Þessi síða hefur verið prófarkalesin
29
Nei, þau orð vil jeg ekki muna.
- Gengur að stól, sest, tekur höndum fyrir andlitið og styður olnbogunum á hnjen.
Steinunn
- stendur grafkyr andartak, svo birtir yfir svipnum. Hún gengur til hans og krýpur fyrir framan hann.
Það er þess vegna, að þú hefur litið svo veikindalega út, eins og eitthvað sífeldlega amaði að þjer.
- Hálf-grátandi og hálf-brosandi.
Jeg var hrædd um, að það væri vegna mín.
- Stendur upp, strýkur á honum hárið.
Jeg hef unnað þjer svo heitt. Jeg skammast mín að segja frá því, en jeg hef óskað þess, að þú yrðir veikur, og jeg fengi að hjúkra þjer. Jeg skyldi hafa verið yfir þjer dag og nótt.
- Fórnar höndunum.
Þú trúir mjer ekki, en jeg hef grátið af hamingju.
- Lætur hendurnar hníga.
Jeg sá einu sinni engjareit, gráan af þurki, grænka á einni einustu nótt. Vott grasið grjet af gleði.
- Krýpur aftur á knje.
Við skulum berjast í sameiningu á móti valdi þess illa. Þegar jeg ferðast ein í myrkri, er jeg hrædd, en tvær manneskjur þurfa ekkert að óttast.