115
Dísa
- er staðin á fætur. Stendur andartak ráðþrota.
Hvað er það, sem þú hefur framið, og gerir þig svona örvæntingarfullan?
Loftur
- snýr sjer að henni. Talar að hálfu leyti við sjálfan sig.
Jeg skil það. Hann megnar ekki að fyrirgefa mjer. Í hinni eilífu baráttu milli góðs og ills, koma þær stundir, að mannsviljinn verður að standa einsamall.
Dísa
Þó að þú hafir drýgt einhverja synd, sem legst þungt á samvisku þína, máttu þó ekki örvænta. Jeg hef heyrt föður minn segja, að örvæntingin sje stærri synd en allar aðrar syndir. Að örvænta, það væri að efast um guðs almætti. Hver, sem iðrast af öllu hjarta, fær fyrirgefningu synda sinna.
Loftur
Jeg get ekki iðrast. Gæti jeg iðrast, stæði jeg þegar í forsælu fyrirgefningarinnar. Mjer er að eins ein leið fær. Jeg verð að halda lengra inn í dimmuna. Jeg verð að afla mjer svo mikillar þekkingar, að jeg geti náð því illa á mitt vald. Ef jeg þá get stilt mig um að óska nokkurn tíma nokkurs sjálfum mjer til handa, fæ jeg fyrirgefningu á dauðastundinni.