Fara í innihald

Blaðsíða:Galdra-Loftur (1915).djvu/42

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

38

Ólafur

gengur inn eftir stofugólfinu.

Jeg kom, Loftur, til þess að tala við þig í hreinskilni, um málefni, sem lengi hefur valdið mjer hugarangurs.

Sest á bekkinn, situr þögull.

Loftur

flytur stól og sest hjá honum.

Hvað er það, Ólafur?

Ólafur

Steinunn hafði dvalið hjer á staðnum rúman mánuð, þegar jeg kom heim úr seinustu skreiðarferðinni. Jeg sá á augabragði, að hún var breytt. Hún forðaðist mig. Áður var hún altaf blátt áfram við mig, þegar við hittumst.

Málrómurinn hitnar.

Þekkir þú, hve áköf ósk getur gert menn auðtrúa. Jeg, heimskinginn, hjelt að hún hefði tekið eftir því, að jeg elskaði hana, og að þetta væri feimni.

Loftur

stendur á fætur.

Ólafur!

Ólafur

Nei, þú mátt ekki taka fram í fyrir mjer.

Loftur sest aftur.