Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/44

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

í erfðafræðirannsóknum og að Íslendingar geti ótrauðir haldið áfram að taka óhræddir þátt í erfðarannsóknum sem eru forsenda árangurs í þessum efnum.

Stjórnmálatengsl eru einnig nýmæli. Ljóst er að fólki hefur verið mismunað vegna stjórnmálatengsla á Íslandi síðastliðin ár. Bæði hefur fólk þurft að gjalda fyrir og verið hyglt fyrir stjórnmálatengsl sín. Hugtakinu hér er ætlað að koma í veg fyrir bæði jákvæða og neikvæða mismunun á þessum grundvelli. Orðið „stjórnmálatengsl“ skal hér túlkað víðtækum skilningi.

Stjórnlagaráð telur að þrátt fyrir að stjórnmálatengsl hafi löngum verið talin til minni háttar vandamála hafi komið í ljós eftir efnahagshrunið 2008 að slík vandamál hafi í reynd verið meðal helstu meinsemda samfélagsins.

Að mati Stjórnlagaráðs valt aðgangur að ákvörðunum ríkisvaldsins, verkefnum á vegum stjórnvalda, fríðindum og hlunnindum alls konar, störfum og öðru þessu líku, í mun ríkari mæli á tengslum einstaklinga við stjórnmálamenn en landsmenn höfðu kosið að horfast í augu við. Dugar hér að vísa til Þjóðfundar en einnig margvíslegra niðurstaðna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis auk fregna í dagblöðum og öðrum fjölmiðlum. Stjórnlagaráð telur að mismunun á grundvelli stjórnmálatengsla hafi verið meira vandamál á Íslandi en mismunun á grundvelli ýmissa þeirra breytna annarra sem upp eru taldar í jafnréttisákvæði núgildandi stjórnarskrár. Ekki er talið nægjanlegt að banna mismunun á grundvelli stjórnmálaskoðana þar sem sú spilling sem þrifist hefur í landinu hefur ekki eingöngu snúist um flokkspólitískar skoðanir heldur ekki síður um vina- og ættartengsl, kunningsskap, þátttöku í margs konar félagsstarfi o.s.frv. Þá er vakin athygli á að bann við mismunun á grundvelli stjórnmálatengsla á bæði við um þau tilvik þar sem ráðamenn hygla vinum, ættingjum eða öðrum, sem og um þau tilvik þar sem skortur á stjórnmálatengslum hefur valdið því að menn sitja ekki við sama borð og aðrir á einhverju sviði í samskiptum sínum við stjórnvöld.

„Þjóðernisuppruni“ verður „uppruni“ og er með því ætlast til að túlkun verði rýmri en svo að uppruni vísi eingöngu til þjóðernis. Ákvæðinu er þó ætlað að ná áfram til þjóðernisuppruna.

Í upphafi starfs Stjórnlagaráðs var rætt um að taka hugtakið „kynþátt“ út, enda er hér um að ræða hugtak sem ekki hefur vísindalega (líffræðilega) merkingu. Var þeim sjónarmiðum þó haldið á lofti að kynþáttur væri félagslega mótað fyrirbæri (sbr. Critical Race Theory) og þótt líffræðilega væri e.t.v. ekki um mun á fólki að ræða, þá upplifði fólk í framkvæmd mismunun á þessum grundvelli. Þau sjónarmið urðu ofan á til skemmri tíma að engu að síður næðu hugtökin „litarháttur“, „uppruni“ og „arfgerð“ yfir öll þau atriði sem hér gætu leitt til mismununar. Sterk viðbrögð bárust við þessari ákvörðun og var m.a. bent á að innan Evrópunefndarinnar gegn kynþáttamisrétti, ECRI, hafi sama umræða farið fram en ávallt endað á því að fjarlægja ekki orðið þar sem það gæti veikt baráttuna gegn kynþáttahyggju og fordómum. Þar hafi jafnvel verið brugðið á það ráð að nota orðið kynþáttur innan gæsalappa.[1]

„Tungumáli“ hefur verið bætt inn. Í ljósi þess að sterkar raddir hafa verið á lofti um að setja íslenska tungu inn sem eitt af grunngildum í inngangsgrein að frumvarpi þessu þykir nauðsynlegt að nefna að bannað sé að mismuna fólki á grundvelli þessarar breytu. Í 2. gr. viðauka nr. 11 við mannréttindasáttmála Evrópu er tunga nefnd sem ein mismununarbreytan en hér er notað orðið „tungumál“. Í ljósi þess að íslenska og táknmál eru nú skilgreind sem opinber tungumál (sjá lög nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls) og annað málið er ekki talað með tungu þykir rétt að nota víðtækara orð.

Þessu ákvæði er ætlað að útiloka mismunun gagnvart fólki sem talar annað mál en íslensku eða aðra mállýsku en þá sem ráðandi er í samfélaginu hverju sinni. Fólki sem talar íslensku með hreim er gjarnan mismunað og það gert ósýnilegt í samfélaginu. Þannig er talað „um“

  1. Sjá erindi nr. 33626.

42