Þessi síða hefur verið prófarkalesin
54
Loftur
- lætur eins og sjer standi á sama.
Svo yngismeyjan hefur fengið biðil?
Dísa
- sigri hrósandi.
Því áttir þú ekki von á! Hvað hefðir þú gert, ef jeg hefði gefið honum jáyrði?
Loftur
- horfir forviða á hana andartak.
Dísa
- óþolinmóð.
Hana! — segðu það!
Loftur
Jeg hefði söðlað hvíta gunnfákinn minn, og riðið við mikið lið skemstu leið yfir öræfin. Jeg hefði skorað hann á hólm, og valið okkur vígvöll á eyðihólma í straumhörðu fljóti. Blóð hans hefði litað mölina eins og eyrarrósarflekkir.
Dísa
- grípur hlæjandi fram í fyrir honum, eftir að hafa horft á hann með athygli litla stund.
Ha! ha! Þú heldur að þú getir talið mjer trú um alla skapaða hluti enn, eins og þegar við vorum krakkar. Þú átt engan gunnfák, ekkert lið, og öræfin eru ófær á veturna!