32
jeg sett hart á móti hörðu. Þú hefur lofað að bíða eftir mjer. Óvarkárni er ekki hugrekki.
Steinunn
- komin að gráti.
Ef þú sýndir mjer einhver vinarhót. — Þú hefur ekki kyst mig einn koss.
Loftur
Hvað eru kossar? Rjett áðan kysti jeg barnsmunn.
Steinunn
- stendur upp, henni þyngir í skapi.
Hef jeg breyst, úr því þjer þykir ekki jafn vænt um mig, nú sem fyr.
- Dregur djúpt andann, snertir silfurmillurnar á bolnum.
Einu sinni sagðir þú mjer, að þessar silfurmillur væru lifandi, — þær ættu hver sína sál. Þú sagðir, að það, að jeg drægi andann, gæfi þeim líf. Jeg dreg andann eins og jeg hef dregið hann áður. Jeg tala og hlæ og græt á sama hátt og áður. Í vor varstu á fótum um sólaruppkomu, þegar jeg átti að kveikja upp eldinn. Þú sagðir, að þjer þætti svo gaman að því, að sjá eldsbjarmann á andlitinu á mjer. Nú verð jeg að láta mjer nægja að skrifa nafn þitt í öskuna. — Eldsbjarminn hefur þó varla breyst.
Loftur
Vertu ekki svona áköf.