27
Loftur
- snýr sjer að henni.
Var það þetta, sem þú ætlaðir að segja mjer?
Steinunn
- svarar ekki spurningunni, gengur fast að honum.
Sjálfs þín vegna ættir þú að hvíla þig um stund frá bókalestrinum. Þú þarft ekki þar fyrir að sitja auðum höndum. Gaktu að vinnu með heimafólkinu. Þá hættir það að tala illa um þig. Og mjer væri það óumræðileg gleði, að heyra ljáinn syngja í höndunum á þjer.
Loftur
En þú? Hvað heldur þú um þetta?
Steinunn
Þú hefur breyst mikið, þennan tíma, sem við höfum þekst. Við mig ert þú orðinn eins og annar maður. Stundum þekki jeg þig varla. Jafnvel andlitið er breytt. Þegar þú mintist á dauðann áðan, hjelt jeg að þú værir veikur.
Loftur
- verður lævís á svipinn andartak, dettur í hug að hræða Steinunni, gleymir því í ákafanum.
Ef jeg vildi rjetta höndina út í myrkrið, veit jeg, að það yrði ekki árangurslaust. Hefur þú heyrt talað um Gottskálk biskup grimma og „Rauðskinnu“. Jeg kalla hana: „Bók máttarins“.