129
Loftur
- kemur inn. Treyjan er slitin upp. Hann gengur að grátunum, snýr baki að altarinu, beygir sig djúpt.
Þú, sem býrð í eilífa myrkrinu.
Jeg hrópa til þín í gegn um jörðina.
- Það verður dimt í kirkjunni. Hann er orðinn vitfirtur.
Gef mjer mátt þinn.
Íklæð mig krafti þínum.
Hreinsa af mjer öll góðverk.
Og ger hjarta mitt máttugt í hinu illa.
Glampi af eldingu leiftrar í gegnum kirkjuna. Það kviknar á kertunum. Gottskálk biskup grimmi stendur í prjedikunarstólnum, klæddur rauðum hökli, dálítið álútur. heldur á Rauðskinnu („Bók máttarins“) í framrjettum höndunum. Kuldi og mikilleiki dauðans er í svipnum. Beggja vegna við stólgaflana standa skrúðklæddir biskupar í röð. Þeir hafa allir mítur og fjólubláan hökul með gyltu krossmarki. Þeir standa grafkyrrir, eins og líkneski, og tala til skiftis. Þeir eru raddir samviskunnar.
Raddir samviskunnar
1.
Hver ert þú, sem atar þennan heilaga stað með girndaræði þínu?
2.
Þú ríst upp á móti þeim almáttuga, —