Þessi síða hefur verið prófarkalesin
58
- Horfir á hana.
Hugsaðu þjer skip, sem liggur við akkeri og langar til þess að sigla.
Dísa
- hristir höfuðið.
Jeg veit ekki, við hvað þú átt.
Loftur
- rólegri.
Jeg hef margsinnis siglt í huganum. Jeg stóð inni á miðjum öræfum, og sigldi landinu langt, langt suður í höf. Jöklarnir voru hvít, þanin segl, sem sólin skein á, og blá fjöllin lyftust og hnigu í hafrótinu.
Dísa
- hefur horft á hann aðdáunaraugum, alt í einu kemur bros á andlitið á henni.
Þetta minnir mig á gamla leikinn okkar, þegar þú flaugst með mig á flugábreiðunni þinni.
- Bendir.
Þarna liggur hún ennþá, gamla ábreiðan okkar.
- Gengur þangað.
Loftur
- gengur að ábreiðunni.
Nú notar pabbi hana undir fæturna. Eigum við að reyna, hvort hún enn þá hefur sína fornu náttúru?