Þessi síða hefur verið prófarkalesin
53
Þei! Blessuð gamla kirkjan mín!
- Hlustar. — Söngurinn þagnar. — Horfir á Loft, skellihlær.
Sjá þig, hvernig þú gónir!
Loftur
- hikandi.
En hvað þú ert orðin fullorðinsleg, á þessu eina ári. Þegar þú fórst, varstu barn.
Dísa
- upp með sjer.
Já, þú mátt reiða þig á, að jeg er orðin fullorðin. Jeg kemst ekki í neinn af gömlu kjólunum mínum.
- Gengur hratt að Lofti, hvíslar hlæjandi.
Jeg hef meira að segja fengið biðil!
- Hopar, hálf-skömmustuleg. Í sömu andránnni brosir hún á ný, bendir.
Þarna er kvisturinn, sem er eins og lítið, hrukkótt andlit. Jeg gleymi því aldrei, þegar þú gintir mig til þess að sitja heila klukkustund og bíða eftir því, að hrossafluga, sem var á flögri, settist framan í hann. Þá átti hann að depla augunum.
- Skælir sig og deplar augunum. Ógnar honum með kreptum hnefa.
Óhræsis strákurinn þinn! Nei, nú fer jeg inn og heilsa upp á stofurnar okkar. Kemurðu með mjer?