Þessi síða hefur verið prófarkalesin
101
Ólafur
- í ákafri geðshræring.
Loftur verðskuldar hvorki ást þína nje örvæntingu. Hann sökkvir sjer niður í gagnslausa hugarburði, og gleymir sjálfri tilverunni.
Steinunn
- jafn-raunamædd og áður.
Því var jeg ekki systir hans! Systur þykir vænt um bróður sinn, eigingirnislaust. Jeg skyldi hafa fylt herbergi hans af blómum. Nú er jeg honum byrði.
- Stendur upp. Það er eins og hún svari einhverju í ákafa.
Nei, jeg get það ekki.
Ólafur
Hvað geturðu ekki?
Steinunn
- þegir stundarkorn.
Jeg get ekki talað við hann oftar, því jeg veit, að hatrið eða ástin blinda mig.
- Þegir aftur.
Ólafur
- horfir á Steinunni, hann á í baráttu við sjálfan sig, nálgast hana nokkur fótmál, vill tala við hana.
Steinunn! Steinunn mín!