sjónarmið hafi verið uppi um inntak þeirra og réttaráhrif. Ákvæðunum er ætlað að stuðla að vernd viðkvæmrar náttúru landsins, skuldbinda ríki og einkaaðila til að nýta auðlindir – þegar þær eru nýttar – með sjónarmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Með sjálfbærri þróun er átt við að aðeins megi nýta auðlindir til að mæta þörfum samtímans að möguleikar komandi kynslóða til hins sama séu ekki skertir. Ætla má að þetta sé sveigjanleg meginregla sem útfæra þurfi í lögum.

Síðustu tvo áratugi hafa greinar sem vísa til umhverfis og náttúru birst í æ fleiri stjórnarskrám. Með þessum lokagreinum kaflans „Mannréttindi og náttúra“, telur Stjórnlagaráð fyrstu skref stigin í innleiðingu þriðjukynslóðarmannréttinda á Íslandi, þ.e. réttarins á heilbrigðu umhverfi og jafnrétti kynslóðanna. Að lokum skal það tekið fram að Stjórnlagaráð lítur svo á að skylda stjórnvalda felist jafnt í að virða, vernda og efla þau réttindi sem í kafla þessum felast.

Um 6. gr.

1. mgr. þessarar greinar er ítarlegri en samsvarandi ákvæði 65. gr. núgildandi stjórnarskrár. Í samræmi við tillögu stjórnlaganefndar er tveimur breytum bætt í upptalningu þeirra sem óheimilt er að mismuna út af. Það eru fötlun og kynhneigð. Mikil samstaða var í Stjórnlagaráði um þessi tvö hugtök. Jafnframt leggur Stjórnlagaráð til með frumvarpi þessu að þremur breytum verði enn fremur bætt við upptalninguna, arfgerð, stjórnmálatengslum og tungumáli. 2. mgr. er óbreytt frá núgildandi stjórnarskrá og leggur áherslu á að enn vantar upp á að jafna stöðu kynjanna. Markmið ákvæðisins er að undirstrika jafna stöðu allra landsmanna gagnvart lögum og skyldu stjórnvalda til að tryggja að allir njóti mannréttinda án Til að forða því að litið sé á innbyrðis röðun atriða á listanum sem einhvers konar forgangsröðun hefur þeim verið raðað í stafrófsröð. Þó er kynferði enn fremst í upptalningunni til að undirstrika hversu víðtæk sú mismunun er og í ljósi þess að kynferði er breyta sem gengur þvert á allar aðrar.

Arfgerð er hér bætt inn og er það nýlunda í stjórnarskránni og mögulega á heimsvísu. Brugðist er hér við innsendu erindi.[1] Er þar bent á að með auknum möguleikum á erfðaprófum, betri tækni og sífellt lægri kostnaði hafi farið fram mikil umræða um mikilvægi þess að tryggja að einstaklingum sé ekki mismunað vegna arfgerðar þeirra. Í Bandaríkjunum voru sett svokölluð GINAlög árið 2008. Þau miðast við að tryggja að ekki sé hægt að mismuna fólki um vinnu eða heilbrigðistryggingu byggt á niðurstöðum erfðaprófa. Ísland er framarlega í erfðafræðirannsóknum í heiminum og þjóðin hefur verið mikið rannsökuð erfðafræðilega. Á grundvelli þessa ákvæðis er hægt að setja lög sem hjálpa til að tryggja öryggi þeirra sem tekið hafa þátt

  1. Sjá erindi nr. 33184.

41