Fara í innihald

Blaðsíða:Galdra-Loftur (1915).djvu/121

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

117

Dísa

Geturðu hugsað þjer, að jeg nokkurn tíma gæti brugðist þjer? Þó jeg ætti að vinna það til, að yfirgefa föður minn og móður mína, myndi jeg fylgja þjer.

Strýkur honum um höfuðið.

Loftur! Mjer fanst jeg vera svo einmana, þetta ár, sem jeg var á meðal framandi fólks. Það gladdist svo sjaldan yfir því sama og jeg. Það voru bestu stundirnar mínar, þegar jeg fann blóm, sem þú hafðir kent mjer að þekkja. Þá fanst mjer, að jeg hefði þig hjá mjer, þó að fjöllin væru á milli okkar. Og þegar jeg bar blómin inn í herbergið mitt, greip mig alt af áköf heimþrá.

Loftur

stendur upp, strýkur hendurnar á henni.

Vatnið úr gruggugum brunni mundi verða tært í höndunum á þjer. Standir þú við hlið mjer, get jeg varist freistingum valdsins.

Sleppir henni.

Og ef við skyldum missa fótfestuna, þá lifum við saman í góðu og illu, eins og okkar eigin andi blæs okkur í brjóst. Jeg næ takmarkalausu valdi. Jeg get framlengt lífið. Og jeg get breytt okkur í dýr og blóm. Ef þú óskar, getum við lifað á meðan jörðin er við líði, í líki manna, dýra og blóma.

Dregur hana að sjer.